15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í D-deild Alþingistíðinda. (3882)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans, en jafnframt gera við þau nokkrar aths. Þar er þá fyrst af að taka, að það er ekki rétt með farið, að gert hafi verið samkomulag á milli þingflokka um greiðslur til dagblaðanna eða þessar greiðslur yfirleitt. Það hefur aldrei verið borið undir Alþb. sem þingflokk neitt samkomulag í þeim efnum, enda ekki leitað eftir því. Hitt fór hins vegar ekki fram hjá mér frekar en ýmsum öðrum, að það voru hér ýmsir áhugasamir menn, og m.a. voru þeir, sem voru hér á Alþingi og stóðu að útgáfu Þjóðviljans, þar í hópi, sem höfðu hug á því að fá ákveðinn stuðning við dagblöðin. Það er því ekki rétt, að hér hafi það verið lagt til grundvallar, að gert hafi verið samkomulag á milli þingflokka.

Í öðru lagi er það alveg augljóst mál, að hér hefur ekki verið um að ræða og er ekki um að ræða greiðslur til flokkanna eða málgagna þeirra sem slíkra, vegna þess að þessi greiðsla hefur verið miðuð við dagblöð. Þannig hefur t.d. einn stjórnmálaflokkurinn með þessum skýringum þá fengið tvöfaldan styrk, því að tvö dagblöð, sem styðja Sjálfstfl., njóta þessara greiðslna. Hér var um það að ræða, eins og skýrt var tekið fram í heimildum frá Alþ., að verja tiltekinni upphæð til þess að kaupa fyrir dagblöð. En hitt atriðið hefur hér stundum verið til umr. manna á meðal, hvort taka ætti upp það kerfi að veita stjórnmálaflokkunum stuðning á einn eða annan hátt, en það hefur ekki verið gert nema að því leyti, sem hæstv. fjmrh. hefur gert í þessu tilviki.

Þá er það einnig alveg ljóst, bæði á því, sem fram hefur komið í blöðum og annars staðar, og á því, sem hæstv. fjmrh. hefur upplýst hér, að hann hefur veitt þessu eina vikublaði þennan stuðning áður en hér var myndaður nýr þingflokkur samkv. tilkynningu Alþ., löngu áður, svo að þingflokkaskýringin nægir ekki heldur. Og einnig áður en myndaður var stjórnmálaflokkur, sem stóð að þessu blaði. Því er ekkert um það að efast, að hér er tekin upp greiðsla af hæstv. fjmrh., án þess að nokkrar heimildir séu til þess að taka hér út úr eitt vikublað sérstaklega, og þó að menn vildu nú jafnvel segja, að þeir vildu gefa öllum flokkum eða flokksbrotum eða þeim, sem ætla að fara að verða flokkur, kost á því að geta gefið út blöð, þá er sú regla brotin einnig, því að hér eru fleiri á ferðinni með sams konar aðstöðu og hafa ekki orðið þessa stuðnings aðnjótandi. En ég hef fengið þær upplýsingar, sem ég bað um. Það liggur að mínum dómi alveg ljóst fyrir, hvernig á þessum málum hefur verið haldið.