01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í D-deild Alþingistíðinda. (3840)

170. mál, aðstaða nemenda í strjálbýli

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í des. 1969 var í menntmrn. gengið frá uppkasti að reglugerð um endurgreiðslu ríkissjóðs á kostnaði sveitarfélaga vegna fjarlægðar á milli skóla og heimila nemenda. Reglugerðinni var ætlað að vera skref til lausnar á því vandamáli skólanemenda og aðstandenda þeirra, sem leiðir af fjarlægð milli heimilis og skóla, og er lagt til í reglugerðinni, að fjárveiting í fjárlögum, 10 millj. kr., auk fjárveitingar, sem samsvarar áætlunum um þátttöku ríkissjóðs í aksturskostnaði nemenda skólaveturinn 1970–1971 og lauslega má áætla um 25 millj. kr., yrði til ráðstöfunar skólanefndum til greiðslu á eftirfarandi kostnaðarliðum: 1. Skólaakstri, 2. kostnaði við að koma nemanda í vist á einkaheimili í nálægð skóla og 3. kostnaði við að koma nemanda í heimavist utan skólahverfis. Ákvæðum reglugerðarinnar var ætlað að ná til nemenda í skólum, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, og ákvörðunarvald um notkun fjárveitingarinnar eiga skólanefndir að hafa samkv. reglugerðinni.

Í þessu reglugerðaruppkasti felst skref til að jafna aðstöðumun nemenda á barna- og gagnfræðastigi. En eftir stendur vandamál þeirra nemenda úr dreifbýli, sem sækja menntaskóla, kennaraskóla, tækniskóla og aðra framhaldsskóla ofan gagnfræðastigs. Þess vegna var ákveðið að taka allt vandamálið til athugunar á breiðum grundvelli, þannig að væntanlegar reglur næðu til allra skólastiga neðan háskólastigs. Rn. hefur falið þrem mönnum úr samstarfsnefnd rn. og Sambands ísl. sveitarfélaga að semja frv. að l. um fjárhagsaðstoð til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til menntunar, og verður það lagt fyrir Alþ. innan skamms.

Þá er spurt um það, hverjar hafi verið niðurstöður þeirra athugana, er ríkisstj. hefur látið gera samkv. ályktun um þetta efni frá síðasta Alþ. En ályktunin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera yfirlit um kostnað ríkisins við skyldunám og framhaldsskóla og skal af yfirlitinu mega sjá, hver hann er: a) við heimavistarskóla, b) við aðra skóla. Einnig komi fram af yfirlitinu, hver aðstöðumunur nemenda er, þeirra, sem verða að vista sig langtímum saman utan heimila sinna við nám, og hinna, sem sækja skóla frá heimilum sínum og hafa þar alla vist.“

Nákvæm athugun hefur verið gerð samkv. þessari ályktun á þessum liðum samkv. fjárl. 1970, og skal ég greina frá meginniðurstöðum þessara athugana.

Um barnaskóla er það að segja, að þar er kostnaður, þ.e. rekstrarkostnaður ríkissjóðs, á nemanda sem hér segir: Í heimangönguskólum í Reykjavík og kaupstöðum er kostnaðurinn á nemanda 9 803 kr. í öðrum heimangönguskólum er hann 11 091 kr., en í heimavistarskólum er rekstrarkostnaður ríkissjóðs 20 059 kr. á nemanda. Kostnaður ríkissjóðs er því um 100% hærri á hvern nemanda í heimavistarskóla en í heimangönguskóla.

Að því er gagnfræðaskóla varðar, er rekstrarkostnaður ríkisins á nemanda þessi: Í heimangönguskólum í Reykjavík og kaupstöðum er kostnaðurinn 14 118 kr. á nemanda. Í heimangönguskólum annars staðar 14 218 kr. á nemanda. En í heimavistargagnfræðaskólum er hann 33 292 kr. Kostnaður ríkisins er því um 140% hærri á hvern nemanda í heimavistarskóla en í heimangönguskóla.

Að því er menntaskólana snertir, eru tölurnar þessar: Á nemanda í Reykjavík er rekstrarkostnaður ríkisins 27 993 kr., en á Laugarvatni, sem er eini skólinn, sem er eingöngu heimavistarmenntaskóli, er kostnaðurinn 39 725 kr. á nemanda. Kostnaður ríkissjóðs er því um 42% hærri á hvern nemanda í heimavistarmenntaskóla en í heimangöngumenntaskóla.

Ríkissjóður greiðir 50% af áætluðum byggingarkostnaði heimangönguskóla barna- og gagnfræðastigs. Barna- og unglingaskóli, sem ætlaður væri um 80 nemendum, yrði um 1000 rúmmetrar og mundi kosta um 20 millj. kr. á núverandi verðlagi. Af því mundi ríkið greiða um 10 millj. kr. Sé heimavist við skólann fyrir jafnmarga nemendur, yrði að byggja a.m.k. 2000 rúmmetra til viðbótar og mundi ríkið greiða 100% af áætluðum byggingarkostnaði þess rýmis, standi tvö eða fleiri sveitarfélög að skólanum. Heimavistin ein mundi því kosta um 40 millj. kr. og viðbótarkostnaður ríkisins vegna heimavistarinnar yrði hér a.m.k. 1/2 millj. kr. á hvern nemanda. Sé reiknað með alls 10% í vexti og afskriftir, þá samsvarar þetta um 50 þús. kr. aukakostnaði á ári fyrir hvern nemanda í nýrri heimavist. Þá styrkir ríkið akstur nemenda, bæði þeirra, sem búa í heimavistum skyldunáms, og einnig hinna, sem búa langt frá heimangönguskólum. Sérstök ákvæði eru um akstur nemenda, þegar við það sparast heimavist. Í þeim tilvikum er um fulla endurgreiðslu að ræða, sé ekið eftir töxtum, sem menntmrn. viðurkennir. Kostnaður ríkissjóðs vegna aksturs á árinu 1970 mun verða 20–25 millj. kr.

Heildarniðurstaða þessa er því sú, að umframkostnaður ríkissjóðs nú til þess að jafna aðstöðumun þeirra, sem í strálbýli og dreifbýli búa, er sem hér segir, og er þó eingöngu um að ræða rekstrarkostnaðinn, ekki stofnkostnaðinn vegna heimavistar: Vegna skyldunámsins 19.4 millj. kr., vegna gagnfræðaskóla og héraðsskóla 19.6 millj. kr., vegna menntaskóla 5.4 millj. kr., samtals 44.4 millj. kr. Þar við bætist síðan aksturskostnaðurinn, 22.5 millj. kr., svo að heildarumframkostnaður ríkisins nú á árinu 1970 mun nema 66.9 millj. kr. eða tæpum 70 millj. Og ég endurtek, að hér er ekki tekið tillit til stofnkostnaðar vegna byggingar heimavistar, hér er eingöngu um rekstrarkostnaðinn að ræða. Ríkisvaldið jafnar þannig nú þegar á ýmsa vegu aðstöðumun barna og ungmenna, sem í strjálbýli búa. Samt er þessi aðstöðumunur enn þungur baggi á heimilum strjálbýlisfólks.

En rangt væri að líta svo á, að aðstöðumunur væri eingöngu bundinn því, hvar nemandi hefur skráð lögheimili sitt og hvar sá skóli er staðsettur, sem hann sækir. Athugum fyrst skyldunám í þessu sambandi. Barn, sem sækir heimavistarskóla, greiðir eingöngu innkaupsverð matvæla og annarra hráefna. Ríkið greiðir ráðskonulaun og laun aðstoðarstúlkna. Þessar greiðslur vegna barnanna voru samkv. reikningum 1968–1969 að jafnaði um 60 kr. á fæðisdag. Auk þess er flutningskostnaður að og frá heimavist greiddur. Munurinn á heimavistarbarninu og heimangöngubarninu er sá, að fæðiskostnaður heimavistarbarnsins er greiddur sérstaklega, en fæðiskostnaður barnsins, sem heima býr, ekki. Það er svo annað mál, að efnalítil heimili, þar sem mörg börn eru á skyldunámsstigi, geta átt erfitt með að greiða þennan kostnað. En það er ekki vegna búsetunnar, heldur vegna lélegs efnahags, og byrði fjölskyldu nálægt heimangönguskóla, þar sem börn eru í skóla, er sama eðlis og jafnþung, því að varla mun tilkostnaður við að hafa barn á heimili verða lægri en þau gjöld, sem krafizt er fyrir heimavist í skyldunámi.

Sé athugað um nám ofar skyldunámi, verður myndin nokkuð önnur. Sé miðað við skólaárið 1968–1969 má áætla fæðiskostnað í heimavistum gagnfræðastigs- og menntaskóla um 125 kr. á dag. Dvöl í slíkum heimavistum er samfelldari en í heimavistum skyldunáms, nemendur fara ekki heim til sín nema í skólafríum. En þjónusta heimilanna við nemendur vegna þvotta o.s.frv. fellur niður. Sé gerður samanburður á raunverulegum kostnaði þess heimilis, sem þarf að útvega heimagöngunemanda mat, þjónustu og húsnæði í 8 mánuði, og hins vegar þess heimilis, sem þarf að greiða fæðiskostnað og ferðakostnað vegna dvalar nemanda í heimavist, er ekki víst, að munurinn sé ýkjamikill. Munurinn er aðallega fólginn í því, að hinn raunverulegi kostnaður vegna heiman göngunemandans er falinn í heildarútgjöldum fjölskyldunnar. Foreldrarnir borga hann að mestu, og menn gera sér ekki ljósa grein fyrir honum, eins og í því tilviki, þegar fæðis- og ferðakostnaður heimavistarnemandans er greiddur. Hér, eins og þegar um skyldunámsnemanda er að ræða, eru það efnahagsástæðurnar, sem þyngstar eru á metunum, og fjölskylda, sem í eru mörg börn eða ungmenni, sem stunda framhaldsnám, hefur miklar byrðar að bera, hvort sem þau búa í heimavist eða á heimili foreldranna.

Einn flokkur nemenda ofar skyldunámi býr þó við sérstaklega erfiðar aðstæður, sem athuga þarf með sérstökum hætti. Það eru þeir nemendur, sem fara verða að heiman vegna skólagöngu og geta ekki búið í heimavist. Þeir verða að taka á leigu herbergi og oftast vista sig sjálfir. Lauslega má áætla, að um 1300–1400 nemendur stundi nú nám við framhaldsskóla utan heimasvæðis síns, án þess að komast í heimavist, og allflestir þeirra verða að vista sig sjálfir eða búa hjá ættingjum eða vinum. Umframkostnaður slíkra nemenda, miðað við þá, sem geta verið í heimavist, er lágt metinn á 1500–2000 kr. á mánuði, nema í þeim tilvikum, er þeir geta nýtt sér heimavistarmötuneytisaðstöðu, svo sem við Menntaskólann á Akureyri.

Þá er komið að því að fara um það nokkrum orðum, hvernig helzt komi til greina að hagnýta þær 10 millj. kr., sem Alþ. hefur veitt á gildandi fjárl. í því skyni, sem hér er um að ræða, að jafna aðstöðumun unglinga úr dreifbýli til skólagöngu, miðað við þéttbýlisbúa. Virðist helzt koma til mála að veita sérstakan styrk til námsmanna, er verða að dvelja fjarri heimilum sínum og eru ekki aðnjótandi heimavistar. Með þessu móti telur menntmrn. á þessu stigi málsins, að fénu yrði réttlátast varið, það mundi koma að beztu gagni. Aðallega er hér um að ræða nemendur í menntaskólum, kennaraskólum, ýmsum tækniskólum o.s.frv., en einnig nemendur í tveim efstu bekkjum gagnfræðastigs. Hefur verið gerð eftirfarandi áætlun um hagnýtingu fjárhæðarinnar: að greiða ca. 200 gagnfræðastigsnemendum 850 kr. á mánuði í 7 mánuði, til þess mundi þá verða varið 1.2 millj. kr., og að greiða ca. 1060 nemendum í kennaraskólum, menntaskólum og tækniskólum 1000 kr. á mánuði í 8 mánuði, en til þess mundu þá fara 8.4 millj. kr. eða samtals 9.6 millj. kr. eða tæplega sú upphæð, sem til ráðstöfunar er í þessu skyni. Hvort sem endanleg niðurstaða þessa máls verður sú, að þessi bráðabirgðalausn verði valin eða ekki, er augljóst, að málið allt þarf gaumgæfilegrar athugunar við og lausn, sem eingöngu tekur tillit til búsetu, getur ekki verið fullnægjandi né réttlát. Hér þarf að taka tillit til efnahagsaðstöðu nemenda og foreldra þeirra. Vinna þarf að því að jafna sem mest aðstöðu til náms, bæði eftir búsetu nemenda og eftir fjárhagsgetu þeirra sjálfra og aðstandenda þeirra, og mun ríkisstj. halda áfram athugun þessa mikilvæga máls, þótt að sjálfsögðu þurfi að taka nú bráðabirgðaákvörðun um hagnýtingu þeirra 10 millj., sem til ráðstöfunar eru á þessu ári í þessu skyni.

Að síðustu vildi ég segja þetta: Mesti aðstöðumunur strjálbýlis- og þéttbýlisnemenda er þó hvorki sá, að strjálbýlisnemendur hafa að jafnaði lengra að sækja í skóla, né heldur hinn, sem hér hefur aðallega verið fjallað um, hve framhaldsnám er þeim erfiðara og dýrara en hinum, sem búa nær skóla. Mesti aðstöðumunurinn er hin stutta skólaganga margra dreifbýlisbarna. Að vísu hefur þetta mikið breytzt á síðustu árum, enda eru nýju skólakostnaðarlögin beinlínis miðuð við að brúa þetta bil. Lenging skólatíma fyrir alla aldursflokka upp að 8 mánuðum, eins og gerist í þéttbýlinu, eykur sjálfkrafa fjölda þeirra kennslustunda, sem ríkissjóður greiðir að fullu. Sú skuldbinding, sem ríkið þannig tók á sig með nýju skólakostnaðarlögunum, á án efa eftir að reynast drýgsta framlagið til þess að jafna menntunaraðstæður barna og unglinga í strjálbýlinu.