02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

115. mál, iðja og iðnaður

Frsm.1. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. taldi, að ráðh. væru ekki fengin aukin völd með flutningi þessa frv. um breyt. á l. um iðju og iðnað. Ég tók það fram, að þau væru kannske ekki ýkjamikil varðandi þau lög. En þetta er aftur á móti stórmál varðandi lög um verzlunaratvinnu. Tilgangurinn virðist nefnilega vera sá að auka heldur þau völd, sem ráðh. hefur samkv. 1. um iðju og iðnað og fá honum alveg nýjar heimildir til að veita undanþágur frá l. um verzlunaratvinnu og því skal þessum lögum einnig breytt til samræmis við það, sem þar á að koma fram. Hæstv. ráðh. taldi, að ríkisstj. væri að tryggja með þessu, að enginn erlendur aðili fái leyfi til atvinnurekstrar án samþykkis stjórnvalda. Lögin, eins og þau eru, veita ekki neitt slíkt leyfi. Þess vegna þarf að koma undanþága til þess. Hæstv. ráðh. talar líka mjög mikið um, að það hafi verið stefna núv. ríkisstj. að leggja öll slík stórmál fyrir Alþingi og minnti í því sambandi á tvö mál, álsamninginn og kísilgúriðnaðinn. Sé þetta stefna hæstv. ríkisstj., þá sé ég nú ekki, að ráðh. gæti haft neitt á móti því, að svona ákvæði væri þá tekið ótvírætt inn í lög, þ.e. að ráðh. hefði ekki heimild til þess að veita neinar undanþágur, nema samþykki Alþingis kæmi til. Ég sé satt að segja ekki mótsögn í því, heldur miklu fremur hitt, að ríkisstj. ætti að vera því fylgjandi. Hins vegar er náttúrlega ekki hægt að miða lagasetningu við það, hvað einhver ákveðin ríkisstj. kynni að vilja gera og hvað ekki. Lög hljóta að vera óháð slíku, og lög eiga einmitt að segja ráðh. sem öðrum þegnum þjóðfélagsins fyrir verkum.

Hæstv. ráðh. taldi sig tæplega skilja 2. mgr. í þeirri brtt., sem ég flyt á þskj. 337, en hún er þannig:

„Engin ákvæði mega vera í samþykktum félags, sem brjóta í bága við íslenzk lög.“

Þetta er ákaflega auðskilið af minni hálfu og auðskýranlegt. Það segir núna í l., að ef félag er hlutafélag, þá skal enn fremur meira en helmingur hlutafjárins vera í eign manna búsettra á Íslandi, enda sé ekkert það í samþykktum félags, er brjóti í bága við íslenzk lög. Ég vil biðja menn að athuga það, að með þessu frv., þetta er í 4. gr. l., eins og þau eru í dag,– á síðasta mgr. 7. gr. l. að orðast svo: „Heimilt er ráðh. að veita undanþágu frá ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 3. gr.“ — Þetta er óbreytt, eins og það er núna — „og ákvæðum 4. gr., ef sérstaklega stendur á.“ Það er ekkert undan tekið og það, sem ég las, stendur í 4. gr. l. í dag. Það má nú vera, að þetta sé vansmíð á frv. og væri gott, ef svo væri, það væru þá tekin af öll tvímæli um það. En það virðist nú í rauninni vera eins og þetta mál hafi ekki verið skoðað sérstaklega náið og það virðist vera ásetningur að koma því fram, bæði í þessum l. og eins í l. um verzlunaratvinnu, að veita ráðh. þetta leyfi.

Nú má vera, að frá sjónarhóli vissra manna sé þetta skoðað sem eins konar öryggisventill við því, sem kannske gæti ella gerzt, eftir að við erum orðnir aðilar að EFTA. En með samþykkt þeirra till., sem við í minni hl. flytjum hér núna, þá held ég, að l. yrðu aðeins tryggari og betri. Það mætti segja það, að í höndum valinna manna í ráðherrastól væri kannske ekki nein hætta á ferðum, en eins og ég sagði áðan, geta lög ekki miðazt við það, hverjir sitja í ráðherrastólum.