22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í D-deild Alþingistíðinda. (3931)

927. mál, jarðgöng á Oddsskarðsvegi

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, en vænti þess, að það verði nú unnið að framkvæmdum í þessum efnum með öllum þeim hraða, sem unnt er. Það er búið að dragast allt of lengi, að hafizt verði handa um byggingu þessara ganga. Ég vil m.a. geta þess, að þegar fyrstu áætlanir voru gerðar um þessi göng, þá voru þær upp á 12 millj. kr. kostnað. En nú er farið að tala um kostnað, sem nemur um 42.5 millj. kr. Það er ósköp hætt við, að verði þetta dregið, þá hækki þetta látlaust, en ég tel, að hér sé um svo aðkallandi verk að ræða, að það sé ekki verjandi með neinum hætti að draga það öllu lengur en verið hefur. Á þessu svæði, sem hér um ræðir, liggja fyrir meiri og betri jarðfræðilegar athuganir en á öðrum svæðum í landinu, samkvæmt viðurkenningu frá jarðfræðingum okkar, þar sem sérstök og mjög ítarleg athugun erlendra sérfræðinga hefur einmitt farið fram á þessu svæði. Enda er það, sem nú er talað um að gera í þeim efnum, þessar forskerðingarframkvæmdir fyrir væntanlega gangamunna og eins boranir niður í skarðið sjálft, aðeins til þess að fá frekari staðfestingu á því, sem jarðfræðingar hafa talið að væri í þessum efnum, fremur en það, að hér sé um einhverjar meiri háttar jarðfræðilegar athuganir að ræða. En ég sem sagt vænti þess, að hæstv. ráðh. beiti sér nú fyrir því, að það verði farið að hefjast handa um framkvæmdir í þessum efnum.