22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í D-deild Alþingistíðinda. (3922)

201. mál, nefndir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Einhver hefur gert sér til gamans að skrökva að þessum þm., og hefur haldið hann vera frekar meira auðtrúa heldur en hann er nú dags daglega, ef honum hefur verið sagt, að ég hafi reynt að fá þingmeirihluta til þess að fella þessa fsp. Ég tók þvert á móti fram, að ef fyrirspyrjandi féllist ekki á að breyta til sjálfur og talið yrði, að hún rúmaðist innan þingskapa, þá hefði ég ekki á móti því, að hún yrði samþ. Ég benti hins vegar á þá galla, sem á fsp. eru.

Það er einnig ljóst, að hv. þm. er eitthvað farið að förlast að fleira leyti heldur en trúgirninni, þegar hann vill bera það saman og segir, að hv. endurskoðendur ríkisreikninga séu sér og fyrirspyrjanda sammála um, að fsp. hafi verið rétt form. Í því, sem hv. þm. las upp, var það svo augljóst, að fyrirspyrjendur töldu einmitt, að hér væri um meira verk en svo að ræða, að hægt væri að gera því fullnægjandi skil í skjótri svipan, því að annars hefðu þeir ekki sætt sig við svör fjmrn. og þeir ætlast til þess að fá fyrst svar ári seinna. Nú kemur mér að vísu ekki til hugar að halda, að það taki heilt ár að vinna þetta verk, en það er meira verk en svo, að það verði unnið á þeim fimm vinnudögum, sem menn hafa hér á milli þess, að fsp. er samþykkt og þangað til henni á að svara. Það er óvefengjanlegt, og það er beinlínis staðfest af yfirlýsingu hv. endurskoðenda, svo að þetta snýst algerlega við hjá hinum hv. þm.

Að nefndirnar séu óteljandi, held ég, að séu nú kannske einhverjar ýkjur. Það er hins vegar ljóst, að hv. þm. fannst, að nefndirnar, sem ríkisstj. hefði skipað, væru mun færri heldur en hann hafði gert ráð fyrir, og spurði, hvort það væri svarað öllu varðandi undirbúning laga. Nú er það svo, að a.m.k. sum rn. taka það beinlínis fram, að þarna eru nefndir, sem eiga að undirbúa lög, svo að þau hafa skilið það á þann veg. Hins vegar hef ég ekki sjálfur átt kost á því að kynna mér það til hlítar, hvort þetta mál er fullunnið eða ekki. Það er rétt að taka fram, að eitt rn. segist einungis telja þær nefndir, þar sem í eru þrír menn eða fleiri. Önnur telja nefndarmenn, þótt það séu einungis tveir, og það er mín skoðun, og ég lét það rn. vita, sem þessu svaraði á þann veg, að ég teldi það hafa misskilið fsp., en það vannst ekki tími til þess að bæta við, ef einhverju hefur verið við að bæta, sem ég veit ekki. En vitanlega eru þær nefndir, sem vinna að endurskoðun löggjafar, taldar hér með, eins og fram kom í þeim upplestri, sem ég gerði. Hitt er annað mál og er bara staðfesting á því, hversu fráleitt þetta form er til þess að fá mál upplýst, að auðvitað er ómögulegt fyrir þm., jafnvel svo skarpan og yfirburðamann sem hv. 1. þm. Austf., að fylgjast með, jafnvel þótt jafnskýrmæltur maður lesi eins og ég, og úr því að hann skilur mig ekki, hvernig ætti þá öðrum að fara, sem báðum væri verr farið en okkur tveimur? Ég vil einmitt benda á og segja, að þetta er ekki sá rétti máti til þess að upplýsa mál. Ríkisstj. hefur reynt að gera það eftir föngum, úr því að hv. fyrirspyrjandi, sem er nú nýgræðingur hér, vildi ekki taka góðfúslegri leiðbeiningu, af því að við höfum engu að leyna og allra sízt, að nefndirnar séu óteljandi, af því að við höfum nú komið á þær nokkurri bráðabirgðatölu í bili. En við sjáum, hversu þýðingarlítill þessi leikur er, af því að nú ætlar hv. þm. að segja: Ekki hefur orðið mikið úr nefndafækkun hjá núv. ríkisstj., úr því að nefndirnar eru a.m.k. 708, og þá eru einungis taldar lögskipaðar nefndir eða þær, sem eru skipaðar samkv. þál.

Ég held, að hv. þm. hafi nú átt bróðurpartinn í skipun margra þessara nefnda, eins og t.d. allra skólanefnda, sem eru eitthvað á milli 200 og 300, áfengisvarnanefnda, sem eru annaðhvort 200–300 eða 300–400. Þetta er talið með í þessari tölu hér. Um þetta er spurt, og hverju eru menn nær, þótt þeir fái svona tölur? Menn eru bókstaflega engu nær. Er nokkur maður, sem lætur sér koma til hugar, að það merki gott eða vont stjórnarfar, þó að við höfum margar skólanefndir og það hafi ekki verið afnumið að hafa skólanefnd og skipa formann skólanefndar af hálfu ríkisins? Er það nokkuð, sem ber vitni um gott eða vont stjórnarfar, þó að áfengisvarnanefndir séu? En til hvers er að vera að spyrja um svona fjarstæður með hátíðlegum fsp. á Alþ. eða hverju eru þm. bættari með það, þó að þeir fái upplýst, að fastanefndir á Alþ. eru 21? A.m.k. hv. þm., sem er búinn að sitja hér 30–40 ár, ætti að vita það, jafnvel þó að varamaður vissi það ekki. Allur þessi málatilbúnaður af hálfu þessara manna er gersamlega vindhögg, fullkomið vindhögg. Og þess vegna verður hv. þm. gramur og segir: Nú, það eru þá ekki fleiri nefndir, sem ríkisstj. hefur skipað, og það er bara eitthvað bogið við það. En það óskaplega mikla nefndafargan, sem hann sjálfur hefur verið með í að skipa, allar skólanefndirnar og áfengisvarnanefndirnar, fastanefndir á þingi og annað slíkt, það á að vera vitni um það, að stjórnarfarið sé spillt og við séum ekki nógu duglegir að hreinsa flórinn eftir hann sjálfan.