11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í D-deild Alþingistíðinda. (3819)

920. mál, stöðlun fiskiskipa

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég held, að það fari bezt á því, að ég svari þessari fsp., sem er í tveimur liðum, báðum liðunum í senn: annars vegar, hvað líði störfum stöðlunarnefndar fiskiskipa, við getum kallað hana svo, og hins vegar framkvæmd þál., sem samþ. var hér 1968, um athugun á stöðlun fiskiskipa til að fá fram meiri hagkvæmni í smíði skipanna.

Þegar þessi þáltill. var samþ. á sínum tíma, hafði ríkisstj. þegar haft forgöngu um að setja á laggirnar n. manna til að athuga stöðlun fiskiskipa með það fyrir augum að tryggja betur verkefni fyrir skipasmiðastöðvarnar og hagkvæmari vinnubrögð, þannig að kaupendur skipanna fengju ódýrari skip. Til þess að gera í sem stytztu máli grein fyrir þessu, þá kemur það fram um efni þessa máls í bréfi frá iðnrn. 12. júlí 1967:

„Í framhaldi af viðræðum fulltrúa skipasmíðastöðva við iðnrh. 27. júní s.l. um vandamál skipasmiðastöðvanna vegna breyttra aðstæðna og um ráðstafanir til úrbóta hafa þessi mál verið rædd innan ríkisstj. Iðnrh. og sjútvrh. hafa átt viðræður við stjórn Fiskimálasjóðs um hugsanlegar leiðir til þess að styrkja aðstöðu skipasmíðastöðvanna. Rn. beinir því hér með til yðar að tilnefna tvo fulltrúa til þess að vinna að tillögugerð um hentuga gerð íslenzks fiskiskips við núverandi aðstæður í samráði við tæknideild Fiskveiðasjóðs og Fiskifélags Íslands ásamt fulltrúum, sem sjútvrh. mun tilnefna.“

Bréf þetta er til landssambands skipasmíðastöðva. Að fenginni niðurstöðu þessa atriðis mundi tekið til frekari athugunar, með hvaða ráðum ætti að skapa skipasmíðastöðvunum verkefni á þessum grundvelli á næstunni samhliða öðrum ráðstöfunum, sem stefndu að sama marki. Síðan var þessi n. sett á laggirnar.

Ég skal geta þess, að í viðræðum okkar sjútvrh. við Fiskveiðasjóð var beinlínis rætt um að opna leið til þess, að skipasmíðastöðvarnar gætu hafið smiði á fiskiskipum, þó kaupendur væru ekki fyrir hendi, sem þó hafði verið reglan fram til þessa. Fiskveiðasjóður var mjög tregur til þessa af ýmsum ástæðum og ástæðulaust er að rekja það, en þó var talið, að eitt væri e.t.v. forsenda þess, að út í þetta væri hægt að fara, en það væri, að stöðvarnar smíðuðu skip, sem nokkurn veginn vissa væri fyrir að væru af þeirri gerð, sem útvegsmenn óskuðu eftir. Það mátti segja, að það var skynsamleg hugsun, og þess vegna var þessi nefnd m.a. sett á laggirnar og hún skilaði bráðabirgðaskýrslu strax haustið 1967. Hún er dagsett 16. okt. 1967. Í n. áttu sæti: Jósef H. Þorgeirsson, Akranesi, og Jón Sveinsson fyrir skipasmíðastöðvarnar, Hörður Frímannsson og Jón B. Hafsteinsson voru sérfræðingar Fiskifélagsins og fyrir Fiskveiðasjóð og Þorsteinn Jóhannesson og Tómas Þorvaldsson voru skipaðir af sjútvrh. Í þessari skýrslu kom fram, að þeir höfðu einmitt fram að þeim tíma, strax frá sumrinu, verið að leita eftir, hvaða gerð skipa væri eftirsóknarverðust.

Til þess að reyna að fara nokkuð fljótt yfir sögu skal ég taka aðeins örfáa þætti úr þessari skýrslu. Þar kemur m.a. fram, að n. flokkaði skipin í mismunandi flokka og var þá hugsunin að finna æskilegustu gerðina í hverjum stærðarflokki. Síðan skrifaði n. til útvegsmanna, öllum meðlimum Landssambands ísl. útvegsmanna, samtals 350–360 aðilum, og lagði fyrir þá þær spurningar hvaða gerð og stærð af fiskiskipum þeir teldu hagkvæmasta fyrir útgerðina, til hvaða veiða skipið væri ætlað og hvaða ganghraða skipsins þeir telji nauðsynlegan, hvort þeir hafi í hyggju að smíða fiskiskip á næstu 2–3 árum, og aðrar upplýsingar var beðið um, sem við teljum máli skipta, svo sem um búnað, tæki, rafkerfi o.s.frv. Bárust alls svör frá 63 aðilum, frá útvegsmönnum, og n. hafði á þessum tíma, í október, þegar hún skilaði bráðabirgðaálitinu, flokkað þau svör. Síðan tíundar n. það, að viðfangsefni hennar sé verulega flókið og megi búast við nokkrum tíma, þar til hún skili endanlegu áliti.

Það mun svo hafa verið í nóvember, sem þeir félagar, fyrirspyrjandi og hv. 9. landsk., lögðu fram sína þáltill., sem hv. fyrirspyrjandi vék að, og hún var svo afgreidd síðar á þinginu, einhvern tíma síðari hluta vetrar 1968. Endanlegt nál. hefur ekki borizt frá n. þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan af hálfu rn., en hins vegar vil ég ekki og treysti mér ekki til að segja, að endanlegt nál. kunni ekki að koma. Það væri ósanngjarnt af mér að segja það, nema ég gerði þá um leið grein fyrir því, að n. var falið að reyna að gera sér grein fyrir heppilegustu stærð fiskiskipa miðað við þær aðstæður, sem þá voru fyrir hendi. En eins og kunnugt er hér á þingi, hafa aðstæður verulega breytzt síðan, sérstaklega í sambandi við fiskveiðilöggjöf okkar og veiðileyfi, og mun það hafa haft veruleg áhrif á skoðanir manna eða óskir um stærð fiskiskipa og þar af leiðandi mikil áhrif á störf n., þannig að hún hefur hikað við, og skal ég víkja að því síðar.

Ég vil geta þess, að strax í janúarmánuði 1968 ákvað ríkisstj., þar sem þá hafði ekki borizt vilyrði Fiskveiðasjóðs fyrir að lána meira en 75%, þá ákvað ríkisstj. fyrir sitt leyti að heita skipasmiðastöðvunum því, að ef þær byrjuðu að byggja fiskiskip, þá mættu þær eiga von á 10% viðbótarláni, þannig að lánið yrði 85%. Framkvæmdin varð sú síðar, að Atvinnujöfnunarsjóður bætti þarna við, við skulum segja um 5%, þannig að eftir það lá það nokkurn veginn fyrir, að þeir, sem vildu láta smíða fyrir sig, gátu fengið 90% lán, og skipasmíðastöðvunum átti að vera óhætt að fara af stað, þó að kaupandi væri ekki fyrir hendi. Þetta leiddi til þess, að ríkisstj. þurfti í árslok 1968 að afla liðlega 20 millj. kr., og var það tekið af framkvæmda- og áætlunarfé, til þess að uppfylla fyrirheit um 10% viðbótarlán. Svo koma önnur 10% viðbótarlán á árinu 1969 í gegnum atvinnumálanefndirnar, eins og hv. fyrirspyrjandi vék að. Þær tóku við þessu verkefni, þ.e.a.s. að lána Fiskveiðasjóði af fé, sem þær höfðu þá til ráðstöfunar, eins og kunnugt er, til þess að halda áfram þessum 10% lánum. Þetta fé var tekið af erlendu fé, og þar kemur fram, að ég hygg, sá mismunur, sem hér var vikið að, að sumir hefðu fengið 10% lán án gengistryggingar og aðrir erlent fé eða með gengisáhættu.

En þá er að víkja að hinu, að aðstæður hafa breytzt, og skýrir það nokkuð mikið í þessu máli. Ég hygg, að það sé rétt, að þær breytingar, sem orðið hafa á fiskveiðalöggjöfinni fyrst og fremst og við samþykktum hér í þinginu ekki alls fyrir löngu, hafi leitt til þess, að eftirspurnin hafi nær eingöngu snúizt um minni báta, sem mældust eftir nýjum mælingarreglum eitthvað um 105 rúml. Þetta hefur verið í svo ríkum mæli, að þessi stöðlun fiskiskipanna, sem er svolítið annað en að velja hentugasta fiskiskip í mismunandi stærðarflokkum, hefur í framkvæmd orðið mjög veruleg. En það hefur áður komið fram í þinginu, að skipasmiðastöðvarnar töldu, að það væri líklegt, að hægt væri að lækka byggingarkostnaðinn um 10%, ef þær gætu smíðað 4–5 skip í einu af sömu stærð og vissu það fyrir fram.

Mér þótti rétt að afla nokkurra upplýsinga um þetta. Rn. hefur ekki alls fyrir löngu, í febrúarmánuði, spurzt fyrir um það, hvernig verkefnin standi hjá skipasmíðastöðvunum, og að hvaða verkefnum þær séu að vinna, og þá kemur eftirfarandi í ljós: Stálvík gefur þær upplýsingar, að þar sé rétt verið að ljúka við eða séu í smíðum fjórir bátar, sem eru allir af þessari sömu stærð, 105 rúml. Afhendingartíminn var 19. febr. 1970 ráðgerður í september 1970, október 1970 og nóvember 1970. En ég held, að það sé rétt, að áður hafi þeir smíðað 3 báta næstum því alveg af sömu gerð, svo að þarna sé eiginlega um 7 báta að ræða. Enn fremur er sagt, að það sé núna til umræðu samningur um áttunda bátinn af þessari sömu stærð hjá skipasmiðastöðinni. Þessar upplýsingar eru dagsettar 18. febrúar. Þeir hafa þarna þess vegna fram undan veruleg verkefni, sem máli skipta. Þeir gera svo grein fyrir því, — ég vil bara nefna það til fróðleiks, — að enn fremur fari fram viðræður við þá um smíði á 46 metra skuttogara fyrir Siglufjörð. Þeir telja sig því hafa verkefni til 9 mánaða, og rætt er um smíði, er tekur 11 mánuði í viðbót.

Á Akranesi er verið að ljúka við smíði á 105 tonna bát, nýbyrjað á öðrum 105 tonna bát og undirbúningur á smíði hins þriðja er hafinn. Svo er þar í smíðum minni bátur, 20 tonna bátur. Þetta var Akranes, og á þessum tveimur stöðum sýnast verkefnin mjög hafa miðazt við þessar tilteknu bátastærðir.

Hjá Marsellíusi Bernharðssyni, Skipasmíðastöðinni h.f. á Ísafirði, er nú verið að smíða tvo 30 tonna báta og búið er að semja um smíði á 105 rúmlesta bát, einum enn af þessari stærð. Það eru ekki fleiri samningar þar, en margar innlendar fyrirspurnir liggja fyrir.

Slippstöðin á Akureyri hefur nokkra sérstöðu. Við vitum, að þar er nýlega búið að ljúka við smíði Heklunnar og er nú verið að ljúka smíði á seinna strandferðaskipinu, en þar að auki er sinnt ýmsum viðgerðum, sem hafa farið dálítið vaxandi hjá þeim. Svo hefur verið í meðferð hjá þeim sérstök athugun, sem sagt hefur verið frá opinberlega, á hugsanlegum möguleikum á smíði á 5 bátum alveg eins, rækjubátum fyrir brasilíska aðila. Seinast þegar ég spurðist fyrir um þetta, skildist mér, að það væri eiginlega orðið samkomulag um verð þessara báta og taldar miklar líkur á, að þeir fengju smíði þessara 5 báta eða gætu bráðlega samið um það, en þó er ekki hægt að fullyrða um það að svo stöddu.

Sama er að segja um Bátalón, sem hefur lengi að undanförnu staðið í samningum um smiði á tveimur bátum, sem eru sams konar og þessir rækjubátar fyrirhugaðir fyrir Brasilíu, þeir eru af sömu gerð, tveir frambyggðir 65 tonna bátar. Formlega mun ekki vera búið að ganga frá þeim samningum, en í dag var mér sagt, að skeyti hefði borizt frá Indlandsbanka fyrir 10 dögum um, að verið sé að taka málið til endanlegrar afgreiðslu.

Þær eru auðvitað fleiri stöðvarnar, en það eru minni stöðvar. Vélsmiðja Seyðisfjarðar er að smiða tvo báta, sem báðir eru af sömu stærð, 50 rúml., og trésmiðar hafa farið fram að sams konar gerðum af bátum í Stykkishólmi, eins og kunnugt er.

Nú má segja, að ég hafi kannske dálítið farið út fyrir efnið, en það, sem ég hef verið að reyna að upplýsa hér, er, að í raun og veru hafi stöðlun á bátunum orðið í framkvæmd kannske af sérstökum ástæðum, eins og ég hef vikið að, og einnig hafi verkefnin orðið meiri í skipasmíðastöðvunum vegna þess, að lánin hafa, eins og hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir, verið aukin mikið frá 1968 til ársins 1969, og það liggur fyrir núna, að bátar, sem eru smíðaðir innanlands, geta notið þarna lána, sem nema um 90% af byggingarkostnaði skipanna.

Þetta er í stórum dráttum það, sem ég hef um þetta mál að segja, en ég vil ljúka máli mínu með því, að ég vil ekki slá því föstu, að sú n., sem var skipuð á sínum tíma, muni ekki skila endanlegu áliti. Mér hefur að sjálfsögðu fundizt það dragast allt of lengi, en mér finnst hins vegar rétt og það verður að virða þeim það til vorkunnar, að inn í málið hafa komið tilvik, sem hafa breytt nokkuð aðstæðum, og þess vegna ekki gert mjög aðkallandi, að hún raunverulega lyki því verkefni, sem henni var falið. Menn eiga eftir að gera það upp við sig, og um það get ég ekki gefið nánari upplýsingar en ég nú hef gefið.