08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í D-deild Alþingistíðinda. (3909)

201. mál, nefndir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er nú rétt, eins og hæstv. forsrh. vakti athygli á, að fyrirspyrjandi er ekki viðstaddur, og ef hæstv. forseta þykir einhver vafi leika á í þessu efni, þá tel ég eðlilegt, að ákvörðun um það verði frestað, þangað til fyrirspyrjandi er við. Ég get þó ekki fallizt á það sjónarmið, sem hæstv. forsrh. setti fram. Ég er nú að vísu ekki með í höndunum þetta þingskapaákvæði, sem hann vitnaði til. Ég veit það að vísu, að fsp. eiga að vera um einstök atriði og þannig úr garði gerðar, að þeim megi svara í stuttu máli. En það er nú svo, að þegar á þetta er lítið, þá má ekki einungis líta á bókstafinn, heldur verður að hyggja að því, hver framkvæmdin hefur verið, og ég er ákaflega hræddur um það, að þessu ákvæði hafi ekki alltaf verið fylgt bókstaflega hér á Alþ. Ég er mjög hræddur um það, að fsp. hafi stundum verið þannig úr garði gerðar, að það hefði verið erfitt að koma þeim undir þetta ákvæði í strangasta skilningi, enda er það öllum þm. kunnugt, að það hefur farið æðimikill tími, bæði á þessu þingi og á undanförnum þingum, í að ræða fsp. Að vísu hafa ráðh. ekki gefið út bækur um fsp., svo að mér sé kunnugt um, en þær hafa verið nokkuð langar grg., sem hæstv. ráðh. hafa stundum komið með til svars á fsp.

En ég get nú ekki fallizt á það, að í þessari fsp. sé ekki spurt um einstök atriði. Ég tel einmitt, að þarna sé spurt um alveg glöggt afmörkuð atriði. Það eina, sem mér sýnist að mætti kannske finna þessari fsp. til foráttu, er það, að í fyrstu línu hennar er spurt um það, hvaða nefndir séu kosnar af Alþ. Ég get alveg fallizt á það, að óþarfi sé að spyrja um það, af því að það eigi að vera þm. tiltækt. En í annan stað er spurt um það, hvaða nefndir eða ráð séu skipuð af ráðh. Það er ekki verið að spyrja um allar nefndir eða ráð hér á landi. Það er bara verið að spyrja um nefndir og ráð, sem skipuð eru af ráðh. Mér er það lítt skiljanlegt, ef það eru ekki fyrir hendi í hverju rn. fyrir sig glöggar og tiltækar upplýsingar um það, hvaða nefndir og ráð hafa verið skipuð af því rn. Ég fæ bara ekki skilið, að rn. hvert um sig hafi ekki yfirlit um það efni, og ég verð að segja, að ef svo er ekki, þá er vissulega pottur brotinn í þessu efni. Slíkt fær náttúrulega varla staðizt, að þessi mál séu í því ástandi, að ráðh. og rn. hafi ekki glöggt yfirlit yfir það, hvert einstakt rn., hvaða nefndir eða ráð eru skipuð af þeim sjálfum og starfa undir yfirumsjón þess rn. Og þetta eru alveg ákveðin atriði.

Það eru, eins og hæstv. forsrh. vék að, ekki ýkja mörg ár síðan gefin var út bók, Ríkishandbók Íslands, þar sem er nú að finna svona tiltölulega góðar upplýsingar um þetta efni. Og ég býst við, að það ætti ekki að vera óvinnandi vegur að fara yfir þau ár, sem síðan eru liðin, og bæta því við, sem bætzt hefur við af nefndum á þessum tíma. Það er enn fremur óskað upplýsinga um það, hverjar nefndir eru fastanefndir. Ég skal ekki segja um það, hvort það er svo auðveld skilgreining á því, hverjar eru fastar nefndir og hverjar ekki. Það yrði þá væntanlega að koma fram í svari. Það getur vel verið, að það sé ekki alveg hægt að segja til um það með vissu, hvaða nefndir eigi að flokkast undir það að teljast fastanefndir.

Þá er spurt, hversu fjölmennar nefndirnar séu. Ég skildi fsp. svo, að spurt væri um tölu manna í þessum nefndum og það er einföld samlagning. Það er ekki verið að spyrja um það, hvaða menn séu í þessum nefndum. Það er ekki meiningin, að það sé farið að telja hér upp neina nafnarunu eða svo skil ég það. En náttúrlega er fyrirspyrjandi færari um að útskýra fsp. heldur en ég.

Svo er spurt, hvert sé verkefni þeirra. Ja, ég verð nú að segja, að mér finnst það dálítið hjákátlegt, ef nefndir eru skipaðar af ráðh., án þess að það liggi nokkuð ljóst fyrir hjá þeim hæstv. ráðh., sem nefndirnar skipa, hvert á að vera verkefni þeirra. Ég held, að það hljóti að vera mjög auðvelt að svara þessu atriði.

Hver er þóknun nefndarmanna og annar kostnaður við nefndastörfin? Ég held, að það hljóti að vera ákaflega greiður aðgangur að upplýsingum um þetta í ríkisbókhaldi, sem ég veit, að er mjög vel úr garði gert. Og reyndar veit ég ekki betur en þeim starfsháttum sé fylgt í rn., að allar útborganir séu áskrifaðar í hverju rn. fyrir sig. Þess vegna á það að vera alveg bókfært hjá hverju rn., hvað greitt er út undir þeim liðum, sem undir það rn. heyra.

Án þess að ég ætli að fara að hefja deilur um það, hvort þessi fsp. sé leyfð eða ekki, þá verð ég sem sagt að láta í ljós, að ég er nú hálfhissa á þeim aths., sem hæstv. forsrh. gerði af þessu tilefni. Nú skildi ég hann ekki svo, að hann væri að mótmæla fsp., heldur vildi aðeins, að þetta væri hugleitt og skaut því til forseta. Hann fann að því eða benti á það, hæstv. forsrh., að þessari fsp. væri beint til ríkisstj. en ekki einstaks ráðh. Nú er það reyndar alls ekki ótítt, að ég held, að sá háttur sé hafður á hér, að fsp. sé beint til ríkisstj., en ekki einstakra ráðh. Síðan eru það svo einstakir ráðh., sem svara. Sannleikurinn er sá, að a.m.k. í hinu eldra lagamáli er æðioft talað um ríkisstj., þó að ljóslega sé átt við einstaka ráðh. En hvað um það. Það er a.m.k. öruggt og má skilja það þannig, að þegar fsp. er beint til ríkisstj., sem varðar meira en eitt rn., þá er það hæstv. forsrh., sem á að svara, af því að hann fer með málefni, sem varða ríkisstj. í heild. Þess vegna mundi ég telja það eðlilegt, að hæstv. forsrh. safnaði saman upplýsingum um þetta efni frá hinum einstöku rn. og hann gæfi skýrsluna um þetta. Ég get sem sagt alls ekki skilið, og ég held, að það hljóti að vera of mikið gert úr því hjá hæstv. forsrh., að þetta sé svo viðamikið verk að ná þessum upplýsingum saman, það geti bara ekki verið. En þetta finnst mér hins vegar vera þess eðlis, að það sé alls ekkert óeðlilegt, að þm. óski eftir að fá skil á þessu efni.

Hæstv. forsrh. stakk hálfpartinn upp á því, að það væri skipuð ein nefnd til viðbótar til þess að kanna þetta verkefni. Ekki skal ég hafa á móti því, en ég á sem sagt bágt með að trúa því, að þetta sé nú svo erfitt verkefni. Mér liggur næstum því við að halda, að hæstv. forsrh. hafi lesið eitthvað annað út úr fsp. en ég hef lesið út úr henni. Eftir því sem ég les hana og skil, þá sýnist mér þetta vera bara afar einföld fsp. og sízt viðameiri en fjöldamargar fsp., sem hér hafa verið bornar fram og svarað. En ég viðurkenni, að það hefur verið farið of langt í þessu efni, og ég viðurkenni, að það er orðin, ég vil segja, nokkur misnotkun á fyrirspurnaréttinum. Ég viðurkenni það. En ég viðurkenni það alls ekki, að þessi fsp. fari nokkuð lengra en mjög er venjulegt hér á Alþingi.

En sem sagt, ef hæstv. forseti er í vafa um þetta efni, þá fellst ég að sjálfsögðu á það, og mér þykir ekkert óeðlilegt, að þetta sé látið bíða, þangað til fyrirspyrjandi er viðstaddur.