22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í D-deild Alþingistíðinda. (3904)

926. mál, niðurlagningarverksmiðja ríkisins

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þannig orðaða fsp.: „Hvað líður undirbúningi þess, að niðurlagningarverksmiðja ríkisins á Siglufirði verði sett undir sérstaka stjórn með nýrri löggjöf um verksmiðjuna?“

Eins og kunnugt er, þá var til þess ætlazt í upphafi, að þessi verksmiðja yrði starfrækt sem sérstakt fyrirtæki með sérstakri stjórn, en síðan var því breytt, og stjórn þessa fyrirtækis var falin stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Nú er orðið um svo umsvifamikið fyrirtæki að ræða í þessum efnum, að ég hygg, að það þyki orðið sjálfsagt, að þarna verði um sérstaka stjórn og alveg sjálfstæðan rekstur að ræða, og af þessum ástæðum hef ég óskað eftir því að fá upplýsingar um málið í samræmi við þessa fsp.