15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í D-deild Alþingistíðinda. (3890)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við það, sem ég sagði hér áðan og það sem hæstv. fjmrh. sagði nú. Ég vil einungis ítreka það, sem glögglega hefur verið tekið fram og mér satt að segja blöskrar, að þm. skuli bera á móti, að þetta var auðvitað tekið upp sem jafnréttismál á milli flokka. Það hefur verið tekið þannig upp og meðhöndlað þannig allan tímann, og þeir menn; sem hafa farið með málið af hálfu Alþb. og Framsfl., hafa þá stórlega blekkt okkur hina, ef þetta hefur ekki vakað fyrir þeim. Það er bezt að segja það alveg eins og það er. Þeir hafa þá stórlega blekkt okkur hina. Við sjálfstæðismenn höfum ætíð verið mjög hikandi í stuðningi okkar við þetta mál, en fallizt á það, að eftir atvikum væri þetta sanngjarnt.

Ég vil ítreka, og leggja á það enn þá ríkari áherzlu en hæstv. fjmrh. gerði, að styrkir til flokka og blaða eru nú orðnir mjög tíðkaðir í flestum eða mörgum lýðræðisríkjunum í V.- Evrópu. En það er með ákaflega mismunandi hætti. Sums staðar fá flokkarnir beina styrki, sums staðar fá blöðin beina styrki og á öðrum stöðum eru blöðin styrkt verulega, þó að það sé kallað eitthvað annað. Þetta er ekkert einstakt hérlendis. En þó að við sjálfstæðismenn höfum fallizt á þetta, eins og ég segi, fyrir tilmæli allra hinna, vegna þess að við teljum þetta vera eitt af því, sem lýðræði nútímans í okkar heimshluta tilheyrir, þá er okkar efasemd fyrst og fremst komin til af því, að við teljum, að þetta form sé óæskilegt. Við teljum, að taka þurfi málið allt upp til gagngerðrar ákvörðunar og endurskoðunar, með hvaða hætti þetta sé gert. Og það er auðvitað alveg fjarstætt að segja, að þetta geti ekki verið styrkur til flokkanna, af því að það séu tvö blöð Sjálfstfl., sem þetta fái. Sannleikurinn er sá, að annars staðar, eins og hér hefur verið vitnað til, fá stærri flokkar meiri fyrirgreiðslu heldur en minni flokkar, og það væri auðvitað fráleitt að ætla Sjálfstfl. sams konar styrkveitingar í þessu skyni og minni flokkum eru ætlaðar. Það er annað mál þessu náskylt, sem hefur verið til meðferðar hér bak við tjöldin á þingi að undanförnu. Ég skal ekki fara að ræða það hér, en þar er einmitt gerður munur á milli flokka eftir stærð. Stærri flokkar eiga að fá meiri fyrirgreiðslu heldur en litlir flokkar. Út af fyrir sig er ég þeim ráðagerðum andvígur á þessu stigi, vegna þess að ég tel, að það þurfi að endurskoða allt þetta mál í heild og meta þá að vel athuguðu máli, hver munur eigi að verða á milli flokka, og menn geri sér ljóst, í hvaða skyni er verið að verja fénu. Það er, sannast að segja, ekkert annað en beinn orðaleikur, sem blöðin hafa, þegar þau láta sem þetta sé enginn styrkur. Við getum sagt: Þetta er ekki beinn styrkur, það er ekki beinn styrkur þarna. Það er rétt, en það er verið að stuðla þarna að jafnræði á milli flokka og jafnræðisskoðanamyndun í landinu. Til góðs eða ills hefur það verið gert, og það er alveg tvímælalaust, hvað sem fyrri heimildum líður, að aukningin, sem varð nú í samþykkt fjárlaga fyrir jólin, var veitt með þeirri yfirlýsingu af minni hálfu, að á hana væri því aðeins fallizt, að vitað væri, að greiðslan yrði til þessa nýja flokks eða nýja blaðs, eins og fjmrh. hefur gert grein fyrir. Þetta gat ekki farið fram hjá neinum, og ég trúi ekki öðru en að aðrir flokksformenn hafi sagt sínum flokkum frá því, og hlýtur mig þess vegna að undra, þegar menn láta eins og þetta komi þeim kynlega fyrir sjónir nú. Við vorum þá a.m.k. flestir sammála um, að þetta dygði ekki til frambúðar, og þess vegna var ákveðið að skipa viðræðunefnd. Hvort sem það er nú föst nefnd, óformleg nefnd eða hvernig á að telja hana eftir þeirri fsp., sem var hér áðan, þá urðu menn sammála um að skipa nefnd til þess að bera fram um þetta till., er menn gætu farið eftir í framtíðinni. Og við treystum því, að þær till. kæmu fram einhvern tíma á þessu ári, því að þetta er vandamál, sem menn verða að viðurkenna, að er fyrir hendi.

En ég legg áherzlu á, að eftir sögu málsins þá er ómögulegt að villast um það, að hér er um að ræða fyrirgreiðslu, hvernig sem menn vilja orða hana, sem er byggð á flokksgrundvelli upphaflega. Það er samið á milli flokka og talsmanna flokka um málið, og það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að ef á að fara að styrkja flokka, þá hlýtur það að einhverju leyti, — að hve miklu leyti má deila um, — að koma þannig niður, að fleiri kjósendur fái meiri fyrirgreiðslu en fáir kjósendur.