04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í D-deild Alþingistíðinda. (3785)

916. mál, álit háskólanefndar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér sýndist þessi seinni ræða hv. flm. hafa verið undirbúin fyrir fram og miðuð við annað svar en það, sem ég raunverulega gaf. Mér heyrðist á henni, að hún væri miðuð við það, að ég vildi ekkert segja um það, hvort ríkisstj. hefði tekið ákvörðun um að framfylgja till. háskólanefndarinnar. Það gerði ég ekki. (Gripið fram í.) Já, það þykir mér vænt um að heyra. Þá skal ég láta niður falla það, sem ég annars ætlaði að segja, og er mér mikil ánægja að þurfa ekki að segja það.

Ég vil þá aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ríkisstj. hefur þegar samþ. að framfylgja till. háskólanefndar í aðalatriðum og hefur þegar séð fyrir því, að það fé, sem háskólanefndin taldi nauðsynlegt til byggingar á næstu 5 árum, verði fyrir hendi. Við meiru er ekki hægt að búast af ríkisstj. á þessu stigi, þar sem henni hafa enn ekki borizt till. háskoladeildanna. En ég lýsti því yfir áðan, og ég skal lýsa því yfir aftur, að ég mun taka þær till. til athugunar strax og þær berast, og þær munu fá eðlilega meðferð, áður en fjárlög fyrir 1971 verða samin. Og ég get bætt því við, að á því tel ég ekki nokkurn efa, að við Háskólann verða opnaðar nokkrar nýjar námsleiðir þegar á hausti komanda. Ég hef fylgzt með störfum háskóladeildanna í þessum málum, þó að ég hafi ekki fengið formlegar till. enn, svo að það á ekki að þurfa að taka mjög langan tíma að taka afstöðu til þeirra, og niðurstaðan verður tvímælalaust sú, að opnaðar verða nokkrar nýjar námsleiðir þegar á næsta hausti.