01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í D-deild Alþingistíðinda. (3858)

922. mál, niðursoðnar fiskafurðir

Menntmrh. (Gylfi Þ Gíslason):

Herra forseti. Samkvæmt beiðni samtaka niðursuðuverksmiðja fór ríkisstj. í janúar 1968 þess á leit við Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Vín, UNIDO, að hún aðstoðaði við athugun á markaðsmöguleikum fyrir íslenzka fiskniðursuðu, svo og á hvern hátt mætti efla niðursuðuiðnaðinn. Iðnþróunarstofnunin varð við tilmælum ríkisstj. og gerði samning við kanadískt ráðgjafarfyrirtæki, Stevenson og Kelloggs, um framkvæmd athugunarinnar. Hafa fulltrúar fyrirtækisins unnið að þessu máli í samráði við samtök niðursuðuverksmiðja frá því í maí 1969, og afhentu þau bráðabirgðaskýrslu í des. s.l. Frá helztu niðurstöðum bráðabirgðaskýrslunnar og ráðleggingum fyrirtækisins var skýrt á blaðamannafundi 11. des. s.l., og er ástæðulaust að rifja það upp hér. Hins vegar hefur endanleg skýrsla ekki borizt enn þá frá Iðnþróunarstofnuninni, en hún verður að sjálfsögðu látin í té þeim aðilum, sem vinna að því að auka og endurbæta framleiðslu og sölu á niðursuðuafurðum. Ríkisstj. mun framvegis sem hingað til, í náinni samvinnu við framleiðendur, greiða fyrir því, eftir því sem föng eru á, að þessi viðleitni beri sem beztan árangur.