02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

115. mál, iðja og iðnaður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál. Þó er eitt atriði, sem mér láðist að geta áðan í sambandi við l. um verzlunaratvinnu, sem ég vil, að komi fram núna, þar eð hv. 2. landsk. þm. vitnaði til breytingar á þeim, sem hefði verið gerð fyrir tveimur árum og þá hefði ekki verið í þeim l. heimild fyrir ráðh. að veita undanþágur, eins og í l. um iðju og iðnað. Þetta atriði kom ekki til umr. hér í þinginu í sambandi við l. og það var ekki nein breyting frá eldri 1. um verzlunaratvinnu að þessu leyti, en þau voru frá 1925. En það gat litið út eins og hv. þm. setti þetta fram, að fyrir tveimur árum hefði þessu verið breytt. En l. frá 1925 voru að þessu leyti alveg óbreytt, miðað við l. frá 1967 eða 1968.

En varðandi svo 2. málsgr. í brtt. hv. 2. landsk. þm., úr því að umr. hafa orðið um það hér og þm. virkilega halda, að það sé hægt, eins og þetta er útbúið, að fá ráðherraheimild til þess að veita undanþágu frá íslenzkum lögum, þá hef ég ekkert á móti því, að sá liður sé samþykktur og það er þá bezt að hafa það alveg ákveðið. Ég sagði áðan, þetta lægi í hlutarins eðli og því algerlega óþarft að setja þetta í lög, en það er auðvitað eins gott, úr því að enn er vitnað til þess, að þetta standi þá alveg tvímælalaust. Það var í eldri lögum. (Gripið fram í.) Já, ég er að segja það, úr því að hv. þm. vill hafa þennan skilning, þá skulum við taka af öll tvímæli og ég fyrir mitt leyti legg þá til, að við samþykkjum þetta. Það væri að vísu réttara að hafa orðalagið svolítið öðruvísi, vegna þess að það er veitt heimild til undanþágu frá ákvæðum 4. gr., nema því, að engin ákvæði megi vera í samþykktum félagsins, er brjóti í bága við íslenzk lög. Gr. er þannig orðuð, að þetta skiptir ekki miklu máli.

Við getum að mínum dómi samþykkt þessa brtt., þ.e.a.s. 2. lið hennar, og mundi ég þá leggja til, að brtt. á þskj. 337 yrði borin upp í tvennu lagi, þegar þar að kemur.