15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í D-deild Alþingistíðinda. (3886)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mig langar í fyrsta lagi til þess að staðfesta það, sem hæstv. forsrh. sagði um aðdraganda þeirrar fjárveitingar, sem nú er í gildi í fjárlögum fyrir árið 1970. Ég átti þátt í þeim viðræðum, sem hann tilgreindi, og var það allt satt og rétt, sem hér var frá greint.

Í öðru lagi langar mig til þess að bæta við örfáum atriðum varðandi upphaf þessara blaðastyrkja, vegna þess að ég sem formaður Alþfl. og þingflokks hans átti þátt í þeim viðræðum fyrir hönd míns flokks. Í þeim tóku þátt auk mín, hæstv. forsrh. og hv. þm. Eysteinn Jónsson, sem þá var formaður þingflokks Framsfl., og Einar Olgeirsson, einn af forustumönnum Alþb. Á þeim árum var Alþb. óklofið, og ég segi það hreinskilnislega frá mínu sjónarmiði séð, að það hvarflaði aldrei að mér, meðan á þessum viðræðum stóð, að um þetta mál mundi geta orðið sá ágreiningur, sem í ljós hefur komið síðar, að orðið hefur vegna framkvæmdar málsins. Alþb. gaf þá aðeins út eitt málgagn, eitt aðalmálgagn, að því er ég bezt veit, og þótti öllum öðrum sanngjarnt og rétt, að það nyti að sjálfsögðu hliðstæðs styrks og um var samið til hinna fimm dagblaðanna. En samkomulagið, sem þá var gert í upphafi, án þess að það væri þá bundið í fjárlögum, var með þeim hætti, að kaupa skyldi 300 eintök af hverju fimm dagblaðanna, tveim dagblöðum stærsta flokksins og einu dagblaði hvers hinna flokkanna, að Ríkisútvarpið skyldi greiða 1000 kr. á dag eða fyrir hvert skipti, sem dagblað birti dagskrá hljóðvarps og sjónvarps, og að Póstur og sími skyldi veita dagblöðunum vissa fyrirgreiðslu í sambandi við þjónustu sína við þessi blöð, þ.e. vissan afslátt. Um þetta varð algert samkomulag í upphafi, og ég tel, að þetta samkomulag hafi verið sanngjarnt og skynsamlegt og í raun og veru hafi enginn þurft yfir því að kvarta í sjálfu sér.

Það, sem svo síðan hefur gerzt, er það, að Alþb. hefur klofnað. Tveir þm. þess hafa myndað sérstakan þingflokk, og það hefur kallað á nýtt vandamál. Ég hika ekki við að kalla það vandamál og viðurkenna, að það er vandamál. En þegar málaleitun kom frá hínum nýja þingflokki til hæstv. fjmrh. þess efnis, að málgagn þeirra fengi sams konar fyrirgreiðslu að því er eintakafjöldann snerti, — ekki að því er snerti greiðslu frá Ríkisútvarpinu, vegna þess að blaðið birti ekki dagskrána, og heldur ekki að því er snertir fyrirgreiðslu hjá Pósti og síma, því að ekki er um hliðstæða útbreiðslu að ræða, — þá bar hæstv. fjmrh. það undir mig sem formann þingflokks Alþfl., hvort ég teldi sanngjarnt, að orðið yrði við þessari beiðni. Ég ræddi það í mínum flokki og við urðum á einu málí um, að það væri sanngjarnt að verða við beiðninni, og þess vegna berum við fyrir okkar leyti ábyrgð með hæstv. fjmrh. á því, að beiðninni var svarað játandi. Þetta vildi ég sagt hafa, til þess að ekkert færi á milli mála um þennan þátt í aðdraganda málsins. Hæstv. forsrh. hefur svo skýrt frá því, sem skeði varðandi þetta á þingi í vetur.

En síðustu orð mín skulu vera þau að viðurkenna, að hér er um vandamál að ræða, sem þarf að ræða ítarlegar og betur en gert hefur verið fram að þessu, sem þarf að taka fastari heildartökum en það hefur hingað til verið tekið. Ég er þeirrar skoðunar fyrir mitt leyti, og hygg að það sé yfirgnæfandi skoðun í mínum flokki, að styrkur til dagblaða og málgagna sérstakra þingflokka sé eðlilegur, en jafnframt eigi að taka til alvarlegrar athugunar, með hverjum hætti ríkið geti styrkt starfsemi stjórnmálaflokkanna svo sem nú er gert í velflestum nágrannalöndum.