04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í D-deild Alþingistíðinda. (3782)

916. mál, álit háskólanefndar

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Í septembermánuði s.l. skilaði svonefnd háskólanefnd skýrslu um störf sín og tillögum í sambandi við eflingu Háskólans fram til ársins 1950. Háskólanefnd var skipuð af menntmrh. í sept. 1966, og í n. sátu alls 11 menn, að ég hygg, og Jónas Haralz, sem þá var forstjóri Efnahagsstofnunarinnar, var formaður n. Sex prófessorar sátu í n., þar á meðal þáverandi rektor Háskólans, Ármann Snævarr, einn fulltrúi var frá stúdentaráði og auk þess áttu sæti í n. formenn menntmn. deilda Alþingis o.fl. Þó varla sé hægt að segja, að þetta nál. sé ákaflega ítarlegt, þá er það eigi að síður mjög greinargott og fróðlegt um margt.

Till. háskólanefndar eru í megindráttum mjög athyglisverðar, enda virðast þær að verulegu leyti sniðnar eftir þeim hugmyndum, sem efst eru á baugi í háskólamálum í öðrum löndum. Ég hef lítillega borið till. háskólanefndar saman við samsvarandi álit og till. norskrar háskólanefndar, sem enn er að störfum, og sýnist mér eitt og annað svipað í till. beggja n., þó að annað kunni að vera þar ólíkt, eins og gengur. Það skiptir höfuðmáli í þessu sambandi, að till. háskólanefndar eru að meginstefnu skynsamlegar og ég held framkvæmanlegar. Það skiptir einnig máli og ber að viðurkenna, að háskólanefndin gerði sér grein fyrir, að Háskólinn, eins og hann er nú, verður að breytast, ef ekki á að verða alger stöðnun í starfsemi hans. Hinu er vart að leyna, að till. n. leysa ekki allan vanda, og því miður er ég hræddur um, að n. hafi hliðrað sér hjá að taka til meðferðar eitt og annað, sem vandasamt er úrlausnar, en krefst þó sannarlega úrbóta og umhugsunar, eins og t.d. kennslufyrirkomulagið í læknadeild Háskólans og viðhorf deildarinnar til læknaskortsins í landinu. En þrátt fyrir það er heildarstefnan í till. háskólanefndar athyglisverð og fyllilega þess virði, að hún verði tekin upp sem meginstefna í þróun Háskólans. Því höfum við hv. 2. þm. Reykn. leyft okkur að spyrja hæstv. menntmrh. þeirra spurninga, sem hér eru nú til umræðu.

Það skiptir afar miklu máli, að afstaða sé tekin til þessara till. sem allra fyrst. Háskólanefndin bendir á, að nauðsynlegt sé að taka afstöðu til till. svo tímanlega, að tillit verði tekið til þeirra við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Það, sem n. bendir aðallega á, er, að efling Háskólans verður að gerast stig af stigi næstu 10 ár og til þess að hægt sé að koma þeirri þróun áleiðis, verði að auka fjárveitingar til Háskólans jafnt og þétt í 10 ár. Enginn, sem nokkra nasasjón hefur af ástandinu í Háskólanum, getur verið í minnsta vafa um, að hér er sízt ofmælt. Háskólinn er á þeim tímamótum nú, að það verður að taka myndarlega á málum hans sem allra fyrst og alls ekki minna né síðar en háskólanefndin gerir ráð fyrir.