01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í D-deild Alþingistíðinda. (3842)

170. mál, aðstaða nemenda í strjálbýli

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki hægt að ræða þetta mál að gagni í þeim ræðutíma, sem hér er fyrir hendi nú. En mér skildist á svörum hæstv. menntmrh., að hann teldi ekki sérlega mikla þörf á að vera að styrkja til náms nemendur á skyldunámsstigi, sem eru fjarri heimilum sínum, því hann tók alveg sérstaklega fram, að það væri ódýrara fyrir börn að vera í heimavistarbarnaskólum fjarri heimilum sínum en að vera heima. Hann nefndi það sérstaklega sem dæmi og þá skildist mér á honum, að þó að um aðra heimavistarskóla væri að ræða, sem ekki væru skyldunámsskólar, yrði kostnaðurinn hjá þeim lítið meiri en þó þeir væru heima. Mér finnst þetta dálítið viðsjárverðar skoðanir, og ég á mjög erfitt með að skilja það, hvernig hann hefur komizt að þessari niðurstöðu.

Hins vegar notaði hann mikið af ræðutíma sínum til þess að sýna fram á, hvað ríkið kostaði miklu til skóla utan þéttbýlisins, þeir væru ákaflega dýrir. Það er náttúrlega ekkert merkilegt, þó að það sé eitthvað dýrara að hafa skóla í dreifbýli en hérna í Reykjavík, þar sem nemendurnir geta gengið heiman frá sér daglega í skólann. M.a. hefur ríkið komizt hjá því að byggja nokkurt heimavistarhús í allri Reykjavík yfir nemendur, sem þó óhjákvæmilega verður að byggja úti í dreifbýlinu. Þetta eru eiginlega ekki neinar fréttir fyrir okkur hérna. En að þessi kostnaðarmunur komi nokkurn hlut við kostnaði nemendanna, það get ég ekki séð. Ég get ekki séð, að nemandi t.d. austan af Fljótsdalshéraði sé eitthvað betur settur, af því að skólabyggingar þar fyrir austan kosta meira en hérna í Reykjavík. Hvað ætli nemandinn, sem verður að fara til Reykjavíkur, — t.d. í menntaskóla af því að það er enginn menntaskóli þar, — hvað ætli hann sé betur settur fyrir það, þó að einhver heimavistarskóli sé dýrari austur á Héraði? Ég sé enga heila brú í þessu.

Þá skýrði hæstv. ráðh. frá því áðan, að það mundu vera 1300–1400 nemendur án heimavistar, sem þyrftu einhvers styrks eða aðstoðar við. Ég veit ekkert, hvernig hann hefur fengið þessar upplýsingar eða hvaðan þær eru komnar. Mér þykja þær ákaflega ólíklegar, sannast sagna.

Loks gerði hann grein fyrir því, hvernig ríkisstj. hugsaði sér að skipta þessum 10 millj., sem nú væru á fjárl. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir, að hann hafi nefnt nemendur í þremur skólum: menntaskóla, kennaraskóla, tækniskóla og þar að auki nemendur í 3. og 4. bekk gagnfræðaskóla. Þeir eru þá með í þessum 1250 nemendum. (Gripið fram í.) Hann nefndi 200 nemendur með 850 kr. á mánuði í 7 mánuði og 1050 nemendur með 1000 kr. á mánuði í 8 mánuði, þetta eru 1250 nemendur á öllu landinu. Þeir eiga þá ekki að vera fleiri í þessum 4 skólum. En hvað um alla hina skólana? Þeir eru margir, sem hann nefndi ekki. Styrkurinn á þá að verða, eftir því sem hann segir, 850 kr. á mánuði í 7 mánuði handa þessum 200 nemendum, þ.e. 5950 kr. yfir skólaárið á hvern nemanda þar. Nú er mér tjáð, að fargjald t.d. austan af landi til Reykjavíkur sé 2000 kr. á ferð, og ef nemandinn veitir sér þann munað að fara heim til foreldranna um jólin, eru það fjórar ferðir. Það eru 8 þús. kr. á hvern nemanda að fara þetta, — ekki að kosta sig hér í Reykjavík við nám, nei, bara til að fara á milli. Hann vantar 2050 kr. til þess að styrkurinn dugi í fargjaldið. Þetta á styrkurinn að verða og þetta er alveg nóg að dómi ríkisstj. Hinir eru nú betur settir, þeir, sem eiga að fá 1000 kr. á mánuði. Það eru 8000 kr., en það gerir ekki meira en að duga fyrir ferðum tvisvar sinnum, svo að ég nefni dæmi, milli Austurlands og Reykjavíkur. Og mér sýnist á öllu, að sæmilega vel eigi að vera séð fyrir þessum nemendum að dómi ríkisstj. Svo bætti hæstv. ráðh, einu við, sem mér kom dálítið ókunnuglega fyrir eyru. Hann segir, að þessar styrkveitingar fari alls ekki eftir búsetu nemenda, m.ö.o.: það eigi að styrkja hina líka, sem eru í heimangönguskólum, það eigi að fara eftir efnahag foreldra og aðstandenda. Þá fara nú 10 millj., held ég, að duga illa, ef þá á að taka með. Ég hygg, að það væri svo sem æskilegt, ef það væri hægt, en það verður ekki vandalaust að skipta, þegar svona á að halda á því.