11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í D-deild Alþingistíðinda. (3799)

919. mál, veiðiréttindi útlendinga

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir upplýsingarnar. Það var ekki við því að búast, að þær væru tæmandi, og það viðurkenndi hann. En hitt var fróðlegt, að það fæst þó viðurkennt á Alþ., að kerfið er þannig, að við fylgjumst sáralítið með í þessu efni, þó að það verði von bráðar, eins og hann lét reyndar eindregið í ljós, að hér verði um stóratvinnugrein að ræða fyrir bændur og ferðamannastraumur aukist til landsins. Ég hef hérna þær upplýsingar fyrir hv. dm., að það eru boðnar núna — eru í útboði erlendis með milligöngu erlendrar ferðaskrifstofu — svo svimandi háar upphæðir í laxveiðina, að enginn Íslendingur getur látið sér detta í hug að keppa við þær. Það eru hátt í 100 dollarar á stöngina á dag. Það sér hver einasti maður, að þetta eru svo svimandi tölur í ísl. kr., að hér er farið fram úr öllu velsæmi. Auðvitað nær ekki nokkurri átt að koma ekki á þegar í stað ákveðnu skipulagi í þessu efni, þó að svo hafi ekki verið. Veiðirétturinn er auðvitað þannig, að bóndanum er vorkunn, þó að hann selji hæstbjóðanda. En hver verður það? Og með hvaða hætti skeður það? Og hver tryggir, að þeir peningar komi til þess manns, sem helst á að njóta þeirra, þegar kerfið er ekki neitt? Það getur vel verið, að það sé hægt að koma því við, og í mínum huga er það á þann hátt, að Búnaðarfélagið eða önnur stofnun, sem vinnur í þágu bændasamtakanna og veiðiréttareigenda, taki þessi mál föstum tökum. Nýlega samþykkti Búnaðarþing, sem nú situr, einmitt ályktun í þessa átt, af því að bændur finna sjálfir, að hér stefnir í óefni.

Ekki er gott að heyra, að íslenzkir sportveiðimenn skuli rækta upp, þar sem ekki er til veiði í dag, og missa svo réttinn, þegar laxinn spriklar. En til þess að þeir missi ekki þann rétt, sem þeir hafa þar, þarf að tryggja, að þeir hafi möguleika á því að veiða þann fisk, sem þeir eru búnir að rækta. En það stefnir í óefni í dag. Og allra hörmulegast finnst mér það, þegar erlendar ferðaskrifstofur bjóða hærra en íslenzkir sportveiðimenn geta boðið og ná þannig sölu á veiðirétti, sem þær selja með margföldum ágóða, jafnvel hundraðföldum, og ágóðinn rennur út úr landinu. Þetta eru staðreyndir, sem hægt er að sanna.

Að öðru leyti skal ég ekki lengja tíma hv. Alþ., en þetta mál er þannig vaxið, að það verður að taka fastari tökum en verið hefur.