11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í D-deild Alþingistíðinda. (3800)

919. mál, veiðiréttindi útlendinga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði varðandi þetta mál, sem hér hefur verið til umr., sem mig langaði til þess að gera hér aðeins að umtalsefni, og víkja spurningum að hæstv. ráðh.

Það er nú upplýst, að útlendingar taka í ýmsum tilfellum á leigu veiðiréttindi í íslenzkum ám. Það er einnig upplýst, að þessir útlendingar framselja síðan þessi veiðiréttindi jafnt til útlendra aðila og innlendra. M.ö.o.: útlendur aðili hefur tekið á leigu íslenzka veiðiá og síðan tekur hann upp atvinnurekstur í landinu með sérstökum hætti. Hann býður út veiðiréttindi til sölu, selur án efa í flestum tilfellum með verulegum hagnaði til innlendra manna stundum. Hafa þessir útlendingar, sem tekið hafa veiðiárnar á leigu, fengið leyfi til þess að hafa með höndum slíkan atvinnurekstur í landinu? Það er rétt að gera sér grein fyrir því, að hér getur orðið um talsverðan atvinnurekstur að ræða, ef menn fara að taka að sér störf sem þessi víða um land. Ég fer fram á, að hæstv. ráðh. upplýsi, hvort hann telji, að þessir útlendingar hafi fengið leyfi til að hafa með höndum þessa starfsemi, þ.e. að framselja þessi veiðileyfi til ýmist innlendra eða útlendra manna, og greiða þeir aðilar, sem þetta gera, skatta og gjöld af þessari starfsemi sinni, eins og þeim bæri skylda til? Ég held, að full þörf sé á að athuga, hvernig þessu er fyrir komið, og satt að segja sýnist mér af þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram, að þessi mál séu á ýmsan hátt komin í hið mesta óefni og það sé í rauninni skylda rn. að kanna þessi mál til hlítar, ekki aðeins frá gjaldeyrislegu sjónarmiði, sem auðvitað er sjálfsagt, heldur einnig í sambandi við þann rekstur, sem við þetta er hnýttur af hálfu útlendinga.