08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í D-deild Alþingistíðinda. (3870)

923. mál, ómæld yfirvinna

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. svör hans við spurningum mínum, en það kom greinilega fram í svörum hans, að í sjálfu sér er þessi greiðsla dálítið handahófskennd. Og eins og mig grunaði, þá mundi einmitt þessi greiðsla þurfa að komast í annað horf en nú er. Hæstv. ráðh. gat um það, að heimildir væri að finna í kjaradómi frá 1967 í 14. gr., en þar segir, að slíka greiðslu ákveði fjmrn. með samkomulagi við viðkomandi starfsmenn og vitund BSRB. Nú langar mig til þess í framhaldi af þessu að spyrja um það, hvort þessar greiðslur séu inntar af hendi með vitund starfsmannafélags starfsmanna ríkis og bæja. Það vill nú svo vel til, að formaður þessara samtaka á hér sæti á þingi, og mér þætti í sambandi við þetta gaman að heyra eitthvað um það, hvernig þessu sé fyrir komið. Ég held, að það hljóti að vera markmiðið að reyna að koma þessum greiðslum í fastara form heldur en hér er, og ég vænti þess, að það verði athugað í sambandi við það starfsmat, sem nú fer fram, í sambandi við það, að þessir starfsmenn séu ekki of saddir af sínum launum. Ég efast ekkert um það, að menn eru sjálfsagt flestir, miðað við þau laun, sem nú eru greidd, ekki ofhaldnir af launum sínum, en það er svo annað mál. Það eru ýmsir aðrir, sem hafa þó enn þá minna en margir af þeim mönnum, sem þarna er um að ræða a.m.k.