01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í D-deild Alþingistíðinda. (3845)

183. mál, loðnugöngur

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru vafalaust allir sammála um, að fjölbreytni þurfi að verða sem mest í fiskveiðunum og fiskverkuninni, eins og í öðrum greinum atvinnulífsins. En þegar um er að ræða fiskstofna, sem ekki er löng reynsla í að veiða, þá þarf margt að gera til undirbúnings því, að vel geti tekizt til um veiðarnar og verkunina, og má segja, að þau verkefni séu tvíþætt, sem þá þarf að vinna að: Annars vegar að vita sem mest um fiskstofnana, þá sem menn ekki þekkja vel til áður, bæði stærð þeirra, eðli fiskanna og háttalag. Þessar rannsóknir eru oft á tíðum ákaflega víðtækar og seinunnar, og þarf mikið í að leggja vafalaust, ef gera á þeim fullnægjandi skil. Hins vegar er svo það að ná góðum tökum á veiðunum og verkun fiskanna. Þessi grein málanna er fjarskalega víðtæk og vandmeðfarin og þegar um nýjungar er að ræða, verður hið opinbera áreiðanlega mjög að skerast í leikinn, ef möguleikar eiga að notast sómasamlega, því að það er einstaklingum gersamlega um megn að leggja fram þá fjármuni og þá starfrækslu, sem þarf til þess að fara með nauðsynlegar tilraunir í þessu efni. Þar koma til greina veiðarfæratilraunir og veiðitilraunir yfirleitt, leit að fiskigöngunum og fyrirgreiðsla við fiskiflotann, sem er mjög þýðingarmikið verkefni, og það hefur sýnt sig, að það borgar sig að leggja fjármuni í þá grein; og svo loks verkun fiskanna, markaðsöflun o.s.frv.

Þessi fáu almennu orð vil ég láta fylgja þeim fsp., sem ég flyt hér um rannsóknir á loðnugöngum o.fl., og nefni ég í þessari fsp. fjórar tegundir smáfiska: loðnuna, sandsílið, kolmunnann og spærlinginn. Mismunandi mikið hefur verið fengizt við að veiða þessa fiska, eins og kunnugt er, og skal ég ekki rekja sögu þess. En fsp. hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Með hvaða hætti ætlar ráðh. að láta fylgjast með loðnugöngum og loðnustofninum á þessu ári?“

Þetta er fyrri liðurinn. Og þá á ég auðvitað við þann tíma, sem eftir er ársins, en enginn vafi, leikur á því, að það er mjög rík nauðsyn að fylgjast vel með loðnustofninum svo að segja allt árið, ef takast á að komast eftir því, svo forsvaranlegt sé, hversu stórir loðnustofnarnir eru og hvernig þeir haga sér, bæði með tilliti til þess að koma veiðum við og einnig með tilliti til þess að ákveða, hversu mikið megi veiða. Þess vegna spyrst ég fyrir um það, hvað ætlazt er fyrir í þessu efni það sem eftir er ársins.

Síðari liðurinn er svo hljóðandi: „Hvað er ætlazt fyrir um rannsóknir á göngum sandsílis, spærlings og kolmunna á þessu ári og um stuðning við tilraunir til þess að veiða og verka þessa fiska?“

Þó að röðin á fiskanöfnunum sé svona í fsp., að sandsílið er nefnt fyrst, þá spærlingur og loks kolmunni, þá er það ekki svo, að þeir séu beinlínis nefndir í þeirri röð, sem ég tel að þurfi að leggja áherzlu á rannsóknir á þeim, heldur mætti kannske segja að sumu leyti í öfugri röð, því að ég vil alveg sérstaklega fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann láti leggja mikla áherzlu á að greiða fyrir kolmunnaveiðum. Fer ég fram á, að hann hlutist til um, að það verði sett verð á kolmunnann og það verði ákveðið nú sem allra fyrst, vegna þess að það er í maí- og júnímánuði, sem helzt er að vænta að veiðar geti átt sér stað á þessum fiski. Enn fremur láti hann leitarleiðangra, kolmunnaleitarleiðangra, fara út í tæka tíð, þannig að þeir séu búnir að átta sig á því alveg, við skulum segja um mánaðamótin apríl — maí, hvers er að vænta í þessu tilliti, og sinni því svo áfram.

Ég nefni þetta alveg sérstaklega með kolmunnann, en varðandi hina fiskana á ég við, að kanna þurfi almennt, hvar þessir fiskar halda sig, hversu stórir stofnarnir kunna að vera, og að greiða fyrir þeirri veiði, sem kann að vera fyrirhuguð á þessum fiskum.

Mér leikur grunur á, að einhverjir hugsi sér til hreyfings með spærlinginn, og ríður þá mikið á, að greitt sé fyrir þeim, því það er bezt að gera sér grein fyrir því, að einstakir útvegsmenn geta alls ekki lagt fram fjármuni í tilraunir eða í það að leita að þessum fiskum um allan sjó. Það verður að greiða fyrir slíku, eins og reynslan sannar, annars ganga þessir fiskar hjá án þess að vera nýttir.

Ég skal ekki bæta mörgum orðum við, því ég mun vera búinn með þann tíma, sem á að nota til þess að tala fyrir fsp., en í sambandi við verkun og markaðsöflun á ég m.a. við það að láta sér ekki lynda, að allir þessir litlu fiskar fari í bræðslu, því að mér finnst, að það megi gera ráð fyrir því, að það sé hægt að gera mjög góðan mat úr þessum fiskum og verka þá hagkvæmlega, t.d. að leggja þá í sósur og olíur, og hef ég ekki trú á öðru en þetta geti orðið eftirsóttir fiskar þannig tilreiddir. Þess vegna skora ég mjög á hæstv. ráðh. að láta leggja í tilraunir og athuganir einnig á því sviði.

Loks vil ég svo láta það verða mín síðustu orð til að mæla fyrir fsp. að skora á hæstv. ráðh. að sjá um, að Hafþór verði látinn ganga sleitulaust allt árið og jafnt fyrir því, þó Bjarni Sæmundsson bætist í hópinn, það komi ekki til greina, að þetta skip verði látið liggja eða tekið úr rannsóknar- eða fiskileitarstarfrækslunni, þó Bjarni Sæmundsson bætist við, því það dylst engum, sem hefur nokkra nasasjón af þessum málum, að það er alveg fullt verkefni fyrir þessi þrjú skip og miklu meira en það, og þyrfti þó að leigja önnur skip til viðbótar.

Loks vil ég svo segja, að ef hæstv. ráðh. vantar peninga til þess að gera það, sem hann telur nauðsynlegt í þessu skyni, þá er ég alveg sannfærður um, að bann á vísan stuðning Alþ. til þess að fá aukafjárveitingar í því tilliti, ef hann telur það nauðsynlegt. En það vill nú verða, að þegar þessi mál eru inni í þeirri almennu klemmu fjárl., þá er stundum erfitt að fást við efnin og verður þá kannske naumara skorið en menn vildu. En hér er um slík undirstöðuatriði að ræða í atvinnulífi landsmanna, að ég er alveg sannfærður um, að hæstv. ríkisstj. mundi fá stuðning þingsins til þess að skoða þau sérstaklega, ef henni fyndist þeim of þröngur stakkur skorinn í fjárlögum.