02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

115. mál, iðja og iðnaður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hv. frsm. 1. minni hl., að hann telur frv. til breyt. á l. um iðju og iðnað eiginlega ekki vera neina breytingu frá þeim l., sem gildandi eru í dag, a.m.k. sáralitla og þetta er alveg rétt hjá honum. Við erum nú, undir þessum dagskrárlið, að ræða l. um iðju og iðnað. Það er rétt, að það er svolítill stigsmunur á þeim og l. um verzlunar atvinnuna og verður sjálfsagt komið að því, þegar það frv. verður tekið til umr. Það er þess vegna ekki rétt, að ráðh. sé fengið aukið vald frá því, sem er í l. um iðju og iðnað, með þessu frv. Það er nokkur stigsmunur á því, hvenær ráðh. á að veita og fjalla um iðjuleyfin samkv. 2. gr. þessa frv. eða samkv. 7. gr. l. um iðju og iðnað frá 1927. Þar er ákvæðið þannig, að lögreglustjóri, þar sem beiðandi á lögheimili, veitir iðjuleyfi. En hins vegar er þar sagt, að ráðh. ákveði um veitingu iðjuleyfa í vissum tilfellum og þar er gerð nokkur breyting á, og þó einkum sambandi við 3. tölul. í 2. gr., sem um var rætt á sínum tíma við 1. umræðu þessa máls, og átti hann að vera til frekara öryggis í sambandi við þátttöku okkar í EFTA. Og það er höfuðtilgangur þessa frv., sem og frv. til l. um breyt. á l. um verzlunaratvinnu, að engin erlend fyrirtæki geti hafið atvinnurekstur hér á landi að óvild íslenzkra stjórnvalda.

Frsm. meiri hl. n. gerði ráð fyrir því, að ráðh., sem málið heyrði undir, mundi, ef um meiri háttar mál er að ræða, hafa samráð við ríkisstj. og ríkisstj. er náttúrlega á hverjum tíma ábyrg gagnvart Alþ. Þetta er alveg rétt skoðun hjá honum. Þannig held ég, að þetta muni verða í framkvæmd, a.m.k. meðan ég fer með þessi mál og mér dettur ekki í hug annað en slík og svipuð framkvæmd verði viðhöfð af öðrum ráðh., sem um málið fjalla. En stefna núv. ríkisstj. er að þessu leyti skýrar mörkuð en að ráðh. hafi samráð við sína meðráðh. og ríkisstj. Þegar um meiri háttar atvinnurekstur eða þátttöku erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi verður að ræða, þá er það yfirlýst stefna núv. ríkisstj., að hún muni leita sérstakrar lagaheimildar hjá Alþ. fyrir leyfisveitingu. Þannig var farið að í sambandi við samningana um álverið. Samkv. lögum var hægt að heimila Íslenzka álfélaginu, þar sem erlent fyrirtæki á öll hlutabréfin, starfrækslu hér á landi eftir l. um iðju og iðnað. En ríkisstj. taldi fráleitt annað, með svo stórt mál, en að fara til Alþ. og fá samþykki þess fyrir því. Sama átti sér stað í sambandi við Kísiliðjuna. Ríkisstj. taldi sér skylt, eðli málsins samkv., að fara til Alþ. og fá samþykki þess fyrir henni. Sé um eitthvað hliðstætt að ræða, þrátt fyrir þessa breytingu, sem hér um ræðir, þá mundi ríkisstj. framvegis fylgja þessari stefnu. Ráðh., sem er beðinn um iðjuleyfi af erlendu fyrirtæki, telur, að málið sé það mikils virði, að hann mundi burt séð frá þessum breytingum og burt séð frá þátttöku okkar í EFTA, leita til Alþ. Hann bíður auðvitað með það að gefa svar sitt við leyfisbeiðninni, þar til hann er búinn að fá samþykki Alþ. fyrir því, með sama hætti og verið hefur til þessa. Þetta er alveg augljóst, þetta hefur verið okkar stefna og þetta mun verða okkar stefna í núv. ríkisstj. Við höfum lýst henni yfir hér á Alþ. og hún liggur ótvírætt fyrir í þskj.

Að mínum dómi er málflutningur minni hl. um efni þessa frv. á töluverðum misskilningi byggður, að vísu ekki fyrri minni hl., því hann taldi réttilega, að það væri sáralítil breyting frá því, sem nú er. Ég er ekki alveg viss um, að ég hafi skilið rétt 2. málsgr. brtt. hv. 2. landsk. þm., að engin ákvæði megi vera í samþykktum félags, sem brjóti í bága við íslenzk lög. Það er að vísu rétt, að í eldri l. er slíkt ákvæði, en auðvitað þarf ekki að setja inn slíkt ákvæði, því ekkert félag getur starfað hér á landi með ákvæði í sínum samþykktum, sem brjóta í bága við íslenzk lög. Þetta liggur í hlutarins eðli. Ef þetta var það, sem hv. þm. var að tala um, að ráðh. væri að öðru leyti fengið meira vald en áður, með því að taka þetta burtu, — ég er ekki alveg viss um, að ég hafi skilið hann rétt, — þá vildi ég taka það fram, af því að það liggur fyrir í brtt., að þetta ákvæði sé sett inn, að það mætti setja það inn að skaðlausu, en það er að mínum dómi alveg óþarft.

Þá vildi ég aðeins tjá mig um brtt. frá 2. minni hl., að ráðh. eigi að taka ákvörðun að fenginni umsögn 7 manna ráðgjafarnefndar. Hana tel ég óþarfa og að vissu leyti óeðlilega, því miðað við þá yfirlýstu stefnu, sem núv. ríkisstj. hefur haft, þegar um meiri háttar mál er að ræða, þá hefur hún beinlínis leitað til Alþ. sjálfs. Því er það auðvitað miklu fremur, sem óþarft væri að setja upp slíka ráðgjafarnefnd.