05.03.1970
Sameinað þing: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í D-deild Alþingistíðinda. (3792)

103. mál, hafnarmálefni

Fyrirspyrjandi (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Ég þakka að sjálfsögðu hæstv. ráðh. hlutlægar og tiltölulega greinargóðar upplýsingar varðandi fsp. En mér þótti það ljóður á ráði hans í upphafi ræðunnar, að hann skyldi halda því fram, að ég hefði sagt í minni ræðu, að ekkert hefði verið gert. Það sagði ég ekki. (Gripið fram í.) Já, þetta var misheyrn hæstv. ráðh., og þá ræðum við ekki meira um það. En hitt er allt annað mál, að nú er komið í ljós, að rannsóknir hafa ekki endanlega átt sér stað á þeim tveimur stöðum, sem um getur í fsp. og um er rætt hér, og kannske er ekkert við því að segja. Vitamálastjóri segir í sinni grg., að nauðsyn sé að halda uppi frekari rannsókn á þeim svæðum, ekki aðeins vegna þessara tveggja staða heldur og vegna annarra atriða, að því er varðar eðli strandarinnar, öldugang o.s.frv. Einnig er það ljóst og okkur fyrirspyrjendum var það, áður en við lögðum fsp. fram, að þetta hvort tveggja eru stórmál og úr vöndu að ráða. En mín ætlun var sú, þegar ég ýtti ásamt hv. 6. þm. Sunnl. þessari fsp. úr vör, að fá upplýsingar um það, á hvaða stigi rannsóknir væru og hvort þær væru komnar svo langt, að stjórnvöld gætu skorið úr því að sínu leyti, hvort raunhæft væri að byggja hafnir á þessum stöðum, og stjórnvöld þurfa að minni hyggju að sjálfsögðu fyrst og fremst að gera það upp við sig, á hvorum staðnum réttara og eðlilegra er að hefja hafnargerð, ef að því ráði yrði horfið.

Rétt er það hjá hæstv. ráðh., að kostnaðurinn hlýtur að verða stórfelldur og héruðunum, sem þarna er um að ræða, er það algerlega um megn og ókleift að standa að sínum hluta, eins og lögum um hafnargerðir er háttað, og þess vegna þyrfti að sjálfsögðu lög um landshöfn, á hvorum staðnum sem er. Það er rétt. En ég hygg, að það sé þarflaust af minni hálfu að ræða frekar um ræðu hæstv. ráðh. Hann, eins og ég gat um, hefur gefið hér hlutlægar upplýsingar, hvernig þessi rannsóknarmál standa, og ég get vel fallizt á það, að frekari rannsókna sé þörf og athugana um það, hvort leggja beri og hvernig leggja beri í hafnargerð á þessum stöðum og hvers konar hafnir þar ættu að vera í uppbyggingu. En vegna þess, eins og hæstv. ráðh. veit, að áhugi er mikill uppi í héruðunum um að fylgzt sé vel með þessum málum, og rannsóknir eigi sér stað og þeim ljúki, þá var fsp. fram borin, og ég hygg, að það megi róa okkur alla, ef vitamálastjóri og ríkisstj. halda áfram þeim rannsóknum, sem nú eru hafnar.

Hæstv. ráðh. vék að mér nokkrum orðum á þá lund, að bann óskaði eftir svari mínu við því, hvora höfnina ég vildi láta ganga fyrir. Ef ég hefði sjálfdæmi um það algerlega, gæti vel verið, að ég hefði svar á takteinum þegar í stað, en mér finnst rétt, að ég bíði eftir áliti stjórnvalda um það, hvor staðurinn, að undangenginni frekari rannsókn mála, væri tilkippilegri, og ætla að bíða og sjá til, hver endanleg rannsókn verður og hvað stjórnvöld leggja helzt til.