08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í D-deild Alþingistíðinda. (3869)

923. mál, ómæld yfirvinna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var hér áðan verið að ræða um það, hvernig fsp. væru úr garði gerðar, og ég held nú sannast sagna, að ef á að taka bókstaflega þá fsp., sem hér er borin fram í 1. tölulið, þá sé hún nánast dæmi um fsp., sem a.m.k. enginn svarar með viku fyrirvara, heldur hygg ég, að þyrfti að setja menn til að rannsaka hana vikum eða mánuðum saman, vegna þess að hún hljóðar þannig: „Hvað hefur mörgum ríkisstarfsmönnum verið greidd ómæld yfirvinna, og hvenær voru þessar greiðslur upp teknar?“ Það eru engin tímamörk sett, hvenær þetta hafi átt að gerast, hvort það hafi verið um síðustu aldamót eða á hvaða árum þetta hafi verið gert. Nú heyri ég að vísu á skýringum hv. þm., hvað hann á við með þessu, en ef fsp. er tekin bókstaflega, þá virðist vera leitað eftir því að fá því svarað, hvenær þetta upphaflega hafi tíðkazt, því það er spurt, hvenær greiðslurnar hafi verið upp teknar, og hve mörgum ríkisstarfsmönnum, þá væntanlega á hverjum tíma, hafi verið greiddar þessar greiðslur.

Það hefur verið leitazt við að kanna þetta lauslega, eftir því sem mögulegt hefur verið, í bréfabókum og úrskurðum í fjmrn., en ég vil taka það skýrt fram, að það er fjarri því, að þar sé um tæmandi athugun að ræða, og kunna því bæði að vera til eldri dæmi um slíkt og eiga sér miklu lengri og dýpri rætur en ég get hér svarað, en það, sem ég segi um þann 1. lið, er það, sem bezt verður vitað á þessum tíma, sem gefizt hefur síðan fsp. kom fram, það sem bezt verður vitað um þetta efni.

Ég vil að vísu fyrst taka það fram, áður en ég svara þessu, að það virðist stundum hafa valdið misskilningi, þegar talað er um ómælda yfirvinnu, og ýmsir álita, að það sé einhver aukaþóknun fyrir vinnu, sem ekki sé unnin. Það tek ég skýrt fram, að ætíð er ætlazt til, að hér sé um greiðslur fyrir störf að ræða, sem raunverulega hafi verið leyst af hendi. Ég vil jafnframt, áður en ég vík að fsp., segja hv. þm. það, sem ég veit, að hann skilur, ef hann athugar það nánar, að það er auðvitað gersamlega útilokað fyrir mig, hér í þessum stól, að svara því í fljótu bragði, í hvaða launaflokkum allir þessir starfsmenn eru, sem hafa fengið greidda ómælda yfirvinnu. Því get ég með engu móti svarað, án þess að það sé rannsakað sérstaklega.

Svarið við fyrstu spurningunni, eftir því sem bezt verður vitað, er sem hér segir: Árið 1969 fengu um 170 starfsmenn ríkisins greidda yfirvinnu án þess að vinna þeirra væri hverju sinni mæld af yfirmönnum þeirra. Í þessum hópi starfsmanna eru þó ekki taldir yfirlæknar ríkisspítalanna og skólastjórar, sem greiðslur fá vegna tví- og þrísetningar á skólum. Af nefndum 170 starfsmönnum eru 48 stöðvarstjórar Pósts og síma víðs vegar um landið. Þá eru 33 starfsmenn aðalskrifstofu Pósts og síma í Reykjavík, og eru þar á meðal forstjórar hinna einstöku deilda Pósts og síma. Þá er um að ræða 51 forstöðumann ríkisstofnana eða fyrirtækja ríkisins, nokkra byggingaeftirlitsmenn á vegum menntmrn. og allmarga húsverði, er gæta húseigna ríkisins, svo og fleiri slíka, sem meta þurfa yfirvinnuþörf sína sjálfir.

Þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan hefur ekki tekizt að upplýsa, hvenær greiðslur fyrir ómælda yfirvinnu hafa fyrst verið teknar upp í ríkiskerfinu, en ljóst er, að hér er ekki um nýmæli að ræða. Árið 1946 barst fjmrn. svofelld fundarsamþykkt frá Félagi forstjóra Pósts og síma: „Fundur í Félagi forstjóra Pósts og síma, haldinn 24. okt. 1946 í Reykjavík, skorar á póst- og símamálastjóra og ríkisstjórn að bæta nú þegar úr því misrétti, sem starfsmenn í hærri launaflokkum verða fyrir, með því að þeim er ekki greidd aukavinnuþóknun, og bera þeir því langtum minna úr býtum heldur en fjöldinn allur af undirmönnum þeirra, jafnvel þó að raunverulegur vinnutími yfirmanna sé í mörgum tilfellum lengri.“

Ljóst er, að Félag forstjóra Pósts og síma hefur fengið einhverju áorkað með samþykkt sinni, því að í skjalasafni fjmrn. er að finna svofellt bréf frá 14. jan. 1952:

„Við undirritaðir, sem höfum fallizt á að taka upp samningsbundna þóknun fyrir óhjákvæmilega aukavinnu í stað þess að fá hana greidda eftir tímavinnutaxta, eins og reglugerð, útg. 11. marz 1946, gerir ráð fyrir, leyfum okkur hér með að vekja athygli yðar á því, herra póst- og símamálastjóri, að við höfum aðeins fengið greidda 23% verðlagsuppbót á þessa þóknun árið 1951. Hins vegar lítum við svo á, að á hana beri að greiða sömu verðlagsuppbót og aðra aukavinnu. Við leyfum okkur því að fara þess á leit, að það verði leiðrétt.“

Póst- og símamálastjóri framsendi erindi þetta til fjmrn., sem svaraði málaleitan þessari hinn 4. marz 1952 með svofelldu bréfi:

„Rn. hefur móttekið bréf yðar, herra póst- og símamálastjóri, dags. 4. f.m., varðandi verðlagsuppbót á samningsbundna aukavinnuþóknun nokkurra starfsmanna. Þeirri reglu er fylgt án undantekningar af hálfu ríkissjóðs að greiða ekki á aukaþóknanir hærri verðlagsuppbót en 23%, og getur rn. ekki samþykkt að víkja frá þeirri reglu að því er varðar fyrrgreinda starfsmenn póst- og símamálastjórnarinnar.“

Undir þetta bréf rita Eysteinn Jónsson og Kristján Thorlacius.

Af þessu má vera ljóst, að greiðslutilhögun sú, sem hér um ræðir, hefur verið vel kunn í fjmrn. árið 1952, og má reikna með, að svo hafi verið jafnan síðan.

Þá er hér spurt, hver hafi ákveðið þessar greiðslur, og eftir hvaða heimild þær séu inntar af hendi. Greiðslur til skólastjóra vegna starfa við tví- og þrísetta skóla eru ákveðnar af menntmrn. í samræmi við ákvæði 13. gr. dóms kjaradóms frá 30. nóv. 1967. Greiðslur til húsvarða eru ákveðnar af fjmrh., og í framkvæmd eru þær í samræmi við samkomulag í samstarfsnefnd BSRB og fjmrn. frá árinu 1962. Greiðslur til yfirmanna Pósts og síma fyrir ómælda yfirvinnu hafa verið inntar af höndum með vitund fjmrn. en greiðslur til annarra, er slíkar greiðslur taka, hafa verið ákveðnar af rn. Heimildir til greiðslna þessara er að finna í ákvæðum 14. gr. dóms kjaradóms frá 30. nóv. 1967.

Þá er hér spurt: Hvaða ástæður lágu til þess, að umræddum starfsmönnum var greidd launauppbót með þessum hætti, en ekki hækkuð launin sem þessari greiðslu nam? Dómur kjaradóms frá 3. júlí 1963 ákvað starfsmönnum ríkisins daglegan vinnutíma. Starfsmönnum á skrifstofum var samkv. dómi þessum ætlað að vinna frá kl. 9–12 og 13–17 hvern virkan dag nema laugardaga kl. 9–12. Almennt var svo skilið, að þeim aðilum, sem verkstjórn hefðu á hendi á skrifstofum, þar með taldir forstöðumenn stofnana, bæri að vera við á skrifstofutíma. Samkv. ákvæðum 7. gr. dómsins telst hver sú vinna yfirvinna, sem fer fram yfir hinn venjulega daglega vinnutíma. Samkv. 14. gr. dómsins ber að greiða starfsmönnum ríkisins laun fyrir þá yfirvinnu, sem hlutaðeigandi yfirmaður hefur sérstaklega óskað, að innt væri af höndum. Iðulega kemur fyrir, að starfsmenn ríkisins þurfa að sinna störfum utan hins daglega vinnutíma. Það liggur í hlutarins eðli, að vandkvæði eru á að leggja það í hendur þeirra, sem sjálfir geta ákveðið lengd yfirvinnu, að meta yfirvinnu sína í klst. Yfirmenn ríkisstofnana hafa a.m.k. beðizt undan slíkum vinnubrögðum. Í kröfugerðum fyrir dómi kjaradóms voru báðir samningsaðilar, BSRB og ríkissjóður, sammála um, að þeim starfsmönnum, er aðstöðu hefðu til að ákveða sjálfir, hvort yfirvinna skyldi unnin, skyldi ekki greidd yfirvinna, nema til kæmi samþykki yfirvalds þeirra.

Eins og að framan segir, hefur það verið árum saman hlutverk ráðh. að ákveða yfirmönnum í starfsmannakerfi ríkisins yfirvinnugreiðslur. Því mun enginn neita, er til þekkir, að iðulega eru gerðar kröfur um, að yfirmennirnir gegni störfum langt umfram hinn daglega vinnutíma. Sem dæmi má nefna skattstjórana, en segja má, að allt starfslið skattstofanna vinni mikla aukavinnu, sérstaklega fyrri hluta árs. Nefna má og störf forstjóra ÁTVR, en verzlanir, sem eru undir hans stjórn, eru opnar til kl. 18 flesta daga, svo og á laugardögum. Um það má deila, hvort mat á yfirvinnu sé handahófskennt eða ekki, en sú ákvörðun samningsaðila, að slíkt mat sé bezt komið í höndum fjmrn., er hins vegar staðreynd. Fjmrn. sér enga leið til að skipa yfirmönnum í þjónustu ríkisins að sinna ekki störfum utan daglegs vinnutíma. Í mörgum tilvikum er slík yfirvinna óhjákvæmileg. Engin rök hafa verið fram færð fyrir því, að mat rn. á ómældri yfirvinnu væri of ríflegt. Þvert á móti bera gögn, er borizt hafa rn., það með sér, að greiðslur rn. séu mjög við nögl skornar miðað við raunverulegt vinnuframlag. Hafa sumir forstöðumenn ríkisfyrirtækja fært að því rök, að sú þóknun, sem þeim hafi verið ákveðin, svari til 70–80 kr. greiðslu fyrir hverja unna stund í yfirvinnu og jafnvel mun minna en það.

Föst laun ríkisstarfsmanna eru ákveðin í samráði við ákvæði laga nr. 55 frá 1962. Samkvæmt núgildandi kjarasamningi koma föst laun til endurskoðunar 1. júlí n. k. Sé það talið æskilegt markmið í sjálfu sér, að starfsmenn ríkisins fái ekki greidda yfirvinnu, nema hún sé nákvæmlega tímamæld hverju sinni, er ekki nóg að breyta föstum launum starfsmanna, heldur verður einnig að breyta þeim vinnutímareglum, sem launagreiðslur til starfsmannanna grundvallast nú á. Varðandi forstjóra, sem sérstaklega eru gerðir að umtalsefni, væri það vitanlega æskilegast, að hægt væri að haga launagreiðslum til þeirra með þeim hætti, að aukavinna kæmi aldrei til greina. Segja má, að það sé sjónarmið út af fyrir sig, en þá verður að sjálfsögðu að haga launagreiðslum með öðrum hætti en nú er gert, þar sem forstjórar hafa í fjöldamörgum tilfellum mun lægri laun en margir af þeirra undirmönnum, og það hefur ekki verið talið mögulegt, eins og launakerfið er í dag, að launa forstjórum með þeim hætti, að hægt sé skilyrðislaust, burt séð frá því, þó að þeir þurfi að vinna langt fram yfir venjulegan vinnutíma, að ætla þeim að gera það án þess að fá nokkra greiðslu fyrir. Það mundi leiða til þess vanda, að ókleift væri að fá úrvalsmenn til þess að sinna forstjórastörfum fyrir ríkisstofnanir.

Ég vil aðeins svo að lokum taka það fram, þó að ekki sé beint um það spurt, — það er í nánu sambandi við þetta mál, — að með því starfsmati, sem nú er unnið að á vegum BSRB og fjmrn. eftir lögfestum samningum þessara aðila, er í rauninni ætlunin að grípa töluvert á þessu vandamáli og gera sér til hlítar grein fyrir því, hvernig eðlilegast er að flokka starfsmenn ríkisins, hvort það skuli gera með öðrum hætti en nú er gert. Að öðru leyti tel ég ekki efni fsp. gefa ástæðu til þess að ræða um það mál út af fyrir sig.