01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í D-deild Alþingistíðinda. (3851)

921. mál, lánveitingar úr fiskveiðasjóði

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Mig langar að gera tilraun til nokkurs samkomulags við hv. fyrirspyrjanda, því að svörin við þessum fsp. eru langt talnaflóð, sem erfitt er fyrir þm. að fylgjast með, og þess vegna vildi ég mega afhenda honum þau skriflega, en þau eru hér öll ásamt reikningum fiskveiðasjóðs, sem staðfestir voru í gærmorgun. Þetta eru allt nýjar og ferskar tölur, þannig að þær eiga að vera það sannasta og bezta, sem vitað er um, til svara við þessum fsp. Ef fyrirspyrjandi vill, þá get ég lagt í að lesa þetta. (Gripið fram í.) Ég vil ógjarnan fara að meta, hvað er aðalatriði í þessum fsp., en það á að vera í þessu svar við öllum fsp. (Gripið fram í.) Þm. óskar eftir því, að tölurnar séu lesnar upp, og skal við því orðið.

Þetta eru svör fiskveiðasjóðs við fsp., sem rn. kom á framfæri við hann, svörin eru svo hljóðandi:

1. liður: a) Stjórn sjóðsins ákvað 17. marz 1961 að hafa eftirleiðis gengisákvæði í skuldabréfum fyrir lánum úr sjóðnum samkvæmt heimild í lögum nr. 17 frá 10. marz 1961. — Svar við b-lið 1 töluliðar: Tala veittra lána frá þeim tíma og fram að gengisbreytingu 12. nóv. 1968 var 249. Þ.e. án gengisbreytingar frá 1. jan. 1967 til 29. maí 1968 voru lánin 134.

2. liður: a) Lánveitingar án gengisákvæða, frá því að byrjað var að lána þannig og fram að gengisbreytingu 12. nóvember 1968, voru 405 217 500 kr. Það er á tímabilinu 1. jan. 1967 til 29. maí 1968, 371 217 500 kr., og svonefnd PL-480 lán til síldarverksmiðja, samtals 34 millj. kr. - b) Gengistryggð lán veitt á sama tíma námu 1 milljarði 350 millj. og 64 þús. kr., en þar dragast frá eftirstöðvar erlendra skipakaupalána á hverjum tíma.

3. liður: Skuldir fiskveiðasjóðs í erlendri mynt, þegar gengi íslenzkrar krónu var lækkað, falla þannig: Árið 1960 63 766 708.93 kr. Árið 1961 105 229 751.17 kr. Árið 1967 87 830 627.41 kr. Í árslok 1969 voru þessar skuldir 303 958 762.90 kr.

4. liður: Í árslok 1967 voru gengistryggð útlán að frádregnum eftirstöðvum erlendra skipakaupalána 581 949 981 kr. Í árslok 1967 voru útlán án gengistrygginga 854 174 196 kr., auk stofnláns Stofnlánadeildar sjávarútvegsins, sem fiskveiðasjóður yfirtók 31. des. 1966 og var 367.5 millj. kr.

5. liður: Skuldir fiskveiðasjóðs í erlendri mynt hækkuðu í íslenzkum krónum við gengisbreytinguna árið 1967 um 28 632 784.54 kr., 1968 um 93 980 249.27 kr. Við gengisbreytinguna árið 1967 32.6%, voru útlán sjóðsins með gengisákvæði 540 millj. og 240 þús. kr., og nægði þá 5.3% hækkun þeirra fyrir gengisbreytingunni. Árið 1968 var gengistapið 93 380 249.27 kr., en útlán sjóðsins með gengisákvæði 604 802 710 kr., og voru þau hækkuð um 15.14% til þess að mæta gengisbreytingunni.

Að lokum skal þess getið, þó að ekki sé sérstaklega um það spurt, að fiskveiðasjóður hefur sjálfur orðið fyrir gengistapi og afskrifaði af þeim sökum á tímabilinu 1957–1969 samtals 52 644 011.55 kr.

Ef aðrir hv. alþm., sem áhuga hafa á þessu málefni, hafa áhuga á að fá bæði þessi svör og eins hina staðfestu reikninga sjóðsins frá byrjun, þá er það að sjálfsögðu til reiðu, ef menn óska þess.