22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í D-deild Alþingistíðinda. (3920)

201. mál, nefndir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég benti á það, þegar það var til ákvörðunar í hinu háa Alþingi, hvort þessa fsp. skyldi leyfa, að á því væru nokkrir annmarkar samkvæmt ákvæðum þingskapa og raunar erfitt að svara henni, a.m.k. í fljótu bragði, svo að viðhlítandi væri, enda væri málið svo umfangsmikið, að það tilheyrði raunar frekar stjórnarfarsrétti heldur en skýringum eða svari við fsp. að veita full svör. Hv. fyrirspyrjandi taldi ekki ástæðu til að verða við bendingum um að breyta fsp., og var hún þá leyfð, vegna þess að engin ástæða er til launungar á neinu af því, sem hér er spurzt fyrir um. Hins vegar verð ég vegna þess, hvernig fsp. er í eðli, að taka það fram, að ekki er hægt að svara henni nema að nokkru leyti.

Eins og fram kemur í sjálfri fsp., greinast nefndir í tvennt eftir því, hvort þær eru kosnar eða skipaðar af Alþ. eða ríkisstj., og í raun og veru eru þær nefndir, sem skipaðar eru af ríkisstj., sumar formlega, einnig margar eftir fyrirmælum Alþingis, skipaðar ýmist samkvæmt löggjöf eða samkvæmt þál. Og það er eðli málsins samkvæmt út í hött að ætlast til þess, að ríkisstj. fari að gera Alþ. grein fyrir þeim nefndum, sem það sjálft hefur ýmist lögboðið eða skorað á ríkisstj. að skipa. Hv. fyrirspyrjandi benti raunar á, að upplýsingar um þetta væri hægt að fá í Ríkishandbók svo kallaðri. Það kann að vera að einhverju leyti, en þá er það jafnauðvelt fyrir þm. eins og fyrir ríkisstj. En ég hef þó látið taka saman til yfirlits, hversu margar nefndir mundu vera, sem ýmist eru lögákveðnar eða kosnar eða skipaðar samkvæmt þál. Og mér skilst í fljótu bragði, að það muni vera um 708 nefndir. Þessar nefndir eru mjög ólíkar að eðli, og þá eru þær taldar, þar sem ríkisstj. eða Alþ. kýs nefndina annaðhvort að öllu eða einhverju leyti. Verkefni nefndanna er ákaflega misjafnt og eins það, hver greiðir kostnað af þeim, svo að það er ekki nokkur leið hér að ætla að fara að gera grein fyrir öllum þessum 708 nefndum, og því fer fjarri, að þær séu yfirleitt samkvæmt löggjöf frá allra síðustu árum. Það er mjög mismunandi þeirra aldur og þeirra verkefni og eins og ég segi tilheyrir frekar stjórnarfarsrétti heldur en það sé eðli málsins samkv. hægt að rekja það hér.

Ég vil einungis til þess að sýna, hversu málið er í raun og veru misjafnt eða ólíkt að formi, segja, að þær nefndir, sem ætti að svara fyrir af forsrn., væru 26. Þar af er nú 21 fastanefnd Alþingis, sem er spurt um í þessari fsp., sem er auðvitað fráleitt fyrir ríkisstj. að fara að gera Alþ. grein fyrir, en fsp. fjallar um þetta. Hinar nefndirnar, sem ætlazt er til samkv. fsp., að forsrn. geri grein fyrir, eru: Þingvallanefnd, sem er kosin samkvæmt sérstökum lögum frá 1928, kosin á Alþingi. Hrafnseyrarnefnd, sem kosin er samkvæmt þál. frá 1945. Þjóðhátíðarnefnd 1974, sem kjörin er á Alþ. 1966, samkvæmt þál. þá. Stjórn Efnahagsstofnunarinnar, sem sett er samkvæmt lögum frá 1966, og ríkisstj. skipar eftir atvikum, eftir því, hvernig á er litið, einn eða tvo af nefndarmönnum. Kjararannsóknarnefnd, sem ekki hefur beina lögfestingu, en er gert ráð fyrir í lögum að sé til, og forsrn. á að úrskurða hennar reikninga, en sjálf er nefndin efnislega skipuð af Alþýðusambandinu annars vegar og samtökum vinnuveitenda hins vegar. Þá er orðunefnd, sem er samkvæmt forsetabréfi frá 1944, en gert er ráð fyrir í fjárlögum að sé til, þó að forsetabréfið sé hin beina heimild. Enn fremur er svo heiðursmerkjanefnd Rauða kross Íslands og afreksmerkisnefnd. Þetta eru þær nefndir, sem heyra sérstaklega undir forsrn. Hvort menn langar til þess að fá nákvæmlega upplesið, hve margir eru í þessum nefndum, hvernig þær séu skipaðar og kostnað af þeim, — en ég tel, að menn séu ósköp lítið bættari, og nenni ekki að fara að — (Gripið fram í.) Ja, það er spurt um það, en það mundi, eins og ég segi, taka nokkuð langan tíma, ef ætti að svara þessu öllu. Það er efni í bók, sem ég treysti vel prófessor Ólafi Jóhannessyni til þess að skrifa frekar en grg. minni hér á Alþ. að rifja þetta upp. Ég veit ekki heldur, hvort ég er eðlilegasti maðurinn til þess að gera grein fyrir kostnaði við utanrmn. eða fjvn. Alþingis. Fjvn. Alþingis heldur fagnað einu sinni á ári, hún fer í ferðalag o.s.frv. Ef ástæða þykir til þess að upplýsa það hér á Alþ., þá er miklu betra að spyrja formann fjvn. eða forseta þingsins, en ekki vesaling minn, sem þetta er ekki undir borið og fæ ekki einu sinni að vera í þessum veizlum, hvað þá heldur meira.

Um forsrn. er annars það að segja, að þá að þessar 26 nefndir að þessu leyti heyri undir rn., ekki nema að nafninu til, t.d. þingnefndir, og ekki þá einu sinni að nafninu til, þó að forsrn. eigi að fjalla um mál Alþingis, þá er engin nefnd skipuð af rn. að þess eigin hvötum nú starfandi.

Aftur á móti eru af dóms- og kirkjumrn. sams konar nefndir skipaðar samkvæmt lögum eða þál., telst okkur til 24. Það eru aftur á móti einnig nokkrar nefndir, sem rn. hefur sjálft skipað og sjálfsagt er að gera hér grein fyrir. Það er þá fyrst byggingarnefnd lögreglustöðvar í Reykjavík, skipuð þrem mönnum, og formaður sýnist hafa þar í laun í kringum 13 500 kr. á ári, eða nákvæmlega 13 335 kr. Byggingarnefnd ríkisfangelsis skipuð þrem mönnum, þóknun á ári til hvers sýnist vera 10 þús. kr. Hegningarlaganefnd, skipuð þrem mönnum, skipuð af ráðh. til að vinna að endurskoðun hegningarlaga. Engin þóknun greidd síðustu árin. Nefnd til endurskoðunar á skipan og meðferð dómsmála, skipuð af ráðh. 1966 með átta mönnum. Engin þóknun greidd enn. Rannsóknarnefnd umferðarslysa, skipuð af ráðh: 1963 til að rannsaka orsakir umferðarslysa og gera till. um ráðstafanir til úrbóta, skipuð sjö mönnum. Þóknun hefur enn ekki verið greidd. Sálmabókarnefnd skipuð 1962 til að vinna að endurskoðun sálmabókar, nefndarmenn upphaflega fimm. Engin þóknun greidd síðan 1967. Sifjalaganefnd, skipuð tveim mönnum, vinnur að endurskoðun hjúskaparlaga og laga um réttindi og skyldur hjóna. Engin þóknun greidd enn. Starfsnefnd um meðferð og neyzlu ávana- og fíkniefna og eftirsókn í þau. Þessi hópur er kallaður saman af ráðh. með bréfi 26. febr. 1970, í honum eru fimm menn, og þeir eru embættismenn, sem enga greiðslu hafa fengið a.m.k. enn og mér sýnist ekki ætlazt til. Umferðarlaganefnd, hlutverk nefndarinnar, sem skipuð er fimm mönnum, er endurskoðun umferðarlaga og reglna um umferðarmál. Árið 1969 fékk formaður 13 012 kr. greiddar, aðrir nefndarmenn 8 674 kr. hver. Þetta eru þær nefndir, sem starfa á vegum dóms- og kirkjumrn.

Á vegum félmrn. sýnast starfa níu nefndir lögskipaðar eða samkvæmt þáltill., en aðrar nefndir, sem rn. sjálft hefur skipað, eru: Nefnd um rannsókn á tekjustofnum sveitarfélaga með þrem mönnum. Engin þóknun ákveðin. Atvinnuleyfanefnd vegna útlendinga, skipuð þrem mönnum. Þar var á árinu 1969 greitt í þóknun 33 054 kr. Velferðarnefnd aldraðra, skipuð 1966, og nefndarmenn hafa fengið 45 þús. kr. upp í þóknun. Nefnd til endurskoðunar laga nr. 16 1958 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests o.fl. Þóknun ekki ákveðin. Skipuð þrem mönnum. Framkvæmdanefnd hagræðingaráætlunar fjallar um aðstoð ríkisins í hagræðingarmálum, skipuð 1965, þrír menn eins og ég sagði, þóknun er 30 þús. kr. á ári, en kostnaður á s.l. ári sýnist mér hafa verið þar fyrir utan kr. 40 871,50. Nefnd til að gera till. um úthlutun íbúða ríkisins í Breiðholti, skipuð þrem mönnum. Þóknun 1969 var 18 þús. kr. Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar ríkisins og Reykjavíkurborgar með fimm mönnum. Laun 1969 voru 280 500 kr. Þá eru framkvæmdanefndir byggingaráætlunar ríkisins og níu sveitarfélaga, fimm í hverri, en þóknun ekki ákveðin a.m.k. enn. Ef sú breyting verður gerð á skipan þessara mála, sem nú eru till. um, þá eru þessar nefndir úr sögunni. Þá er nefnd til endurskoðunar laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlun, skipuð í febrúar 1969 og greitt upp í þóknun 90 þús. kr. Nefnd til að endurskoða lög um orlof með þrem mönnum. Þóknun ekki ákveðin. Nefnd til að endurskoða lög um sameign fjölbýlishúsa með tveimur mönnum og þóknun ekki ákveðin. Þetta eru þær nefndir, sem heyra undir félmrn.

Undir fjmrn. teljast heyra 16 nefndir lögskipaðar eða settar samkvæmt þál. En þar fyrir utan hafa verið skipaðar samkvæmt ákvörðun ráðh.: Bíla- og vélanefnd með fimm mönnum. Þóknun til aðalmanna 54 þús. kr. á mann, en 27 þús. kr. til ritara og varamanns. Bókhaldsnefnd með þrem mönnum og óráðin þóknun. Hússtjórn Borgartúns 7 með þrem mönnum. Þóknun 20 þús. kr. á ári. Nefnd um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og endurskoðun gildandi laga um það efni með fimm mönnum og þóknun óráðin. Nefnd um skattlagningu fyrirtækja, vinnur að endurskoðun skattalaga, með fimm mönnum. Þóknun óráðin. Prófnefnd ritara, sem sér um próf ritara, sem sækja um að hækka úr 7. í 10. launaflokk, einnig umsjón með þeim riturum, sem settir eru í 13. flokk. Það eru þrír menn, og hefur formaður í árslaun 12 þús. kr., en hinir 10 þús. kr. hver. Samstarfsnefnd BSRB og fjmrn. um kjaramál með fjórum mönnum. Árslaun formanns eru 15 þús., en aðrir hafa 10 þús. Trúnaðarmenn um nefndarlaun og ýmsar þóknanir eru tveir. Þóknun óákveðin, en var 1968 36 þús. á mann. Og svo er úrskurðarnefnd um tollaendurgreiðslur vegna EFTA-aðildar. Það eru þrír menn og þóknun óráðin. Þá er fulltrúi í stjórn Gjaldheimtunnar í Reykjavík, og þóknun fulltrúa ríkisins þar er 23 þús. kr., sem greiðist af Gjaldheimtunni. Stjórn skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar, það eru tveir menn og mánaðarlaun á mann eru 1967 kr. Þetta eru þær nefndir, sem má segja, að tilheyri fjmrn.

Þá er næst heilbr.- og trmrn. Þar eru lögboðnar nefndir eða byggðar á þál. samtals 344, en aðrar nefndir eru: Byggingarnefnd Landsspítalans með sex mönnum og fékk í laun 1969 137 500 kr. samtals. Byggingarnefnd Kópavogshælis með fjórum mönnum, fékk í laun 1970 58 940 kr. Samvinnunefnd um skipulagningu sjúkrahúsmála í Reykjavík með fjórum mönnum, ólaunuð. Nefnd til að endurskoða lög um fóstureyðingar, afkynjanir og vananir. Þóknun ekki ákveðin. Nefnd til að endurskoða lög um vátryggingarstarfsemi með þremur mönnum. Þóknun ekki ákveðin.

Því næst er iðnrn. Þar sýnast vera 12 nefndir, sem eru samkv. lögum eða þál., en þar fyrir utan hefur rn. skipað: Nefnd til þess að rannsaka, hvort hagkvæmt væri að reisa og reka hér hveitimyllu, og eru nefndarmenn fjórir. Greiðslur hafa ekki átt sér stað til nefndarinnar, en kynnu að verða metnar síðar af þar til skipuðum matsmönnum fjmrn. Nefnd til að gera till. um eflingu verkkennslu iðnverkafólks og stofna til endurhæfingarstarfsemi og þjálfunar þess eða íhuga sjóðmyndun til að tryggja bætur því iðnverkafólki, sem sagt er upp starfi, án þess að það sé vegna tilverknaðar þess sjálfs. Nefndarmenn eru fimm. Engar greiðslur hafa átt sér stað til nefndarinnar, en verða metnar síðar af þar til skipuðum matsmönnum fjmrn: Nefnd til að endurskoða námulög frá 1909 með þrem mönnum. Nefndin hefur nýlega hafið starfsemi sína og ekkert fengið greitt. Námskeiðastjórn, sem veita skal forstöðu föstu námskeiðahaldi í stjórnun fyrirtækja, er fram fer á vegum rn. Þar eru þrír menn. Hér er um að ræða vinnunefnd framkvæmda, eins konar skólastjórn að víssu leyti, hliðstætt stjórn verzlunarnámskeiðanna, en tímabundið starf, að því er ætlað er. Iðnþróunarráð, sem má segja, að sé fastanefnd til þess að vera iðnrn. til styrktar um meðferð meiri háttar mála, er snerta iðnþróun landsins. Þar sýnast ráðsmenn vera 13 samtals, árlegur kostnaður um 200 þús. kr. En ráðgert er að flytja frv. til l. um iðnþróunarráð, áður en langt um líður. Samstarfsnefnd varðandi útflutning neyzluvarnings úr íslenzkum hráefnum með íslenzkum sérkennum, og eru nefndarmenn þar sex. Engar greiðslur hafa verið inntar af hendi til þessarar nefndar. Samstarfsnefnd varðandi iðnað, er sérstaklega þjónar sjávarútvegi, skipuð 1969, fimm nefndarmenn. Engar greiðslur hafa verið inntar af hendi til samstarfsnefndarinnar. Nefnd til þess að stuðla að útflutningi á bátum og skipum smíðuðum á Íslandi. Þar eru þrír nefndarmenn. Greiðslur hafa engar átt sér stað til nefndarinnar, en verða metnar síðar af þar til skipuðum matsmönnum fjmrn. Þetta er um iðnrn. að segja.

Landbrn. Þar sýnast vera sjö nefndir lögboðnar eða samkv. þál., en samkv. ákvörðun ráðh. eru: Stjórn laxeldisstöðvar ríkisins í Kollafirði með fimm mönnum, og fær hver nefndarmaður í ár 13 020 kr. greiddar fyrir sitt starf. Byggingarnefnd bændaskóla á Hvanneyri með tveim mönnum og sýnast munu fá 10 850 hvor í ár. Nefnd til þess að endurskoða lög nr. 74 1962, um innflutning búfjár, með þremur mönnum. Þóknun hefur ekki verið greidd. Nefnd til þess að athuga ýmsa þætti landbúnaðarmála með sjö mönnum. Þóknun hefur ekki verið greidd. Nefnd til þess að semja frv. til 1. um lífeyrissjóð fyrir bændur með fimm mönnum. Þóknun hefur ekki verið greidd. Kalnefnd með sjö mönnum. Þóknun hefur ekki verið greidd. Nefnd til að endurskoða lög um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám o.fl. með fimm mönnum. Þóknun hefur ekki verið greidd. Harðærisnefnd með þremur mönnum. Laun nefndarmanna eru óuppgerð. Þetta er um landbrn. að segja.

Af menntmrn, eru lögskipaðar nefndir eða settar samkv. þál., ýmist skipaðar allar eða með aðild rn. að meira eða minna leyti, — þær eru 240. En þær nefndir, sem rn. hefur sett án slíkrar tilhlutunar, eru: Byggingarnefnd Heyrnleysingjaskólans með þremur mönnum. Þóknun óákveðin. Byggingarnefnd iðnskólans í Reykjavík með fimm mönnum. Nefndin er ólaunuð. Byggingarnefnd kennaraskólahúss með fimm mönnum og hefur ekki fengið laun hin síðari ár a.m.k. Byggingarnefnd til að annast byggingu kennslustofuhúsnæðis fyrir menntaskólann á Akureyri með tveimur mönnum, og er ekkert tekið fram um greiðslur til þeirra. Byggingarnefnd menntaskólans í Reykjavík, skipuð þremur mönnum. Laun greiðast fyrir nefndarstörf 450 kr. á fund. Byggingarnefnd náttúrugripasafnshúss með sex mönnum. Nefndin hefur verið ólaunuð. Byggingarnefnd Æfinga- og tilraunaskóla kennaraskólans með sjö mönnum, og er ekkert tekið fram um greiðslur þar. Endurmenntunarnefnd með fimm mönnum og þóknun óákveðin. Hún er skipuð til þess að gera áætlun um endurmenntun kennara á barna- og gagnfræðastigi. Framhaldsdeildanefnd skipuð af menntmrn. til þess að gera till. um réttindi nemenda í framhaldsdeildum gagnfræðaskóla til inngöngu í aðra skóla. Það eru fjórir menn og ekki tekið fram um neina þóknun. Geysisnefnd, skipuð 1953, sex menn og nefndin er ólaunuð. Kennaraskólalaganefnd til þess að endurskoða löggjöfina um Kennaraskóla Íslands og gera nýskipan kennaranámsins. Þóknun til nefndarinnar er óákveðin. Menntaskólanefnd til þess að endurskoða gildandi laga- og reglugerðaákvæði um menntaskóla með sjö mönnum. Nefndin skilaði áliti 1968, fékk greidda þóknun fyrir störf sín fram til þess tíma. Nefndinni hefur nú verið falið að semja reglugerð samkv. nýsamþykktum lögum um menntaskóla, og hefur engin greiðsla enn farið fram fyrir það starf. Menntaskólanefnd Ísafjarðar skipuð sjö mönnum. Þóknun óákveðin. Námsskrárnefnd til þess að endurskoða námsefni og stundaskrá frá fyrra ári í framhaldsdeildum gagnfræðaskólanna með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fæst í vetur, með þremur mönnum. Ekkert tekið fram um greiðslu. Nefnd, sem aðstoðar við vistun stúlkna á uppeldisheimilum erlendis. Það eru þrír menn og fær hver 5 þús. kr. á ári í þóknun. Nefnd skipuð til að endurskoða lög og reglugerð um þjóðleikhús, með þremur mönnum, þóknun er óákveðin. Nefnd til þess að gera till. um skipulagningu aukinnar fræðslu um þjóðernismál og kynningu þjóðernislegra verðmæta í skyldunámsskólum landsins, með fimm mönnum. Þóknun óákveðin. Nefnd til þess að endurskoða námsefni og kennslu í líffræði og náttúrufræði barnaskóla, með fimm mönnum. Þóknun óákveðin. Nefnd til þess að sjá um undirbúning 20. norræna skólamótsins, sem halda á í Stokkhólmi sumarið 1970, með fimm mönnum og svo fulltrúum nokkurra manna þar fyrir utan, mér sýnist 10 mönnum samtals, en það er ekki tekið neitt fram um þóknun. Nefnd skipuð til þess að endurskoða gildandi lög um skólakerfi og fræðsluskyldu, nr. 22 1946, lög um fræðslu barna, nr. 34 1946, og lög um gagnfræðanám, nr. 48 1946, á grundvelli athugunar, sem fram hefur farið í menntmrn. Það eru sex menn. Þóknun óákveðin. Nefnd til þess að semja drög að námsskrá í stærðfræði fyrir barnafræðslustig, og skal nefndin starfa í samráði við ráðgefandi nefnd um stærðfræði, sem vinnur á vegum skólarannsókna. Það eru fjórir menn. Þóknun óákveðin. Nefnd til þess að athuga starfsgrundvöll og fjármál Sinfóníuhljómsveitar Íslands og framtíðarskipulag hennar. Það eru fimm menn. Þóknun óákveðin. Nefnd til þess að fjalla um kennslu og fleiri málefni heyrnskertra barna í almennum skólum, með þremur mönnum. Ekkert tekið fram um þóknun þar. Nefnd til þess að annast aðild Íslands að Alþjóðasambandi jarðfræðinga. Það eru tveir menn og þóknun óákveðin. Nefnd til þess að ráðstafa eignum og sjá um endanleg reikningsskil Viðtækjaverzlunar ríkisins. Fjórir menn og ekkert tekið fram um greiðslu. Nefnd til að vera Efnahagsstofnuninni til ráðuneytis um áætlunargerð varðandi fjárfestingarþörf o.fl. á sviði menntamála. Það eru 12 menn og nefndin er ólaunuð. Nefnd til þess að vera menntmrn. og fjmrn. til aðstoðar við að ákveða, hvaða börn skuli teljast afbrigðileg í skilningi II. kafla 1. gr. E. 4 í dómi kjaradóms frá 3. júlí 1963 og II. kafla 1. gr. D. 3, 2. mgr. dóms kjaradóms frá 30. nóvember 1965. Það eru þrír menn og ekkert tekið fram um greiðslu. Samræmingarnefnd gagnfræðaprófs samkv. reglugerð nr. 2 1968 um samræmt gagnfræðapróf. Það eru níu manns, formaður hefur 21 þús. og aðrir í nefndinni 14 þús. og auk þess greiðsla samkv. reikningi fyrir úrvinnslu einstakra prófa, og það eru alls 133 þús. kr., sem hafa verið greiddar. Starfslaunanefnd til þess að annast úthlutun starfslauna handa listamönnum, þrír menn, formaður fær 12 þús. kr., aðrir 9 þús. kr. auk verðlagsuppbóta, alls 30 þús. kr. Stjórn hljómplötudeildar Þjóðminjasafnsins, þrír menn, og nefndin er ólaunuð. Stjórnarnefnd Listasafns Einars Jónssonar með fimm mönnum og ekkert tekið fram um greiðslur. Og tónlistarnefnd Þjóðleikhússins samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 163 1953 um breytingar á reglugerð nr. 162 1949, um þjóðleikhús. Það eru þrír menn og ekkert tekið fram um greiðslur, enda hefur manni skilizt, að ýmist hafi menn sagt af sér eða nefndin ekki starfað nokkuð lengi, eftir því sem annars staðar hefur komið fram. Þetta var um menntmrn. að segja.

Í samgrn. sýnast vera 10 nefndir, sem starfa samkv. lögum eða þál., en samkv. ákvörðun ráðh. eru: Byggingarnefnd strandferðaskips. Það eru sex menn. Mánaðarleg þóknun nefndarmanna, sem var ákveðin af trúnaðarmönnum fjmrn., er 3500 kr. til annarra en formanns, sem hefur 6 þús. kr. Póst- og símanefnd, þriggja manna nefnd, skipuð af ráðh. 14. janúar 1969 til að athuga rekstur og framkvæmdir Pósts og síma og fjármál stofnunarinnar. Engin þóknun hefur enn verið greidd. Gírónefnd, í nefndinni eru fjórir fulltrúar til að athuga mál eins og gíróþjónustu. Engin þóknun hefur enn verið greidd. Nefnd til að gera till. um framtíðaruppbyggingu ferðamálasjóðs, þrír fulltrúar. Engin þóknun hefur enn verið greidd. Nefnd til að gera áætlun um þörf fyrir hótelbyggingar til 1974 og till. um fjármögnun til þeirra framkvæmda. Í nefndinni eru fimm menn. Engin þóknun hefur enn verið greidd. Byggingarnefnd Straumsvíkurhafnar, sem skipuð var á sínum tíma til að fylgjast með fjáröflun, frágangi lánsskjala, byggingarreikningum og þess háttar. Í nefndinni eru þrír fulltrúar. Þóknun nefndarinnar hefur verið 3 þús. kr. á mánuði til hvers. Þá er úthlutunarnefnd atvinnuleyfa fyrir leigubifreiðastjóra í Reykjavík. Það er þriggja manna nefnd, sem starfar samkv. reglugerð og úthlutar leyfum, eins og heiti nefndarinnar segir til um, og þóknun 1969 var 20 þús. kr. til hvers fulltrúa rn. í nefndinni. Nefnd til að vera rn. og ferðamálaráði til ráðuneytis um starfsemi ferðamálasjóðs, þrír fulltrúar og engin þóknun hefur enn verið greidd. Stjórn umferðarmiðstöðvar, þar eru fimm fulltrúar, formaður hafði 29 260 kr. árið 1969, ritari, sem er einn nefndarmanna, fékk 16 255 kr., en hver hinna þriggja 10 575 kr. Þetta er um samgrn. að segja.

Sjútvrn. sýnist hafa 14 lögskipaðar nefndir eða samkv. þál., en þar fyrir utan eru: Stjórn Tryggingasjóðs fiskiskipa með fjórum mönnum. Þóknun ekki ákveðin. Stjórn byggingar rannsóknastofnana sjávarútvegsins með þremur mönnum, ólaunuð. Þá er það ísfisksölunefnd með þrem mönnum og þóknun nefndarmanna 1969 var 52 500 kr. alls. Fjárhæðanefnd Tryggingasjóðs fiskiskipa með fjórum mönnum og fékk 45 þús. kr. Iðgjaldanefnd Tryggingasjóðs fiskiskipa með tveimur mönnum og fékk 60 þús. kr. Þá er það ráðgjafarnefnd Hafrannsóknastofnunar með sjö mönnum, ólaunuð, og ráðgjafarnefnd Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins með 11 mönnum og er ólaunuð. Byggingarnefnd hafrannsóknaskips með fimm mönnum og fengu á árinu 1969 51 845 kr. Skuttogaranefnd með sex mönnum fékk 65 þús. kr. Tillögunefnd um hollustuhætti í fiskiðnaði með fimm mönnum. Samkv. síðustu skilagrein voru þar 45 500 kr. Staðlaskrárnefnd fiskafurða með þrem mönnum með 30 þús. kr. Grænlandsnefnd, aðstoð við fiskiskip, með þrem mönnum með 52 500 kr. Og landhelgismálanefnd, sem er valin eftir till. stjórnmálaflokkanna og má nú telja eins konar þingnefnd. Þar eru nefndarmenn fimm og þóknun samkv. síðustu skilagrein var 220 þús. og annar kostnaður við nefndina 165 348.50 kr.

Utanrrn. hefur eingöngu nefndir, sem eru skipaðar af ráðh. Það eru: Varnarmálanefnd skipuð þremur mönnum. Laun til nefndarmanna voru 1969 119 941 kr. og annar kostnaður vegna nefndarinnar það ár 322 634 kr. Þá er það kaupskrárnefnd, til þess að skrá gildandi kaupgjald í landinu á hverjum tíma og sjá um, að erlendir vinnuveitendur á Keflavíkurflugvelli fái vitneskju um það. Það eru þrír menn. Laun nefndarmanna 1969 voru 64 061 kr. og enginn annar kostnaður. Sölunefnd setuliðseigna, til þess að annast kaup og sölu af hálfu ríkisstj. á vörum og tækjum frá varnarliðinu, þrír menn. Laun til nefndarmanna voru 1969 182 390 kr. Skaðabótanefnd, nefndin úrskurðar kröfur, er rísa út af varnarsamningi Íslands og Bandaríkja Ameríku á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins, með tveimur mönnum. Laun nefndarmanna árið 1969 voru 64 020 kr. Annar kostnaður ekki talinn. Og Íslandsnefnd Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna með fimm mönnum. Laun til nefndarmanna eru engin. Kostnaður vegna nefndarinnar er enginn. Byggingarnefnd flugstöðvarbyggingar. Það eru fimm menn. Laun nefndarmanna eru engin. Kostnaður vegna nefndarinnar er enginn.

Þá er það loksins viðskrn., sem er með sex lögskipaðar nefndir eða hliðstæðar, en þar að auki hefur það skipað: Verzlunarmálanefnd, var sett samkv. ósk fulltrúa launþega í verðlagsnefnd með samkomulagi þar. Nefndarmenn eru átta. Þóknun til nefndarmanna árin 1968 og 1969 samtals 100 þús. Laun starfsfólks árið 1968 eru 75 þús. og 1969 417 þús. Annar kostnaður vegna nefndarinnar var 1968 2 þús., en 1969 24 þús. Þá er EFTA-nefnd, sem skipuð er samkv. till. þingflokkanna og með sex mönnum. Hennar aðalstarfi er nú lokið. Þóknun til nefndarmanna er óákveðin, en ætlazt er til, að haft verði samráð við nefndina áfram, og verður þá vafalaust einhver þóknun greidd fyrir þau störf, eftir því sem atvik standa til.

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég get gefið um þessa fsp. að svo stöddu.