01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í D-deild Alþingistíðinda. (3853)

921. mál, lánveitingar úr fiskveiðasjóði

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér er í rauninni verið að ræða allmargar fsp. undir einum lið, og einnig eru allmargir undirliðir. Hér er um allmikilsvert mál að ræða, sem ég efast ekkert um, að allir alþm. vilja gjarnan fá greið svör við. Hins vegar er því ekki að neita, að það er heldur erfitt að átta sig á svörum, sem lesin eru upp, og á þann hátt, sem hér var, þá var mjög erfitt að fylgjast með þessu, og auðvitað væri æskilegt, að svör við þessum spurningum gætu í rauninni borizt skriflega. Ég vildi því fara fram á það við hæstv. sjútvrh., að hann gerði það, sem hann í rauninni bauð hér í sinni ræðu, að hann hlutaðist til um það að senda okkur þm. öllum afrit af þessum svörum, sem hann las hér upp og mjög erfitt var að fylgjast með.

Ég vil svo aðeins segja það um þær fullyrðingar, sem hér hafa komið fram í ræðustóli á Alþ. hvað eftir annað varðandi mismunandi reglur um lánveitingar úr fiskveiðasjóði, að mér hafa, satt að segja, þótt þessar fullyrðingar furðulegar og hefði gjarnan búizt við því, að hér kæmu skýringar á þessu, en mér skilst af þeim svörum, sem ég þykist hafa heyrt nokkurn ávæning af, að það sé upplýst, að fiskveiðasjóður hafi haldið þannig á málum, að hann hafi lánað á alllöngu tímabili öllum, sem lán fengu þá úr sjóðnum, lán með gengisákvæðum, og svo allt í einu, með vissum lánum til vissra aðila, þá hafi verið hætt við að hafa þessi gengisákvæði á lánunum og þannig hafi orðið um herfilega mismunun að ræða hjá lántakendum úr fiskveiðasjóði. Þetta þykir mér alveg furðulegt, og þó alveg sérstaklega að heyra það, að fundið hafi verið upp á því að lána ógengistryggð lán úr fiskveiðasjóði í aprílmánuði 1967, og það hafi verið bankastjórar þeir, sem mestu ráða um skráningu krónunnar, sem fundu það út, að þá væri óhætt að hætta að veita lán með gengisákvæðum.

En hvað um það, þetta eru út af fyrir sig fróðlegar upplýsingar, en ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að láta okkur hafa þessi svör skriflega, hverjum þm. fyrir sig.