01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í D-deild Alþingistíðinda. (3846)

183. mál, loðnugöngur

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég mun fyrst víkja að fsp. sjálfum, en fyrir þeim hefur hv. fyrirspyrjandi gert nokkra grein. Varðandi fyrri liðinn vil ég segja þetta:

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson hefur verið í loðnuleit frá s.l. áramótum, og hefur mótorskipið Hafþór einnig tekið þátt í leitinni. Hefur verið fylgzt með loðnugöngum og athuganir gerðar á þeim. Árni Friðriksson verður áfram í loðnuleit fram í miðjan þennan mánuð, en eftir þann tíma er loðnu ekki að vænta fyrir suður- og austurströndinni.

Á s.l. sumri, frá því í júní fram í september, var leitað að loðnu í hafinu norðan og norðvestan Íslands, en sú leit bar ekki árangur, svo sem kunnugt er. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um, hvort framkvæmd skuli sams konar leit á þessum slóðum á sumri komanda. Telja verður þó æskilegt, að könnuð verði til hlítar útbreiðsla og göngur loðnunnar á þessum tíma og veiðimöguleikar á þessum svæðum. Ef eindregnar óskir koma fram um það og talið verður að athuguðu máli, að rétt sé að framkvæma leit í hafinu norðan og norðvestan Íslands á sumri komanda, verða þær rannsóknir framkvæmdar.

Á þessu ári er áætlað að kanna í samvinnu við Norðmenn, Þjóðverja og Englendinga magn fiskungviðis á 1. og 2. aldursári austan- og norðanlands. Er ætlunin, að rannsóknir þessar verði gerðar á hinu nýja rannsóknarskipi, Bjarna Sæmundssyni, og á Árna Friðrikssyni á hausti komanda. Munu þessar athuganir einnig taka til ungviðis loðnunnar.

Þá er rétt að taka fram, að í Hafrannsóknastofnuninni fer fram úrvinnsla þeirra upplýsinga, sem aflað hefur verið og kunna að fást með sýnishornatöku og annarri gagnasöfnun í rannsóknar- og leitarleiðöngrum þeim, sem að framan hefur verið getið.

Varðandi 2. lið fsp. vil ég segja þetta: Ákveðinn einstaklingur hefur farið þess á leit að fá leyfi til þess að nota sandsílistroll til tilraunaveiða á sandsíli á vori komanda, en slík tilraun hefur áður verið gerð. Æskilegt er, að þessi tilraun verði framkvæmd, en ef af þessum veiðum verður, mundi skapast aðstaða til þess að fylgjast betur með göngum sandsílisins, afla sýnishorna o.fl. Hins ber þó að gæta, að hér er um mjög fínmöskvað veiðarfæri að ræða, sem auðveldlega getur sópað upp smáfiski af öðrum tegundum en þeim, sem ætlað er að veiða, og er því mikillar aðgæzlu þörf. Tilraun þessi yrði að sjálfsögðu gerð í samráði og samvinnu við fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar.

Á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar mun verða farið í tveggja vikna leiðangur seinni hluta þessa mánaðar í því skyni að kanna magn fiskseiða og spærlings- og síldargöngur úti fyrir suðvestur- og suðurströndinni. Vitað er, að allmargir útgerðarmenn hyggjast senda skip sín til spærlingsveiða í vor og sumar, enda náði m.s. Halkion frá Vestmannaeyjum allgóðum árangri í þessum veiðum á s.l. ári. Nauðsyn her því til að hefja skipulagða spærlingsleit og kanna útbreiðslu hans og veiðimöguleika, bæði í botnvörpu, flotvörpu og herpinót. Landhelgismálanefnd, sem skipuð er fimm þm., mun fylgjast með þessum málum, og hafa henni þegar verið veittar upplýsingar um þær leyfisbeiðnir til þessara veiða, sem borizt hafa.

Skipulagðar kolmunnarannsóknir eru ekki enn sem komið er hafnar á hafrannsóknasvæðinu. Þótt öðru hverju hafi verið safnað sýnishornum til aldurs-, lengdar- og fitumælinga, þá eru þær rannsóknir skammt á veg komnar. Um rannsóknir á göngu og útbreiðslu kolmunnans í ár er það að segja, að ætlunin er m.a., að Árni Friðriksson verði við síldarrannsóknir í hafinu milli Íslands og Noregs norðan Færeyja a.m.k. eitthvað fram á sumarið. Á undanförnum árum hefur kolmunni mikið gengið á þetta hafsvæði, einkum í maí og júní, svo sem áður er fram komið hér, og hefur um það áður fengizt allmikil vitneskja í síldar- og rannsóknarleiðöngrum. Ætlunin er því að sameina síldar- og kolmunnarannsóknir a.m.k. á þessu tímabili. Almennt er reynt eftir föngum að sameina hinar ýmsu rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, t.d. kolmunna- og síldarrannsóknir í Noregshafi, rannsóknir og fiskileit, en slíkt er þó oft mjög erfitt eða ómögulegt með öllu.

Sé sérstaklega vikið að stuðningi með tilliti til veiða og verkunar þessara fiska, eins og segir í fsp., þá hefur Fiskimálasjóður þegar veitt allmiklar fjárupphæðir í þessu skyni. Hefur sjóðurinn veitt bæði lán og styrki. T.d. hefur sjóðsstjórn og rn. samþykkt að veita styrki samtals að fjárhæð 1.4 millj. kr. til tilrauna til að veiða spærling á síðasta ári. Áður hefur verið drepið á tilraunir til sandsílisveiða. Ætlunin er að gera þessar tilraunir til veiða á kolmunna með flotvörpu í sambandi við síldar- og kolmunnarannsóknir í hafinu milli Íslands og Noregs í vor, svo sem fyrr er sagt. Enn fremur er til athugunar, hvort rétt sé að gera tilraunir til veiða á kolmunna í snurpunót á þeim tíma, sem fiskifræðingar telja hentugastan.

Hinu nýja rannsóknarskipi Bjarna Sæmundssyni munu fylgja margs konar ný veiðarfæri til tilraunaveiða á þeim fiskum, sem hér er um rætt. Má þar nefna sérstaka spærlingsvörpu, sandsílisvörpu og loðnuflotvörpu og tvær stórar flotvörpur, sem nota má til kolmunna- og spærlingsveiða. Verða gerðar tilraunir með öll þessi veiðarfæri, þegar rannsóknaskipið er komið í gang. Hvað verkun snertir má segja, að yfirleitt hefur ekki verið um að ræða mjölvinnslu úr þessum tegundum. Nokkuð hefur þó verið fryst og soðið niður af loðnu. Gerðar hafa verið og í undirbúningi eru tilraunir til niðursuðu og bræðslu á loðnu á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Um hin almennu atriði, sem fyrirspyrjandi minntist á í lok ræðu sinnar, vil ég aðeins segja það, að aldrei áður í sögu hafrannsóknanna á Íslandi hefur verið veitt jafnmikið fé til þessa og nú er á fjárl., og ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það verður seint of miklu fé varið til þessa, svo mjög sem okkur ríður á að vita sem mest um göngur nytjafiska.

Ég fagna svo upplýsingum hv. þm. um stuðning við hugsanlega aukningu á fjárveitingu, sem væntanlega gæti komið til, vegna þess að þessar tilraunir eru mjög fjárfrekar.