02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

115. mál, iðja og iðnaður

Frsm. 1. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Það má segja, að þær breytingar á l. um iðju og iðnað, sem felast í þessu frv., séu í raun og veru ekki stórvægilegar frá l., eins og þau eru í dag. Það er rétt, að hér í 3. tölulið 2. gr. er nokkur breyting, sem þm. hafa fyrir framan sig, og ég les hana ekki upp, af því að það var minnzt á hana í ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Ég tel, að það sé í raun og veru ekki svo stórvægileg breyt., að miklu valdi. Það getur verið álitamál, hvort stjórnarvöld á hverjum tíma, ríkisstj. og sérfræðingar hennar í þessum efnum, séu ekki fær um það að dæma um, hvað sé rétt og rangt í því, sem þar stendur. En það sem mér finnst alvarlegra við breyt. á þessum l., sem væru í raun og veru út af fyrir sig óþörf, ef ekki kæmi annað til og það er, að það er verið að fá ráðh. í hendur aukið vald til að veita undanþágu frá þessum lögum, til þess að veita erlendum aðilum undanþágu til atvinnurekstrar hér á landi. En eins og ég segi, þá er það ekki fyrst og fremst gagnvart þessum 1., því að ráðh. hefur það vald núna, samkv. 4. gr. l. um iðju og iðnað. Hins vegar er einnig verið að yfirfæra þetta vald ráðh. til annarra laga. Náskylt þessu máli er næsta dagskrármál, sem er um breyt. á l. um verzlunaratvinnu. Í þeim l. hefur ekki verið slík heimild, en nú á hún að koma þar. – Í núverandi l. um iðju og iðnað segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef félag er hlutafélag, þá skal enn fremur meira en helmingur hlutafjár vera eign manna búsettra á Íslandi, enda sé ekkert það í samþykktum félagsins, er brjóti í bága við íslenzk lög.“ Enn fremur segir: „Ráðh. er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum um heimilisfang stjórnenda eða fulltrúa og hlutafjáreign, enda standi sérstaklega á.“ Þetta er sú undanþága, sem nú er í l. um iðju og iðnað. Þessi l. eru frá árinu 1927. – Hins vegar eru engin slík ákvæði í l. um verzlunaratvinnu. Þau lög eru tæplega 2 ára gömul, en ýmis ákvæði þar, skyld þessum, eru svo til orðrétt úr l. um iðju og iðnað. Þó sýnir það sig, að Alþ. hefur haft minni fyrirvara einmitt á þessum hlutum, að því er varðar erlenda aðila, nú fyrir tæpum tveim árum heldur er þegar l. um iðju og iðnað voru sett 1927. Ég held að þetta sé í raun og veru aðalefni þessa máls, sem hér liggur fyrir og að mínum dómi það langvarhugaverðasta. Ég held, að einmitt nú, þegar EFTA–samningar og margt annað er á döfinni, sem gjarnan opnar erlendum aðilum meira aðgang að íslenzku atvinnulífi heldur en verið hefur, þá sé mjög óeðlilegt að slaka á því valdi, sem Alþ. á að hafa hverju sinni í þeim efnum.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. við 2. gr. þessa frv. um að við síðustu málsgr. 2. gr. bætist svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Þó er óheimilt að veita leyfi til iðjurekstrar án samþykkis Alþ., ef viðkomandi félag eða fyrirtæki er að hálfu eða meira í eigu erlendra aðila. Engin ákvæði mega vera í samþykktum félags, sem brjóta í bága við íslenzk lög.“

Þetta síðasta er núna í l., en með þessu frv., sem hér er flutt, er ráðh. gefið vald til þess að veita einnig undanþágu frá þessu ákvæði um forgangsgildi íslenzkra laga. Ég vil, að það séu tekin af öll tvimæli um, að þetta sé ekki heimilt, eins og 1. eru í dag, því það er ekki nein undanþáguheimild í þeim gagnvart þessu ákvæði, þó að það sé gagnvart ríkisfangi og hlutafjáreign, en samkvæmt frv. á ráðh. einnig að hafa þessa heimild.

Hv. 2. minni hl. iðnn. leggur til, að þessum málum verði skipað á þann veg, að Alþ. kjósi sérstaka n., ráðgjafarnefnd, sem fjalli um þessi efni og að ráðh. hafi ekki heimild til að veita undanþágu, nema að fengnu hennar samþykki. Ég álít hins vegar, að hér sé um svo þýðingarmikil atriði að ræða, að Alþ. sjálft eigi að fjalla um það hverju sinni, ef hlutafjáreign eða eign hins erlenda aðila nær helmingi eða meira í hverju fyrirtæki eða félagi, sem um er að ræða. Ég held, að það sé mjög varhugavert, að Alþ. láti þetta vald úr höndum sér. Það er út af fyrir sig ekki verið að loka fyrir það, að slíkar heimildir séu gefnar, en það verði þá Alþ. sjálft, sem um það fjallar hverju sinni.

Eins og ég sagði, þá má máske segja, að breytingin á l. um iðju og iðnað sé ekki mjög stórvægileg, þar sem ráðh. hefur þar býsna víðtækt vald samkv. gildandi l., en nú á að yfirfæra það og meira til varðandi l. um verzlunaratvinnu. Þetta sýnist mér vera tilgangurinn í raun og veru. Ég vil lýsa því yfir, að ef þessi till. mín fær ekki nægilegt fylgi til samþykkis hér, þá mun ég fylgja till. 2. minni hl., en ef þær ná heldur ekki samþykki, þá mun ég greiða atkv. gegn þessu frv.