01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í D-deild Alþingistíðinda. (3857)

922. mál, niðursoðnar fiskafurðir

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Tilefni þessarar fsp. er blaðamannafundur, er haldinn var í utanrrn. 11. des. s.l., en á þeim fundi var upplýst, að á vegum Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna hefði farið fram athugun á markaðsmöguleikum fyrir niðursoðnar íslenzkar sjávarafurðir í fjórum löndum aðallega, Bandaríkjunum, N.-Þýzkalandi, Frakklandi og Bretlandi. Niðurstaða þessarar könnunar var sú, að talið var, að á næstu 3–5 árum ættu Íslendingar að geta flutt út niðursoðnar sjávarafurðir til þessara fjögurra landa fyrir um 10 millj. dollara á ári. Það var enn fremur upplýst á þessum fundi, að hafnar væru ráðagerðir eða undirbúningur að því að sameina eða samræma störf nokkurra stærstu niðursuðuverksmiðjanna í landinu, og að hér væri þá staddur fulltrúi frá einu af dótturfyrirtækjum Alþjóðabankans, sem hefði það til athugunar, hvort sú stofnun gæti veitt einhverja fjárhagslega aðstoð í þessu sambandi, hvort heldur sem það væri gert með því, að þetta fyrirtæki eignaðist hlutabréf í íslenzkum fyrirtækjum eða veitti lán til þeirra.

Fsp. mín er fram komin til þess að fá það upplýst, hvað hafi gerzt í framhaldi af þessu. En það sjá allir, að hér getur verið um mjög stórt mál að ræða, ef það er rétt, að markaður sé fyrir íslenzkar niðursuðuvörur í þessum fjórum löndum, það stór markaður, að við ættum að geta selt þangað fyrir 10 millj. dollara á ári. Þá er að sjálfsögðu um svo stórt mál að ræða, að við megum ekki láta neitt ógert til þess að hagnýta okkur þessa möguleika. Og til þess að fá það upplýst, hvað ríkisstj. hafi gert í framhaldi af þessum upplýsingum, er þessi fsp. mín fram borin.