01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í D-deild Alþingistíðinda. (3834)

153. mál, málefni Landssmiðjunnar

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. Þau leiddu það í ljós, að þetta mál er á enn alvarlegra stigi en um var vitað áður. Það er ekki aðeins um að ræða ágreining í blöðum, heldur hefur hæstv. ráðh. flutt um það formlega till. innan ríkisstj., að Landssmiðjan verði lögð niður. Hins vegar skýrði hann frá þvi, að um það hefði ekki náðst samstaða, sem trúlega stafar þá af því, að ráðh. Alþfl. hafa ekki viljað fallast á það að leggja niður þetta mikilvæga ríkisfyrirtæki.

Örlög Landssmiðjunnar eru til marks um það, hverja afstöðu stjórnvöld hafa til ýmissa opinberra fyrirtækja. Sú var tíð, að Landssmiðjan var forustufyrirtæki í járniðnaði á Íslandi. Á stríðsárunum unnu þar yfir 300 manns, en síðan hefur smátt og smátt sigið á ógæfuhlið, og nú vinna þar aðeins um 80 manns og umsvif stöðvarinnar hafa takmarkazt mjög verulega. Þetta stafar auðvitað af því, að þarna hefur skort forustu af hálfu ríkisins og þeirra manna, sem ríkið hefur sett til forustu í fyrirtækinu, um það, að það fylgdist með hinni almennu þróun í landinu.

Hæstv. ráðh. skýrði frá því, að skipuð hefði verið ein nefndin af annarri til þess að fjalla um þetta mál, en þessar nefndir virðast alls ekki hafa haft neinn raunverulegan áhuga á því að lyfta þessu fyrirtæki. Það er t.d. ákaflega ólíkt, hvernig komið hefur verið fram við Landssmiðjuna, sem er fyrirtæki í almenningseign, og ýmis einkafyrirtæki, sem barizt hafa í bökkum á undanförnum árum. Eru dæmi um það síðustu árin, að einkafyrirtæki hafa verið látin safna ákaflega verulegum skuldum. Eitt allstórt fyrirtæki hér skuldaði Framkvæmdasjóði orðið um 70 millj. kr., og afkoma þess var áreiðanlega margfalt erfiðari en afkoma Landssmiðjunnar. Engu að síður voru gerðar mjög gagngerðar ráðstafanir af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að bjarga þessu einkafyrirtæki. En um slíkt frumkvæði hefur öldungis ekki verið að ræða, þegar Landssmiðjan hefur átt hlut að máli.

Ekki er nokkur vafi á því, að þarna hefur það áhrif, að einkasmiðjur á Íslandi hafa óttazt samkeppni við Landssmiðjuna og hafa viljað hana feiga, einmitt vegna þess að Landssmiðjan hafði því hlutverki að gegna, og var raunar til þess stofnuð á sínum tíma að halda uppi almennu eftirliti með starfsemi einkasmiðjanna, og þar veitir sannarlega ekki af, því að á milli þeirra eru margir þræðir, eins og vitað er. Ég held, að það sé ákaflega illa farið, að Landssmiðjan hefur verið látin drabbast niður á þann hátt, sem gert hefur verið. Járniðnaður er ákaflega mikilvæg atvinnugrein á Íslandi og mun halda áfram að verða mikilvægari og mikilvægari. Það hefur hins vegar skort mjög á um eðlilega áætlunargerð. Menn hafa verið að fjárfesta hver í sínu horni og oft fjárfest margfalt meira en nauðsynlegt hefði verið út frá hagkvæmnisjónarmiðum. Ríkisvaldið hefði haft sérstaka möguleika til þess að hafa áhrif á þessa þróun með aðstoð Landssmiðjunnar, með aðstoð þessa stóra fyrirtækis í almenningseign, ef einhver áhugi hefði verið á því innan ríkisstj. að hafa forustu fyrir þessari atvinnugrein. En þessi áhugi hefur verið þveröfugur. Í ríkisstj. hafa setið menn, sem ekki hafa haft áhuga á því að reka Landssmiðjuna af krafti og raunar viljað hana feiga, þótt farin hafi verið sú leið að láta hana drabbast niður smátt og smátt, hægt og hægt.

Það er í sjálfu sér ágætt, ef ráðh. Alþfl. hafa komið í veg fyrir það innan ríkisstj., að samþykkt yrði sú till. hæstv. iðnrh., að Landssmiðjan skyldi lögð niður nú þegar. En sú afstaða hrekkur ekki til. Að sjálfsögðu þýðir ekki að halda áfram starfsemi Landssmiðjunnar nema lagt sé til hennar fjármagn, sem nægi til þess, að hún geti starfað af fullum krafti, og lögð sé í það sú vinna og sú fyrirhyggja, sem til þess þarf. Það er enginn vandi að ganga af fyrirtækjum dauðum með því að hafa engan áhuga á starfsemi þeirra og geta svo sýnt fram á eftir tiltekinn tíma, að þau haldi áfram að safna tapi. Það er engin nauðsyn, að Landssmiðjan tapi. Það er afleiðing af lélegri stjórn og lélegri forustu hæstv. ríkisstj. Og það er þessi meinsemd, sem þarf að uppræta, ef ekki á svo að fara, að þetta mikilvæga ríkisfyrirtæki leggist algerlega niður.