15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í D-deild Alþingistíðinda. (3883)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er nú nokkuð umliðið síðan samkomulag varð um það milli forustumanna flokka að taka upp þessi kaup á blöðum eða styrk til blaða eða greiðslu fyrir þjónustu, hvernig sem menn vilja orða það. Og ég skal ekki á þessari stundu herma það með vissu, hverjir töluðu við mig af hálfu hvers einstaks flokks. En ég þori að ábyrgjast hitt, að þá var talað við mig á þann veg, að mælt væri fyrir munn flokkanna sem flokka. Hvort það var stjórnmálaflokkur eða þingflokkur skiptir ekki öllu máli, en við vorum látnir hafa þann skilning, að þarna væri um að ræða samkomulag á milli flokka. Það þori ég hiklaust að fullyrða. En eins og ég segi, það er nokkuð umliðið síðan þetta gerðist, og ég get ekki á þessari stundu rifjað upp öll einstök samtöl, sem áttu sér stað, enda á það kannske ekki við að vera að vitna í einkasamtöl manna á milli. Hitt þori ég alveg með vissu að fullyrða, að formenn flokkanna komu saman rétt fyrir lok fjárlagaafgreiðslu nú í vetur, ekki af mínum hvötum heldur annarra, til þess að ræða um hækkun á þessum greiðslum. Og þar voru það einmitt formenn þingflokkanna, sem voru saman komnir, og þar var þetta mál rætt, og þar var komizt að samkomulagi um málið. Ég endurtek, að það var hvorki af mínum hvötum, sem sá fundur var haldinn, né af mínum hvötum, sem til þess samkomulags var efnt, en ég tek á mig minn hluta af ábyrgðinni, því að ég féllst á það með samþykki Sjálfstfl. Jafnframt er rétt að geta þess, að Lúðvík Jósefsson gerði þá aths. um það, að hann væri þessari greiðslu andvígur til þess vikublaðs, sem hann hefur nú minnzt hér á.

En ég tók það alveg skýrt fram, að þeirri greiðslu mundi verða haldið áfram í sama hlutfalli, og ef ætlunin væri að halda greiðslunni, hvað þá hækka hana, þá yrði þeirri greiðslu haldið áfram. Þetta gat ekki farið á milli nokkurra mála og ég vitna til annarra þeirra, sem þarna voru, um það, hvort ég greini ekki efnislega rétt frá.