11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í D-deild Alþingistíðinda. (3815)

173. mál, aðild ríkisfyrirækja að Vinnuveitendasambandi Íslands

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fremur en hv. fyrirspyrjandi hefja hér almennar umr. um aðild þessara fyrirtækja að Vinnuveitendasambandinu. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að hér er um fyrirtæki að ræða, sem hafa í sinni þjónustu starfsfólk, sem tekur laun samkvæmt samningum stéttarfélaga og atvinnurekenda, en ekki samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Það er því eðli málsins samkvæmt, að það skipti þessi fyrirtæki mjög miklu máli, hvernig kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði eru, og ég held að telja megi, að það sé ekki hægt að segja, að það sé óeðlilegt, að fyrirtækin vilji gjarnan fylgjast með því, hvernig þau mál skipast, þannig að það geti talizt fjarstætt, að þau séu aðilar að Vinnuveitendasambandinu. Um þetta má auðvitað endalaust deila og skal ég ekki, eins og ég sagði, taka þátt í þeim deilum, heldur aðeins upplýsa það, eins og ég sagði, að aðild þeirra að Vinnuveitendasambandinu byggist á sérstöðu þessara fyrirtækja umfram opinberan rekstur almennt, þeirri, að þau eru háð kjarasamningum milli Vinnuveitendasambandsins og verkalýðsfélaganna, og hafa því talið rétt að eiga aðild að Vinnuveitendasambandinu til þess að koma sínum sjónarmiðum þar að. 35. Stöðlum fiskiskipa.