04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í D-deild Alþingistíðinda. (3783)

916. mál, álit háskólanefndar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. N. sú, sem menntmrn. skipaði haustið 1966 til þess að semja áætlun um þróun Háskóla Íslands á næstu 20 árum, skilaði skýrslu sinni í lok sept. s.l. Í skýrslunni eru, svo sem kunnugt er, sett fram sjónarmið varðandi meginstefnu um eflingu Háskóla Íslands, að mestu miðað við tímabilið fram til 1980. Ríkisstj. fjallaði um skýrsluna þegar eftir að hún barst og samþykkti að beita sér fyrir framkvæmd tillagna n. í aðalatriðum. Í samræmi við þá ákvörðun var þegar í drögum að framkvæmdaáætlun ársins 1970, sem birt var sem fskj. með frv. til fjárl. fyrir árið 1970, gert ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi til byggingar húsnæðis fyrir Háskólann. Er gert ráð fyrir því, að á næstu 4 árum verði 30 millj. kr. framlag á fjárl. árlega til bygginga í þágu Háskólans, og er það í samræmi við þá heildarfjárþörf, sem háskólanefnd gerði ráð fyrir. Jafnframt var skýrsla háskólanefndar með bréfi menntmrn. 21. okt. s.l. send háskólaráði og óskað álits og till. Háskólans um, hvernig unnið skuli að framgangi þeirra málefna, sem felast í niðurstöðum n. Er nú starfað að athugun þessara mála í Háskólanum. Sumar deildir Háskólans munu um það bil að ljúka athugunum sínum, en aðrar munu ljúka þeim í síðasta lagi í næsta mánuði. Mun ríkisstj. þá þegar taka till. Háskólans til athugunar og taka afstöðu til þeirra, áður en fjárlagafrv. fyrir árið 1971 verður samið.

Fjárveiting til Háskóla Íslands í fjárlögum 1970 nemur 60.8 millj. kr., og nemur hækkunin frá síðustu fjárl. 12.6 millj. kr. Fjárveiting til læknadeildar einnar hækkar um 2.9 millj. kr., og er tæpur þriðjungur þeirrar hækkunar bein afleiðing af nýjum reglugerðarákvæðum um endurskipun læknanámsins. Af innstæðum Happdrættis Háskóla Íslands við s.l. áramót eru a.m.k. 20 millj. kr. ráðstöfunarhæfar til nýrra framkvæmda, tækjakaupa og viðhalds. Miðað við sölu happdrættismiða í janúar 1970 og áætlaðar vaxtatekjur happdrættisins má gera ráð fyrir um 50% aukningu brúttótekna á þessu ári. Happdrættið getur því væntanlega lagt til Háskólans 38–40 millj. kr. af tekjum þessa árs, en það er um 10–12 millj. kr. hærri fjárhæð en var á árinu 1969. Er af þessum upplýsingum augljóst, að séð hefur verið fyrir því fé, sem háskólanefnd taldi nauðsynlegt á næstu 5 árum til bygginga í þágu Háskólans.