11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í D-deild Alþingistíðinda. (3797)

919. mál, veiðiréttindi útlendinga

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 367 að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. landbrh.:

„1. Hve margir útlendingar hafa fengið veiðileyfi í laxám landsins árin 1967, 1968 og 1969?

2. Með hvaða hætti á leigan sér aðallega stað?

3. Hve mikið var greitt fyrir þessi veiðileyfi eða leigu í laxám í erlendum gjaldeyri s.l. 3 ár (hvert fyrir sig) ?“

Ég vil aðeins gera örlitla grein fyrir því, af hverju ég ber þessa fsp. fram, svo að menn átti sig á því, hvað hefur verið að gerast í þessum málum undanfarið.

Ásókn erlendra sportveiðimanna í íslenzk veiðivötn og ár hefur svo sem kunnugt er margfaldazt á síðustu árum, einkum þó og sér í lagi á s.l. ári, og er aðalorsökin talin sú fjármálaþróun, sem átt hefur sér stað í landinu sjálfu. Veiðileyfi þau, sem íslenzkum veiðimönnum þóttu meira en nógu dýr, eru nú orðin smávægileg og lítils virði í augum útlendra veiðimanna, er jafnkostamikil veiðivötn eru á boðstólum og íslenzku árnar og vötnin. Hinir erlendu sportveiðimenn hafa því í æ ríkara mæli reynt að tryggja sér aðstöðu og aðgang til sportveiða hér á landi, ýmist beint í gegnum veiðiréttareigendur sjálfa, ferðaskrifstofurnar, einstaka fjársýslumenn, er tekið hafa íslenzkar ár og vötn á leigu með það höfuðsjónarmið fyrir augum að endurselja þau útlendingum í gróðaskyni, og svo loks hafa þessir menn að einhverju leyti fengið eitt og eitt veiðileyfi í gegnum félagasamtök stangaveiðimanna. Þessi þróun veiðimála á íslenzkum ám og vötnum hefur og leitt til þess, að leigan fyrir þau hefur stórhækkað, jafnvel tvöfaldazt sums staðar, svo að búast má við, að íslenzkir sportveiðimenn verði utan gátta og útilokaðir frá því í framtíðinni að veiða lax og silung á stöng í landi sínu, ef þessi þróun heldur áfram eftirlitslaus. Vitað er, að Seðlabanki Íslands hefur undanfarna mánuði reynt að afla sér tæmandi og viðhlítandi upplýsinga um leigu veiðivatna til útlendinga og gjaldeyristekjur í því sambandi, en orðið furðulítið ágengt í þeim efnum, jafnvel þótt leitað hafi verið víða til fanga.

Nú skal það hins vegar skýrt og afdráttarlaust tekið fram í þessu sambandi, að sízt er við því að amast, að þjóðinni áskotnist góðar gjaldeyristekjur af þessum viðskiptum við hina erlendu sportveiðimenn. En landslög mæla skýrt og afdráttarlaust svo fyrir, að mönnum beri skylda til að gera grein fyrir gjaldeyristekjum sínum, og í þeim efnum eru hvorki bændur, stangaveiðimenn, ferðaskrifstofur né aðrir undanþegnir. Ég tel rétt og sjálfsagt í sambandi við fsp. að drepa á leigu einstakra áa, þó að það verði ekki tæmandi, því að tíminn er stuttur.

Laxá í Kjós, sem undanfarin ár hefur verið leigð Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og það félag gætt mikillar fiskræktar í ánni, hefur nú nýverið fallið úr leigu til Stangaveiðifélags Reykjavíkur, en hins vegar verið leigð tveimur einstaklingum fyrir helmingi hærra verð en áður var eða yfir 100% hækkun, í þeim eina tilgangi, svo sem augljóst er, að endurleigja ána til útlendra sportveiðimanna og varnarliðsmanna á þessu ári. Þetta dæmi eitt út af fyrir sig er táknrænt um hugsanagang og aðstöðumun í leigumálum veiðimálanna. Stærsta og fjársterkasta stangaveiðifélag landsmanna með yfir 1000 félaga að bakhjarli og yfirgripsmikla fiskræktarstarfsemi telur sig ekki hafa bolmagn til að keppa um eina fengsælustu laxveiðiá landsins við tvo einstaklinga, sem ætla sér vitanlega að hagnast á því með endurleigu til útlendinga.

Laxá í Leirársveit, en formaður veiðifélags árinnar kvað vera sjálfur formaður Landssambands veiðifélaganna, var á s.l. ári, með sérstökum samningi, afhent kunnum laxveiðimanni, Kristjáni Sigurmundssyni, í Reykjavík með það fyrir augum að gefa honum tækifæri til 1. marz 1970 að endurleigja ána útlendingum. Tækist hins vegar Kristjáni ekki þessi starfsemi, þannig að við mætti una, voru leigusalar lausir allra mála við Kristján með það auðvitað fyrir augum að geta þá snúið sér aftur að fyrri leigjendum sínum, þ.e. innlendum sportveiðimönnum, og notað peninga þeirra til framfæris. Hér er um svo einstakt tilfelli í leigu íslenzkra veiðivatna að ræða, að það á sér sennilega enga hliðstæðu. Félag innlendra stangaveiðimanna, sem leigt hefur þetta veiðivatn fyrir hátt gjald á undanförnum árum og nýtt ána skynsamlega og vel, er sett skör lægra en maðurinn, sem hafði fengið veiðileyfi hjá þeim og nú bauðst til þess að leigja ána útlendingum, auðvitað fyrir hærra verð, og þá sjálfur að sjálfsögðu í hagnaðarskyni. Þetta er enn eitt dæmi um það, að íslenzkir stangaveiðimenn eru taldir 2. flokks viðsemjendur.

Þverá í Borgarfirði var á síðasta ári leigð ungum lögfræðingi, sem ásamt fleirum átti veiðiréttindi að ánni, fyrir stórhækkað leigugjald frá því sem áður var, enda með bankatryggingu að bakhjarli. Fleira mætti segja um þessa á. En ég ætla að nefna hér nokkur önnur dæmi, sem þekkt eru.

Um nokkurt árabil hefur Englendingurinn Cooper haft leigu af Vatnsdalsá í Austur-Húnavatnssýslu og til þess fengið leyfi íslenzkra yfirvalda. Þar er um samning til lengri tíma en þriggja ára að ræða. Virðist nú ljóst og yfir allan vafa hafið, að Cooper hafi ekki tekið ána á leigu til þess eins að stunda þar sjálfur veiðar eða bjóða þar til veiða nokkrum vinum sínum, heldur til þess að selja erlendum aðilum leyfi til veiða í ánni. Hafa leyfi þessi verið föl í Bretlandi og jafnvel auglýst þar. Mun Cooper nú hafa sótzt eftir leigu á efri hluta Þverár í Borgarfirði, og virðist augljóst, að leigutakinn erlendis sé nú að færa út kvíarnar, væntanlega með sams konar hagnýtingu Þverár fyrir augum og Vatnsdalsár. Í eðli sínu er starfsemi Coopers í því fólgin að taka á leigu íslenzkar ár eða hlunnindi og endurleigja að meiri eða minni hluta erlendis. Felst í þessu ýmiss konar starfsemi, sem virðist orka tvímælis. Má til nefna gefnar upplýsingar um veiðiaðstöðu, veiðilíkur, móttöku erlendra ferðamanna, útvegun húsnæðis til gistingar, auk leiðsögu við veiðistaði og ýmsa aðra þjónustu. Verður ekki annað séð en hér sé Cooper að fara inn á svið ferðaskrifstofa landsins, sbr. 1. gr. laga um ferðamál og jafnvel alla 4 liði þeirrar greinar. Þá er önnur hlið á þessu máli Coopers, sem telja verður mjög athugaverða, ef ekki fara með öllu í bága við reglugerðir um gjaldeyrismál og jafnvel atvinnurekstur. Virðist leigutakinn vera að selja erlendis aðgang að íslenzku veiðivatni fyrir verð, sem íslenzk yfirvöld hafa jafnvel hvorki aðstöðu til þess að sannreyna né fá að fylgjast með, eftir því sem bezt er vitað.

Því miður er dæmið um Cooper ekki einsdæmi. Nýlega hefur annar brezkur maður tekið á leigu umfangsmikil veiðisvæði, Hofsá í Vopnafirði. Mun fyrirkomulag á starfsemi hans í flestu líkt eða eins og um getur við Vatnsdalsá, og nú virðist eiga að ná til fleiri veiðivatna, sbr. nýgerða samninga um Þverá. Í stuttu máli virðist ljóst, að eins og sakir standa hafi erlendir aðilar víðtæka möguleika á því að bjóða í íslenzk veiðivötn, taka þau á leigu og endurselja veiðileyfi, án nauðsynlegs eftirlits og heimilda, erlendis. Svarar þetta í raun og veru til þess, að þeir taki að sér hlutverk heildsalans í þessum málum, en gegni jafnframt hlutverki smásalans erlendis. Mun þetta sennilega án fordæmis á öðrum sviðum íslenzka viðskipta- og fjármálalífsins.

Þá er önnur þróun hafin í innlendum árleigum, sem virðist ákaflega varhugaverð og stefnir í þá átt, að innlendir einstaklingar taki á leigu ár í þeim tilgangi einum, eða fyrst og fremst, að selja veiðiréttindi í þeim á erlendum markaði. Virðist sú sala og starfsemi öll vera eða eiga að vera mjög í sama dúr og fyrr greinir um starfsemi Coopers. Á s.l. vori gerði þannig einstaklingur hér í Reykjavík sérstakan samning um Laxá í Leirársveit, eins og áður var minnzt á.

Þar sem tími minn er á þrotum, vil ég aðeins undirstrika það, að hér hlýtur það að vera frumskilyrði til þess, að Íslendingar sjálfir og þá ekki sízt veiðiréttareigendur, bændurnir sjálfir, njóti ávaxtanna af heimsókn erlendra veiðimanna, að smásala veiðiréttinda fari fram á þeirra vegum. Það er sú ósk og það skipulag, sem ég tel að eigi að vera á þessum málum. Bændunum sjálfum veitir sannarlega ekki af því að fá sem mest fyrir sinn snúð, fyrir sín leiguréttindi, en þau gangi ekki kaupum og sölum erlendis.