22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í D-deild Alþingistíðinda. (3936)

928. mál, ríkisvegir í Reykjavík

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fyrsta spurning: Hve langir eru vegir innan borgarmarka Reykjavíkur, sem ríkissjóður á að leggja og annast rekstur á samkv. vegalögum? Samkv. gildandi vegáætlun munu þjóðvegir innan borgarmarka Reykjavíkur, aðrir en þjóðvegir í þéttbýli samkv. reglugerð nr. 44 1965, vera eins og hér segir:

1. Vesturlandsvegur frá vegamótum Reykjanesbrautar og Elliðavogs á enda Miklubrautar vestan Elliðaáa, um Elliðaárdal að borgarmörkum um 1 km austan við ána Korpu, alls 6.6 km.

2. Suðurlandsvegur frá enda götunnar Bæjarháls hjá Selási hjá Rauðavatni að Geithálsi, alls 5 km.

3. Reykjanesbraut frá vegamótum Miklubrautar og Vesturlandsvegar, vestan við Elliðaár, að borgarmörkum við Kópavog, alls 2.5 km.

4. Elliðavatnsvegur frá Suðurlandsvegi við Rauðavatn að borgarmörkum við Kópavog, 1 km.

Fyrst töldu þrír vegirnir eru í gildandi vegáætlun flokkaðir sem hraðbrautir og eru samtals 14.1 km að lengd. Fjórði vegurinn, Elliðavatnsvegur, er í landsbrautaflokki, og er 1 km að lengd. Samtals eru því þjóðvegir innan borgarmarka Reykjavíkur, aðrir en þéttbýlisvegir, 15.1 km að lengd.

Þá er spurt: Hvað er áætlað, að þessir vegir kosti fullbúnir? Miðað við skilgreiningar samkv. fyrsta lið og þær frumáætlanir, sem fyrir liggja, er kostnaður áætlaður eins og hér segir: Á Vesturlandsvegi 200 millj. kr. Við Suðurlandsveg 100 millj. kr. Við Reykjanesbraut 65 millj. kr. Við Elliðavatnsveg 1 millj. kr. Samtals 365 millj. kr. Tekið skal fram, að á Vesturlandsvegi er miðað við veg með fjórum akreinum frá enda Miklubrautar að Höfðabakka, en tveim akreinum úr því, og gildir það sama um Suðurlandsveg og Reykjanesbraut. Tekið skal fram, að Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur innan borgarmarka Reykjavíkur eru fjölförnustu þjóðvegir landsins, sem ríkið sér um byggingu á. Meðal sumarumferð 1968 um Vesturlandsveg um Elliðaárdal var 14 þús. bifreiðar á sólarhring, og milli Höfðabakka og Korpu á fjórða þús. bifreiða á sólarhring. Umferð á Suðurlandsvegi hjá Rauðavatni var á sama tíma tæpar 5 þús. bifreiðar á sólarhring. Vegarkaflinn frá enda Miklubrautar að Höfðabakka, sem nú er unnið að lagningu á, má heita eini vegurinn, sem tengir höfuðborgina víð Vestur-, Norður- og Austurland og einnig við Suðurland. Þegar reglugerð um þjóðvegi í þéttbýli var sett í marz 1965, var fylgt þeirri meginreglu, að endamörk þéttbýlisveganna voru sett við yztu mörk á viðkomandi þéttbýli. Þá var engin teljandi byggð við Reykjavík innan við Elliðaár, þó — (Gripið fram í) Ja, þá var engin teljandi byggð í Reykjavík innan við Elliðaár, þó að það hafi breytzt seinustu árin við tilkomu nýs bæjarhverfis austan við Elliðaár.

Þá er spurt: Hvað hefur ríkið lagt í þessa vegi? Við s.l. áramót var bókfærður stofnkostnaður við lagningu ofangreindra vega eins og hér segir: Vesturlandsvegur frá enda Miklubrautar að Höfðabakka 52 millj. kr. Reykjanesbraut frá enda Miklubrautar að Breiðholtsbraut 12.8 millj. kr. Samtals 64.8 millj. kr.

Þá er spurt: Hvað kosta brýr á þessum vegum? Á þessum vegum verða þrjár brýr: 1. Brú á Vesturlandsvegi yfir Reykjanesbraut og enda Miklubrautar, 2. brú yfir Elliðaár, 3. brú yfir Korpu. Áætlaður heildarkostnaður við þessar þrjár brýr er 46.3 millj. kr. Reykjavíkurborg greiðir helming kostnaðar við vegamótabrúna yfir Reykjanesbraut og hluta af kostnaði við Elliðaárbrú vegna vegar, sem liggur undir brúna á bakka árinnar, eða alls 18.8 millj. kr. Verður því kostnaðarhluti ríkisins af þessum þremur brúm 27.5 millj. kr.