05.03.1970
Sameinað þing: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í D-deild Alþingistíðinda. (3790)

103. mál, hafnarmálefni

Fyrirspyrjandi (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Við hv. 6. þm. Sunnl. höfum leyft okkur að bera fram fsp. á þskj. 122. Hún er á þessa leið: „Hvað liður rannsóknum á möguleikum til hafnargerðar í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu og við Dyrhólaey í Vestur-Skaftafellssýslu?“

Ég vil leyfa mér að fylgja þessari fsp. úr hlaði með örfáum orðum. Árið 1957 fór fram nokkur undirbúningsathugun á hafnarstæði við Dyrhólaey. Hafði Eysteinn Jónsson þáv. ráðh. forgöngu um þessa athugun. Síðan hafa stjórnvöld ekki, svo að vitað sé, gert neina sérstaka gangskör að því að fá úr því skorið með nauðsynlegum rannsóknum, hvort raunhæft sé að byggja á þessum stað við Dyrhólaey. Á árinu 1961 var samþ. á hv. Alþ. ályktun þess efnis, að ríkisstj. væri falið að láta fara fram rannsókn á möguleikum til hafnargerðar á þessum stað, og enn fremur sams konar rannsókn í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu. Síðan hafa af og til verið gerðar fsp., hvernig þessum málum væri komið, en ekki fengizt viðhlítandi svör.

Enn er fsp. fram borin um þetta sama efni. Í Landnámabók segir, að svæðið milli Hornafjarðar og Reykjaness hafi síðast orðið albyggt í landinu, því þar réð veður og brim landtöku manna fyrir hafnleysis sakir og öræfis. Allar götur fram á síðustu áratugi hefur strönd þessi búið við hafnleysi. Rætzt hefur nokkuð úr á vesturhluta suðurstrandarinnar með tilkomu hafnar í Þorlákshöfn, svo og hafnarlagfæringum ýmiss konar á Stokkseyri og Eyrarbakka. Áður fyrr var sjór sóttur á þessari hafnlausu strönd og eigi síður að austanverðu, svo sem í Mýrdal og fyrir Landeyjasandi. Þetta var að sjálfsögðu lífsnauðsyn, og ekki undankomu auðið að leita sér bjargar með fiskifangi. Undan landi voru hin fengsælustu fiskimið, en við stórkostlega erfiðleika var að etja. Sjóslysin voru tíð og mannfall mikið. Eigi að síður voru árar ekki lagðar í bát og sótt var meðan sætt var. Þetta var á fyrri tíð.

Það er ekki nema eðlilegt, að Vestur-Skaftfellingar færu snemma að huga að því, hvert ráð skyldi taka upp til hafnar- eða lendingarbóta. Á sýslufundi í Vestur-Skaftafellssýslu 1870 var því fyrst hreyft, hvort eigi væru tiltök að athuga um hafnargerð í Dyrhólaey. Hinir skaftfellsku bændur á sýslufundi sendu stjórnvöldum erindi þess efnis, að þau létu fram fara rannsókn á hafnarstæði við Dyrhólaey. En ekkert frekar varð um aðgerðir.

Árið 1901 skrifaði franskur hefðarmaður, sem hér í landi dvaldist nokkur ár og var kallaður baróninn á Hvítárvöllum, grein í blaðið Ísafold. Grein þessi fjallaði um útgerð togara. Í greininni ráðgerir hann, að gerðir verði út 16 togarar á vegum félags, sem stofnað yrði með erlendu fjármagni, ef leyfi fengist til veiða í landhelgi fyrir suðurströndinni. Um þessar mundir var Guðlaugur Guðmundsson sýslumaður þeirra Skaftfellinga og jafnframt þm. Vestur-Skaftfellinga. Hann varð strax mjög hrifinn af þessum bollaleggingum barónsins og fékk fylgi Skaftfellinga við þær. Flutti hann skömmu síðar á Alþ. frv. til l. um heimild til að veita undanþágu frá lögum um bann gegn botnvörpuveiðum. Þessi undanþága átti að gilda í 50 ár og snerta landhelgissviðið út af Skaftafellssýslu. Taka átti fram í leyfisbréfi, þegar þar að kæmi, ýmis skilyrði, svo sem að bæta skyldi það tjón, sem fiskveiðar Skaftfellinga yrðu fyrir fyrir þessa sök, en þó var aðalskilyrðið hitt, að leyfishafi byggði trygga höfn við Dyrhólaey. Umr. urðu harðar mjög um þetta mál og sviptingar miklar, og svo lauk, að frv. Guðlaugs Guðmundssonar var fellt með jöfnum atkv., 10 atkv. gegn 10. Var talið, að landshöfðingi sjálfur, Magnús Stephensen, sem var ættaður úr Rangárþingi, hefði fremur verið fylgjandi þessu frv. En mér er ekki kunnugt um það, hvort hann hafi greitt atkv., sennilega hefur hann ekki haft atkvæðisrétt. Í þetta skipti má segja, að þetta mál hafi komizt einna lengst. En því segi ég þessa sögu, sem er í allra stærstu dráttum sögð hér, að það sé ljóst, að hér hefur ekki verið um neitt yfirborðs- eða hégómamál að ræða á þeirri tíð, heldur hafi hugur fylgt máli og býsna langt seilzt til framdráttar því. Og þó að málið sé svo mjög til ára sinna komið, þá hygg ég og veit, að áhugi Skaftfellinga er hinn sami og þeim kappsmál, að til úrslita dragi um nauðsynlegar rannsóknir og niðurstöður á grundvelli þeirra. Og það, sem skiptir máli í dag, er að lokið verði sem fyrst rannsóknum á hafnarstæði á þessum slóðum, svo úr því fáist skorið, hvort framkvæmanleg sé hafnargerð og þá hvernig uppbygging hafnarinnar ætti að vera. Enn fremur að gerð verði kostnaðaráætlun. En það er fjarri því, að úrlausn um þessi atriði sé að nokkru leyti fengin. Og eins og ég sagði áður, þá hefur Alþ. fyrir löngu samþ., að nauðsynleg rannsókn skuli fram fara til athugunar á möguleikum á hafnarstæði þarna og við fyrirspyrjendur teljum það skyldu stjórnvalda að ganga úr skugga um það svo sem auðið er, hvort möguleikar kunni að vera til hafnarframkvæmda á þessum slóðum.

Í annan stað fjallar fsp. um sams konar rannsókn á hafnarstæði í Þykkvabæ. Þar í sveit var á sínum tíma útræði nokkurt og ekki talið ólíklegt, að vísu af leikmönnum, að þar mætti koma við hafnarhótum af einhverju tagi eða hafnargerð. En um það mál hefur ekki verið svo mjög rætt sem um hafnarmál við Dyrhólaey og eigi heldur svo gamalt í hettunni. Eigi að síður hefur um langa hríð verið vakandi áhugi í héraði um að hafizt yrði handa um rannsóknir á hafnarstæði í Þykkvabæ. Og ég hygg, að ég fari rétt með það, að fyrir allmörgum árum hafi verið gerðar athuganir á hafnarskilyrðum í Þykkvabæ, en á hverra vegum þær hafa farið fram, veit ég ekki til fulls; sjálfsagt munu einhver gögn finnast hjá opinberum aðilum, ef hugað væri að, og væri í raun og veru fróðlegt að fá vitneskju um það hjá hæstv. ráðh., hvort hann gæti komið við athugun um það atriði. Kannske hefur hann nú í dag það á færum sínum að veita upplýsingar að þessu leyti.

Sem sagt, það er um það spurt, hver rannsókn hafi farið fram á þessum tveimur stöðum að því er varðar möguleika á hafnarstæðum og hverjar séu niðurstöður þeirra rannsókna.