22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í D-deild Alþingistíðinda. (3905)

926. mál, niðurlagningarverksmiðja ríkisins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Í stuttu máli hef ég þetta svar við þessari fsp.: Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins kom á minn fund um miðjan janúar s.l. Var þá allt komið í óefni um málefni niðursuðuverksmiðju ríkisins og var leitað eftir háum fjárhæðum, til þess að hægt væri að afla verksmiðjunni hráefnis til úrvinnslu á þessu ári. En fleira var að. Mikil óvissa ríkti um sölumöguleika á erlendum markaði. Enn fremur varð mér strax ljóst, að skipulag fyrirtækisins var með annarlegum hætti. Þetta var í fyrsta skipti, sem málefni þessa fyrirtækis hafði rekið á fjörur iðnrn., en samkv. hinni nýju reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sem gefin var út um áramót, heyra niðursuða og niðurlagning sjávarafurða undir iðnrn. Fram úr vandkvæðum þessa fyrirtækis, hvað fjáröflun snertir, tókst að ráða að þessu sinni. Um þetta var síldarniðursuðuverksmiðjunni skrifað eftirfarandi af hálfu iðnrn. þann 30. jan. s.l.:

Ríkisstj. hefur á fundi í dag ákveðið eftirfarandi:

1. Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins verði lánuð úr ríkissjóði fjárupphæð, sem nægir til þess að festa kaup á 3000 tunnum kryddsíldar hjá síldarútvegsnefnd, sbr. bréf stjórnar síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins til nefndarinnar, dags. 20. jan. s.l., og bréf síldarútvegsnefndar til niðursuðuverksmiðjunnar, dags. 21. jan. s.l. Ráðgert er, að lánið þurfi að nema um 4 millj. kr. Lánið endurgreiðist á þessu ári.

2. Ríkisstj. mun láta semja frv. til nýrra laga um síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins, sem hafi þann tilgang að skapa fyrirtækinu viðunandi fjárhagsgrundvöll miðað við hagkvæman rekstur. Ráðgert er að leggja slíkt frv. fyrir Alþ., sem nú situr.

3. Ákvörðun um niðurlagningu síldar úr umræddum 3000 tunnum bíði þessara aðgerða eða a.m.k. þar til endanlega fæst úr því skorið, hvert gæti orðið söluverð á afurðum verksmiðjunnar til Sovétríkjanna eða á aðra erlenda markaði. Þetta tilkynnist yður hér með.“

Jafnframt var síldarútvegsnefnd ritað svo hljóðandi bréf:

„Ráðuneytið hefur í dag ritað síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins bréf það, sem hér með fylgir í ljósriti, með ákvörðun ríkisstj. í dag um 4 millj. kr. lán til kaupa á 3000 tunnum kryddsíldar, sem staðið hafa til boða hjá síldarútvegsnefnd. Hefur ríkisstj. viljað tryggja, að umrætt magn kryddsíldar gæti orðið hagnýtt til vinnslu innanlands.“

Síðar lánaðist að semja um hækkað verð á meginhluta framleiðslu verksmiðjunnar við fulltrúa Sovétríkjanna. Iðnrh. fól ráðuneytisstjóra sínum, Árna Snævarr, Herði Sigurgestssyni, rekstrarhagfræðingi í fjmrn., og Hirti Torfasyni hrl. þann 17. febr. að undirbúa nýja löggjöf um fjárhagslega uppbyggingu síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins á Siglufirði miðað við það, að hún verði rekin sem sjálfstætt fyrirtæki á hagkvæmum grundvelli. Unnið hefur verið að þessu verkefni af framangreindum aðilum, sem haft hafa samráð við stjórnendur fyrirtækisins. Ráðh. hefur rætt málið við bæjarstjóra Siglufjarðarkaupstaðar, Stefán Friðbjarnarson, varðandi þýðingu fyrirtækisins fyrir atvinnulíf á Siglufirði. Enn fremur hefur það verið áform ráðh., þegar lengra væri komið tillögugerð um fjárhagslega uppbyggingu fyrirtækisins og samningu frv. til nýrra laga á grundvelli þeirra, að kalla til bæði formann stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, Svein Benediktsson, og bæjarstjórann á Siglufirði, áður en málið yrði lagt fyrir ríkisstj. til endanlegrar ákvörðunar.

Ráðgert hafði verið samkvæmt bréfi iðnrn., sem áður er til vitnað, að hægt yrði að leggja frv. til nýrra laga fyrir Alþ. það, er nú situr. Það hefur ekki reynzt fyrst, fyrst og fremst vegna þess, að fljótt kom í ljós, að öllu máli skipti að ganga vandlega frá hinni fjárhagslegu uppbyggingu, áður en ný lög yrðu samþ. eða frv. að þeim samið, en lögin, sem nú gilda um þetta fyrirtæki, eru því miður næsta fábrotin. Ákvörðun ríkisstj. um endurskipulagningu fyrirtækisins, eins og að framan greinir, verður að sjálfsögðu framfylgt, og frv. til nýrra laga um síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins á Siglufirði verður lagt fyrir Alþ. strax og það kemur saman að nýju næsta haust.

Samkvæmt þessu hefur megináherzla verið lögð á hina fjárhagslegu uppbyggingu, áður en endanlega verði gengið frá frv., en dráttur frá því, sem ráðgert hafði verið, að hægt yrði að leggja frv. fyrir þetta þing, hefur engin áhrif á rekstur fyrirtækisins, sem nú vinnur af fullum krafti úr því hráefni, sem tókst að tryggja því með framangreindum ráðstöfunum.