01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í D-deild Alþingistíðinda. (3852)

921. mál, lánveitingar úr fiskveiðasjóði

Fyrirspyrjandi (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þessi svör. Ég efast ekkert um, að þau séu rétt, svo langt sem þau ná. En ástæðan fyrir því, að ég fór að spyrja um þetta, var sú, að ég fékk spurnir af því, að það hefðu verið veittar undanþágur, sumum hefði verið lánað án gengistryggingar, en öðrum ekki.

Eins og sagt var hér, var byrjað að lána gengistryggðu lánin í marz 1961, en í apríl 1967 er farið að lána án gengistryggingar, og þegar ég spurðist fyrir um ástæðuna fyrir þessu, þá var sagt, að það hefði verið álit yfirstjórnar fjármála landsins, að búið væri að lána nóg af gengistryggðum lánum, það væri ekki ástæða til þess að gera það frekar. Önnur ástæðan var sú, að fjármálin væru í svo góðu lagi, að þetta væri óhætt.

Í árslok 1960 skuldaði fiskveiðasjóður í erlendri mynt 64 millj. Við það bættist gengisbreytingin 1961, þannig að þetta verða fullar 70 millj. í erlendri mynt, sem gerir með tvöfaldri gengisfellingu 1967 og 1968 um 140 millj. En þá eru skuldir fiskveiðasjóðs erlendis eftir báðar þær gengisfellingar um 260 millj., þannig að um helmingur af erlendu lánunum er til, áður en byrjað er að lána gengistryggð lán. Ef þessum 2/5, sem er ógengistryggði hluti lánanna, er bætt við það sem hann telur gengistryggt, þá er það í kringum 1 milljarð, sem eru gengistryggð lán, eða minna en helmingur af heildarlánum fiskveiðasjóðs, en fiskveiðasjóður lætur sig ekki muna um að jafna öllum gengistöpunum niður á þessa menn, sem hafa tekið lán frá árinu 1961 til ársins 1967. Þessar 52 millj., sem fiskveiðasjóður segist hafa tapað, það er tap, sem hann varð fyrir á gengisfellingunum 1960 og 1961, þess vegna er dálítið villandi, þegar sagt er á tímabilinu 1957–1969. Þó að það sé ekki beinlínis ósatt, þá er það dálítið villandi. Þetta eru töpin, sem eru þá.

Þó menn væru neyddir til að taka gengistryggð lán, þá er það í lögum um fiskveiðasjóð, að það sé aðeins um að ræða þann hluta, sem er erlend lán, vegna þeirra lána, sem lánuð eru með gengistryggingu, en ekki vegna annarra lána. Ég álít, að lögin feli ekki í sér lán, sem búið er að taka áður en byrjað var að lána gengistryggð lán, og allra sízt eiga þeir að gjalda þess, sem taka gengistryggðu lánin, þó að stjórn fiskveiðasjóðs finni upp á því að lána heilt ár án gengistryggingar, þegar mjög mikið var um útlán. Eftir hvaða fyrirmælum það hafi verið gert eða hver ástæðan er, það út af fyrir sig skiptir ekki máli. Ef vitleysa hefur verið gerð fjárhagslega, þá eiga þeir ekki að gjalda þess, sem tóku gengistryggðu lánin, heldur verður fiskveiðasjóður að gjalda þess, vegna þess að honum var þannig stjórnað. Og fiskveiðasjóður græddi allt að 200 millj. árið 1968, að ég ætla, bætti við eignir sínar, þannig að möguleiki var fyrir hendi að greiða þessa upphæð, sem hefur sennilega verið um 100 millj., ef rétt væri reiknað, — ég er ekki búinn að reikna það nákvæmlega út, þar eð ég beið eftir þessum svörum, — sennilega allt að 100 millj., sem þannig var jafnað niður.

Ég átti tal við einn aldraðan mann, sem er ágætur sjálfstæðismaður, Magnús nokkur Gamalíelsson á Ólafsfirði. Hans skip var smíðað innanlands. Hann sagði mér, að þessar tvær gengisfellingar hefðu numið 4 millj. á skip, sem hann á og heitir Sigurbjörg. Hann sagði mér, að næsta lán á eftir hefði verið fyrir þá Hermannssyni, — ég skal ekki fullyrða, hvort það er rétt, en hann áleit það, — og þá var lánað án gengistryggingar. Þetta kemur þannig ekki sanngjarnt eða réttlátlega niður. Ég er ekki að kenna sjútvrh. um þetta, því að ég væni hann ekkert um það, að hann hafi átt þar hlut að máli, en ég álít, að hæstv. ráðh. sé skylt að hlutast til um, að þetta verði lagað. Það er leiðinlegt að standa í illindum út af svona hlutum. Ég álít, satt að segja, að þetta mundi vinnast fyrir dómi, ef útgerðarmenn færu í mál, en aðstaða þeirra er þannig, að þeir eiga dálítið erfitt með að standa í málaferlum við bankastjórana. Ég álít að þetta ætti að athuga og laga ætti þessar misfellur. Ég er ekki að segja, að hægt sé að láta þá borga, sem fengu lánin án gengistryggingar, því að það er samningur, sem verður að standa við. En það verður fiskveiðasjóður þá sjálfur að borga, sem annars hefði komið á þá.

Ekki er til neins að fara út í neitt talnaflóð sérstaklega eða útreikning hér, enda er ég ekki búinn að reikna þetta þannig, að ég geti lagt það nákvæmlega fram, en þetta verður athugað, og í sjálfu sér hlýtur hver heilvita maður að sjá, að það nær engri átt að lána víssum aðilum án gengistryggingar, og sú viðbára, að gengið væri svo öruggt, að það væri engin hætta á gengislækkun, er harla fáránleg, því að hver ólærður maður vissi það, að 1967 var gengið tæpast rétt skráð, þannig að það eru einhverjar aðrar ástæður, sem hafa valdið því, að lánað var án gengistryggingar þá. Þarna álít ég, að hafi verið framið stórfellt ranglæti gagnvart þeim mönnum, sem neyddir voru til þess að taka lánin með gengistryggingu. Annars er þetta ekkert nema venjuleg meðferð á útvegsmönnum. Í fyrsta lagi draga bankarnir þá í dilka, þessi á að skipta við þennan bankann, hinn við hinn — það eru aðallega tveir aðalbankar — það er sama, hvernig fram við þá er komið, þarna verða þeir að dúsa, og svo er ekkert verið að tala um, hvað rétt sé, það er bara jafnað niður því, sem þarf, á þessa menn, sem hafa verið neyddir til þess að taka gengistryggðu lánin. Það er farið nákvæmlega með þá eins og þeir væru einhver mörkuð dýr, sem eru dregin í dilka, og talið, að hægt sé að leggja á þá bagga, sem þessum virðulegu bankastjórum þóknast. Þeir eru auðvitað ekki vanir því, að neinn þori að segja neitt við þá, þessir herrar. Ég álít, að það sé hvorki ríkisstj. né þinginu samboðið, að hlutast ekki til um, að þetta sé lagað. Hvaða réttlæti er það t.d., að Hermannssynirnir borgi ekkert gengistap, en Magnús Gamalíelsson á Ólafsfirði þurfi að borga 4 millj., bæði skipin smíðuð innanlands?