11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í D-deild Alþingistíðinda. (3821)

920. mál, stöðlun fiskiskipa

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hef þá fengið rangar upplýsingar hjá skipasmíðastöðinni Stálvík, sem gerði mér grein fyrir þeim 4 bátum, sem ég gerði síðan grein fyrir hér, því að mér var tjáð, að þeir væru í öllum aðalatriðum eins, enda er verðið mjög svipað, þó að það sé smávegis munur á því.

Það er náttúrlega nokkuð gott að taka upp í sig og segja, að útgerðarmennirnir eða kaupendurnir eigi ekki að hanga á skrifstofum bankastjóranna. En meira hefur hins vegar verið gert á tveimur síðustu árum í útvegun lána, til þess að menn gætu byggt skip sín hérlendis, en áður fyrr.

Það getur vel verið, að það sé rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að það sé hvimleitt, hvað útgerðarmennirnir eigi erfitt með að koma sér saman um sömu stærðina, og skipasmíðendurnir séu ekki nógu harðir í horn að taka og segi við þá: Við smíðum þessi skip fyrir ykkur, en ekki önnur skip. Ég hefði viljað sjá framan í fyrirspyrjanda, ef hann hefði einhvern tíma fengið slíka móttöku hjá einhverri skipasmíðastöð, jafnvel þó að hún hefði verið norsk. En hins vegar hef ég lagt mikla áherzlu á það, að stefnt væri að þessari stöðlun, enda var hún byrjuð hér og búið var að skipa n., þegar hv. fyrirspyrjandi flutti sína till. í þinginu, — hann vissi ósköp vel um það, — og hún var þá búin að skila bráðabirgðaáliti. Þess vegna var það miklu meiri sýndarmennska en ella. Og ég held, að ég minnist þess aldrei, að það hafi áður verið fluttar svona till. um mál, sem öllum var kunnugt um og búið að segja frá, bæði í blöðum og útvarpi. Það sýnist ekki heldur hafa hert neitt á málinu. En það, sem gerðist strax í janúar 1968 og áður en till. var samþ. hér í þinginu, var, að ríkisstj. var búin að tryggja það eða gefa fyrirheit um það, að þeir, sem byggðu, skyldu fá 10% viðbótarlán hjá Fiskveiðasjóði. Þetta var eitt af því, sem till., sem samþ. var síðan um vorið, vék að og taldist vera nauðsynlegt þá til verkefnasköpunar.

Þegar hér var um það að ræða á árunum 1967 og 1968 að stuðla að verkefnasköpun fyrir íslenzkar skipasmíðastöðvar, þá lágu fyrir tilboð í iðnrn. að sams konar erlendum bátum, og þau voru algerlega samkeppnisfær um verð. Þess vegna kemur mér það spánskt fyrir sjónir nú, ef eftir tvær gengisbreytingar er hægt að fá mörgum millj. kr. ódýrara skip í Noregi eða Danmörku, eða hvað hv. fyrirspyrjandi sagði, heldur en þá var hægt. Mér kemur það einkennilega fyrir sjónir, það eru alveg nýjar upplýsingar fyrir mig, því að ég hygg, að það sé ekki vefengt, að það muni vera um 50% af gjaldeyri, sem fer í smíði skipsins.

Að sjálfsögðu er rétt að athuga nánar, hvort hér hafi orðið slíkar breytingar á, og ég man einmitt, að þegar var verið að tala um 20 millj. kr. bát í þá tíð, sem var nú af annarri stærð en við erum að tala um hér, þá lágu fyrir tilboð og voru höfð til samanburðar um verð á sams konar bátum. Það getur verið, að mig misminni eitthvað, en mig minnir, að þetta hafi verið 200–300 tonna bátur fyrir um 20 millj. kr. En ef gjaldeyririnn er 50% og gengisbreytingar hafa orðið, — erlenda gengið hefur hækkað um 100% síðan þetta var, — þá er furðulegt, að það sé allt í einu komið upp á teningnum, að hægt sé að fá svona ódýra erlenda báta. Það er nýtt í mínum augum. Mér er ekki heldur kunnugt um, að nein eftirspurn hafi verið eftir smíði erlendra báta eða nýrra báta.

Vegna fjárskorts Fiskveiðasjóðs hefur verið lögð áherzla á það að reyna að hagnýta útflutningslán erlendis, sem eru öðruvísi lán en ef Fiskveiðasjóður tæki lánið. Þau snerta ekki okkar almenna lánamarkað erlendis. Það eru útflytjendurnir þar, sem hafa aðstöðu til að veita þessi lán, og þess vegna er auðveldara fyrir okkur, betra fyrir okkur, til þess að geta notað lánamarkaðinn að öðru leyti í önnur verkefni, að geta notað þessi útflutningslán, t.d. út á vélar, sem eru verulegur hluti af kostnaðarverði bátsins. Það var rætt um það um tíma að gera sameiginleg innkaup. Þeir voru á fundum í iðnrn. hjá mér vegna þessa, bæði fulltrúar frá Fiskveiðasjóði, bönkunum og einnig frá skipasmíðastöðvunum. En það er oft erfitt að samrýma þessa hluti, en að öllu þessu er unnið.

Loks vil ég segja það, að við erum auðvitað komnir nokkuð illa, ef við getum ekki smíðað þau litlu fiskiskip, sem hér er um að ræða, með þeirri reynslu, sem skipasmíðastöðvarnar hafa hér, öðruvísi en að styrkja þær, — og hver á þá að styrkja þær? Kannske togaraeigendur, sem ætla að fara að láta smíða nýja togara með styrk? Þetta er aðalundirstöðuatvinnuvegurinn. Ég hef ekki heldur orðið var við það, að þeir, sem eru að biðja um þessa báta, hafi óskað eftir því að fá meiri aðstoð en felst í þessum lánum.

Hitt er svo annað mál, að við þurfum auðvitað að keppa að því að láta ekki erlenda keppinauta skjóta okkur ref fyrir rass. Þess vegna var það líka m.a., að þegar við nú erum að leita eftir tækniaðstoð erlendis frá og erum áð reyna að gera okkur grein fyrir því, hvar við getum helzt haft gagn af slíkri tækniaðstoð, þá hefur þess sérstaklega verið óskað, að til athugunar kæmi að taka til meðferðar rekstur skipasmíðastöðvanna, tæknibúnað þeirra og alla aðstöðu til þess að veita jafngóða þjónustu og erlendis er. Það verður meðal nokkuð margra liða, sem lögð verður áherzla á að fá erlenda tækniaðstoð við, eins og kunnugt er, að verið er að vinna að. Annars vegar höfum við fengið hingað fulltrúa frá Sameinuðu þjóðunum eða UNESCO, stofnun þeirra, sem starfar í Vín, og á vegum iðnrn. og þessarar stofnunar er nú verið að athuga, hvort slík tækniaðstoð gæti fengizt og hefur m.a. verið sérstaklega talað um skipasmíðastöðvarnar. Að öðru leyti væri hægt að fá aðstoð á þessu sviði í sambandi við Iðnþróunarsjóðinn, en eins og kunnugt er er hann nú að taka til starfa eftir inngöngu okkar í EFTA.

Ég vil þess vegna mega vona það, að skipasmiðastöðvarnar séu nú á sæmilega góðum vegi staddar. Það hefur verið talað um erlenda, stóra togara, sem við sennilega þurfum að leita út fyrir pollinn til þess að fá smíðaða, þó ekki væri nema af fjármögnunarástæðum. Hins vegar er það kunnugt, að áhugi er fyrir að smíða skuttogara hér innanlands hjá nokkrum bæjarfélögum og útgerðum þeirra, og í mínum huga hefur það staðið svo, að við ættum vel að vera færir um að byggja þá sjálfir, og yrði það niðurstaðan, yrði það helzt Slippstöðin á Akureyri, sem um væri að ræða. En miðað við það, sem ég sagði áðan um verkefni annarra skipasmíðastöðva, ætti þeim öllum að vera séð nokkuð vel fyrir verkefnum í framtíðinni. Auðvitað er ómögulegt að neita því, að þeir, sem hafa aðstöðu til þess að kynna sér þróaðar skipasmíðastöðvar erlendis, sjá auðvitað fljótt hér, þegar við berum saman við okkar skipasmíðastöðvar, að þær eru nýgræðingar á þessu sviði. Mannaflinn er auðvitað ekkert sambærilegur. Það eru kannske 11/2, í hæsta lagi 2 tæknifræðingar og verkfræðingur, sem eru við hönnun skipanna, en í hinum stærri skipasmíðastöðvum erlendis eru sérfræðingar svo að skiptir kannske tugum, ef ekki hundruðum, sem menn eiga aðgang að, og náttúrlega á miklu stærri mörkuðum, og ég hygg, að við verðum mjög seint í aðstöðu til þess að geta keppt við stórar skipasmíðastöðvar.

Ég vil mega vona, að okkar menn fái smiðuð hér a.m.k. ekki síðri, og helzt betri og traustari skip hér í Norðurhöfum heldur en ýmis þau skip hafa verið, sem við höfum keypt erlendis frá. Þá er nokkuð mikið fengið, og á það ber líka að leggja áherzlu.

Ég vona svo, að við þurfum ekki að gera þessi atriði að deiluefni, en mikil áherzla hefur verið lögð á það af stjórnvöldum og þau munu ekki draga af sér við að bæta aðstöðuna fyrir skipasmiðastöðvarnar og þar af leiðandi fyrir þá, sem vilja láta smíða innanlands, og við munum ekki draga af okkur, ef fram koma atriði, sem sérstaklega þarf að lagfæra í þessu sambandi. Ég skal viðurkenna það, að á sumum sviðum hefur mér fundizt ganga of seint afgreiðsla mála, sem fyrir löngu er búið að ákveða að gera. Að því ber að keppa að koma í veg fyrir, að slíkt endurtaki sig.