08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í D-deild Alþingistíðinda. (3913)

201. mál, nefndir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. Ég kom hérna upp til þess að láta í ljós mína stórkostlegu undrun yfir yfirlýsingu fjmrh., vegna þess að mér fannst hún engan veginn þingleg, þar sem hann lýsir því yfir, að ef Alþ. samþykkti þetta, þá mundi þessu alls ekki verða svarað á þessu þingi. Það verður auðvitað að ráðast — (Gripið fram í.) Væri ekki hægt, já. Ég bara efast um það, að hæstv. fjmrh. sé þess umkominn að segja til um það, hvort það sé hægt eða ekki, og ég vil taka gildari orð hæstv. forsrh. fyrir því, enda álit ég, að þetta heyri frekar undir hæstv. forsrh. en hæstv. fjmrh. Það getur verið alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að í einstaka tilfelli getur verið erfitt að segja til um það, hvort um nefnd er að ræða eða ekki, en ekki hélt ég, að það væri svo óskaplegt vandaverk.

Almenna skilgreiningin er nú, að nefnd sé og verði að vera fjölskipað stjórnvald, þannig að það verður þó aldrei nefnd, skilst mér, sem í er einn maður. Og hvort um fastanefnd sé að ræða eða ekki, þá er það eins og ég sagði áðan, það getur vissulega orkað tvímælis. Þá er bara að svara því til, — og það hefur vissulega oft komið fyrir, að fsp. hefur verið svarað á þá lund, — að það hafi ekki verið hægt að gefa alveg fullkomlega tæmandi upplýsingar um það atriði, og ekkert er við því að segja. En ég hefði satt að segja getað haldið það, að þessi fsp. hefði getað farið þannig í gegn, að þegar að því hefði komið, að henni hefði verið svarað, þá væri komið fram með þessar aths., sem hæstv. forsrh, hefur gert, að ráðh. teldi það ekki í sínum verkahring að gefa upplýsingar um þær nefndir, sem Alþ. hefði kosið, og látið það þá kyrrt liggja með þær. Hins vegar er það auðvitað mjög auðvelt að fá upplýsingar um það, hvaða nefndir Alþ. hefur kosið, og rn. þarf náttúrlega ekki nema að snúa sér til skrifstofu Alþingis og fá þar upplýsingar. Ég fellst út af fyrir sig á það hjá hæstv. forsrh., að segja má, að það sé ekki ástæða til að spyrja um það atriði, vegna þess að hver þm. á út af fyrir sig að geta farið hér á skrifstofuna og fengið upplýsingar um það.

Ég skal ekki lengja þessar umræður meira, en ég vildi bara láta í ljósi alveg sérstaka undrun yfir þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh.

Á 45. fundi í Sþ., 15. apríl, var fsp. aftur tekin til meðferðar, hvort leyfð skyldi.