08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í D-deild Alþingistíðinda. (3872)

923. mál, ómæld yfirvinna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að blanda vísitölugreiðslum inn í þetta mál, og mér finnst það hæpið hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að vera að koma því máli hér að, en það er eins og sagt var um einn ágætan mann, sem alltaf lauk ræðu sinni þannig: „Auk þess legg ég til, að Karþagó verði lögð í eyði.“ Þessi hv. þm. blandar vísitölu yfirleitt inn í öll mál, þar sem hann getur komið henni að.

En varðandi að öðru leyti það, sem hv. þm. sagði, þá má það kannske teljast nokkur dirfska af mér að fara að deila við hann um lögfræðileg efni, en ég get ekki að því gert, þó að ég verði að viðurkenna, að þessi hv. þm. hafi mikla þekkingu í þeim efnum og hafi gefið margar merkar álitsgerðir um lögfræðileg efni, að mér fannst, að honum skjátlaðist töluvert mikið í lögskýringum sínum í þetta sinn. Það held ég, að geti ekki farið fram hjá mönnum.

Í fyrsta lagi í sambandi við bréfið, sem ég gat um frá 1952, og sem virtist koma ákaflega illa við hann, en sem ég vil taka alveg skýrt fram, að fól ekki í sér hjá mér nokkra ádeilu á þann hæstv. ráðh. þáverandi, sem gaf það út. Þetta bréf olli því, að hann taldi miklu máli skipta að fara að sanna það. að þá hefði verið allt öðru vísi ástatt en nú. Ég held, að þá hafi verið ósköp álíka ástatt og þáverandi hæstv. ráðh. hafi haft fulla ástæðu til að gera þessar ráðstafanir, og þó að þá hafi gilt önnur skipan á þessum málum, þá veit hv. þm. það mætavel, að þá giltu launalög og í þeim lögum var ákveðið, að tilteknir flokkar embættismanna, þ. á m. forstjórar, skyldu ekki fá aukavinnu greidda, og ef það á að teljast lagabrot hjá mér að hafa farið eftir kjaradómi, af því að kjaradómur hafi brotið lögin, en að það sé ekki saknæmt hjá ráðh. að hafa brotið bein lagafyrirmæli Alþingis, þá fer manni að ganga illa úr þessu að skilja lögskýringar og lögfræðilegan hugsanahátt. En mér dettur ekki í hug að halda, að þessi hæstv. fjmrh., sem þá var, hafi brotið lög. Ég hygg, að hann hafi haft ærnar ástæður til að gera þetta, án þess að ég hafi skoðað það niður í kjölinn, en ég vil aðeins mótmæla því, að kerfið hafi breytzt hvað þetta snertir á nokkurn minnsta máta.

Hv. þm. virtist nú ekki hafa kynnt sér kjarasamninga, úrskurð kjaradóms, en sagði, að ef hann væri með tilteknum hætti, þá hlyti hann að vera rangur. Mér finnst það dálítið einkennileg niðurstaða hjá lærðum lögfræðingi að fella dóm um þetta með þessum hætti. Jafnframt vitnaði hann í 6. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Sú grein á alls ekki hér við, heldur 5. gr. laganna, þar sem segir, að í kjarasamningum skuli kveða á um föst laun, vinnutíma og laun fyrir yfirvinnu, og vitanlega er þá gert ráð fyrir því, að ef ekki tekst kjarasamningur, þá skuli kjaradómur skera úr um málið, og það gerði kjaradómur nú síðast 1967. Og það er hvergi mér vitanlega að finna nein ákvæði um það í kjarasamningalögunum, að kjaradómur megi ekki heimila það, að ráðh. fái visst vald til þess að ákveða um atriði, sem gengið er út frá, að eðlilegt sé að komi til framkvæmda við vissar aðstæður. Það hefur ekki verið neinn sérstakur ágreiningur um það heldur milli BSRB og rn., að það geti í vissum tilfellum verið eðlilegt, að svo væri gert, t.d. þar sem ekki er möguleiki að mæla yfirvinnu. Að öðru leyti er yfirvinna ákveðin af kjaradómi eða eftir atvikum með samningum við BSRB, og stundum hefur tekizt að semja um það og stundum ekki, og þá gengur það til kjaradóms. En ég held, að aldrei hafi verið neinn ágreiningur um það, að í vissum tilfellum, þar sem ekki er möguleiki að láta það vera háð mati starfsmannsins sjálfs, hver yfirvinna væri, þá hlyti það að verða rn., sem yrði að meta þessa yfirvinnu, enda hljóðar þetta ákvæði svo í síðasta dómi kjaradóms: „Slíkar greiðslur,“ — þ.e. til forstöðumanna ríkisstofnana og þeirra, sem ekki geta eða sem sjálfir hafa ekki yfir sér neinn til að sannreyna sína aukavinnu, — „ákveður fjmrn. með samkomulagi við viðkomandi starfsmenn eða starfsmann og með vitund BSRB.“ Og að því er ég hygg hefur í langflestum þeirra tilfella, sem hér hafa átt sér stað, sú vitund verið til staðar, en ég skal taka það fram, að ég hygg, að það muni hafa láðst fyrr en nú eftir á að gefa BSRB yfirlit yfir þá starfsmenn, sem þessar aukavinnugreiðslur hafa síðan verið ákveðnar til, og ber mer að sjálfsögðu sem ákvörðunaraðila um það mál að biðja BSRB sem slíkt að afsaka það. Það hefur þegar verið gert nú, en það er rétt, að það mun hafa láðst að tilkynna þetta þá þegar, sem fyrst og fremst stafar af því, að venjulega ber þetta nú þannig að með þessar aukavinnugreiðslur, að þær koma í gegnum BSRB, sem heldur fram kröfum sinna félaga, en forstjórar ríkisstofnana eru yfirleitt engir í BSRB að undanskildum forstjórum Pósts og síma, og þar af leiðandi komu þessar óskir og kröfur ekki frá BSRB, heldur í gegnum viðkomandi rn. Þannig er þetta til komið, en það afsakar það að sjálfsögðu ekki, að fjmrn. hefði átt að tilkynna BSRB þessar greiðslur strax og þær áttu sér stað. En eins og ég áðan sagði, þá er þannig á kveðið í þessum úrskurði kjaradóms, að það er ekkert samningsatriði við BSRB, heldur aðeins að láta BSRB vita, þegar slíkar greiðslur eiga sér stað. Og ég vonast til, að það bregðist ekki frá rn. hálfu, að það verði jafnan gert hér eftir.

Varðandi það atriði, að æskilegt væri að koma þessum greiðslum í fastara horf, þá get ég gersamlega tekið undir öll orð, sem fallið hafa í þá átt. Og það er sannarlega engin löngun fjmrn. að vera að greiða einhverjar aukagreiðslur til starfsmanna. Það er fjarri sanni, að það sé sérstök ósk rn. Þegar það hins vegar liggur ljóst fyrir, að viðkomandi starfsmenn eru beinlínis beittir rangindum, ef þeir ekki fá slíkar greiðslur, þá tel ég mér a.m.k. skylt að líta á það mál. Hvort það kann að leiða til einhvers handahófskennds mats, skal ég ekkert um segja. Segja má, að það sé alltaf visst handahóf á því, hvernig slíkt er metið, t.d. ómæld yfirvinna. Þetta verður alltaf visst handahóf. En ég vil aðeins til fróðleiks, — til að menn viti, hvernig það hefur verið meðhöndlað í fjmrn. og það gagnvart embættismönnum, sem heyra undir það rn. sjálft, — skýra frá því, til þess að menn fái hugmynd um, að rn. sé þar ekki að ofgreiða mönnum, að t.d. skattstjórarnir hafa haldið mjög nákvæma skrá yfir sína yfirvinnu, og skattstjóri t.d., sem átti rétt samkv. yfirvinnugreiðslutaxta á 168 þús. kr. fyrir árin 1963 og 1964, — það var greitt sameiginlega fyrir bæði þau ár, — hann fékk 70 þús. kr. Annar, sem átti samkv. sömu reglum kröfu á 122 þús. kr., fékk 60 þús. Þriðji, sem átti kröfu á 202 þús. kr., fékk 75 þús., og fjórði, sem átti kröfu á 241 þús. kr., fékk 80 þús., og eins og ég gat um áðan hefur verið reiknað út, að einn forstjóri, sem heyrir undir fjmrn., og kom þess vegna vinna hans þar til úrskurðar, forstjóri ÁTVR., fær yfirvinnugreiðslu, sem mundi nema um 67 kr. fyrir hverja yfirvinnustund, og sér það hver maður, að ekki er hægt að segja, að það hafi verið ofgert við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli.

Um það, hvort slíkri skipan væri unnt að koma á, að hægt væri að hætta yfirvinnugreiðslum, skal ég ekkert segja. Ég er þó ósköp hræddur um, að aldrei verði hægt að finna það launakerfi, að ekki verði mismunandi aðstaða, jafnvel forstjóra líka. Sumir þurfa að vinna miklu meira en aðrir. Eftir atvikum er æskilegast, að það sé metið í kjarasamningi, en ég efast um, að það verði mælt til hlítar. Varðandi þessa ómældu yfirvinnu, þá er það að vísu ekki sérstakt í sambandi við þau mál, sem heyra undir fjmrn. eða koma til ákvörðunar þess sem ráðandi aðila í launamálum ríkisins, heldur hefur verið metið svo t.d. af stórum stofnunum hér í landinu, bönkunum, að það væri æskilegast, og bæði bankarnir og starfsliðið hafa talið það mjög heppilegt fyrirkomulag, að ómæld eftirvinna væri greidd sem svarar 13. mánuði ársins, en aftur á móti fær þetta starfsfólk ekki greidda yfirvinnu. Þarna verður vitanlega um mismunun að ræða, sem starfsmennirnir þó hafa sætt sig við. Sumir vinna áreiðanlega mun meiri vinnu en sem þessu nemur, og aðrir vinna minna. En þarna hefur náðst samkomulag um það milli launþeganna annars vegar og vinnuveitendanna hins vegar, að þetta skuli gert, svo að það hefur a.m.k. í því tilfelli ekki verið talin nein óhæfa. En sem sagt, ég skal ekki fara að deila um það, hvort kjaradómur, skipaður þeim mönnum, sem þar sitja, hefur gerzt lögbrjótur eða ekki. En ég mundi álíta, að mér væri heimilt sem ráðh., sem lögum samkv. á að fara eftir þeim dómi, að byggja á honum, meðan honum er þá ekki sérstaklega hrundið.