03.02.1970
Efri deild: 47. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

115. mál, iðja og iðnaður

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Í grg. fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., segir m.a., að það sé flutt í því skyni að efla aðstöðu stjórnarvalda til aðhalds um það, hverjir stundað geti iðju hér á landi. Það er út af fyrir sig ekkert við slíkt að athuga og stjórnarvöld eiga að hafa aðstöðu til þess að sjá svo um, að eigi geti orðið hér neitt á í þessum efnum, svo mikilsverð sem þau eru um alla framkvæmd.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við framsóknarmenn á hv. Alþ. vorum andvígir því, að gengið væri í EFTA á þessu stigi, en till. okkar þar að lútandi náðu ekki fram að ganga og nú er svo komið, að við verðum þar löglegir meðlimir eftir nokkrar vikur. Við töldum það m.a. höfuðástæðu fyrir okkar afstöðu að þessu leyti, að eigi hefðu verið gerðar nauðsynlegar ráðstafanir eða áætlunargerðir varðandi iðnað og iðju í þessu landi og iðnaðurinn stæði það höllum fæti, að áður en gengið yrði í slíkan félagsskap sem Fríverzlunarbandalagið, væri nauðsynlegt, að við styrktum okkar iðnað betur og gerðum allt, sem í okkar valdi stæði til þess. En innganga okkar í EFTA er að verða staðreynd og þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að frv. það, sem hér er til umr.,og eins frv. um breyt. á l. um verzlunaratvinnu séu hér á ferðinni og ekkert við það að athuga.

Í sambandi við frv. tel ég, að nokkur galli sé á því. Í 2. gr. frv. stendur, að lögreglustjórar veiti iðjuleyfi og það hefur að vísu lengi verið. En þeirra vald nær töluvert lengra, því sé hins vegar svo, að lögreglustjóri sjái einhverja meinbugi á því að veita leyfi, þá hefur hann rétt til að vísa umsókn um leyfi til ákvörðunar ráðh. eða rn. Þó að ég viti það, að lögreglustjórar, sem ég þekki til, vilji allt vel gera, bæði í slíkum efnum sem þessum og öðrum, þá tel ég, að það sé of mikill ábyrgðarhluti lagður á lögreglustjóra í svo mikilsvarðandi málum og ef eitthvað þætti athugavert að mati lögreglustjóra við umsókn um iðjuleyfi, þá yrði reyndin sú, að lögreglustjóri vísaði málinu ætíð til ráðh. Ég þykist vita, að sú yrði þróunin. Þetta þykir mér ekki nægilega gott að þessu leyti, en hitt er annað, að ég mun ekki flytja brtt. við frv.

Svo í öðru lagi er viðkomandi ráðh. heimilt að veita undanþágu frá vissum ákvæðum í frv. og l., ef sérstaklega stendur á og þannig kemur það þá fram, að ráðh. getur veitt margs kyns undanþágur, sem ég tel, að væri ekki eðlilegt, að ráðh. væri heimilt og þó sérstaklega varðandi eitt atriði, en það eru félög, sem koma til með að verða hér rekin til viðbótar við þau, sem fyrir eru, á vegum útlendra aðila að nokkru leyti. Ég mundi vilja koma því ákvæði inn í þetta frv., að Alþ. hefði úrskurðarvald um það, hvort fyrirtæki eða félagsskapur, sem erlendir aðilar ættu 50% eða meira í, fengi leyfi til starfrækslu hér á landi. Mér þykir það ákaflega eðlilegt, og þó að sumir haldi því fram, að þetta sé eða gæti verið nokkuð þungt í vöfum, þá hygg ég, að í flestum tilfellum ætti það ekki að vera svo og meira lægi ekki á en svo, að til Alþingis væri hægt að leita til endanlegs úrskurðar í hverju tilviki.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta mál. Mér finnst eðlilegt, að svona fylgifrv. komi fram, úr því að innganga í EFTA er ákveðin og að okkar málefni séu að öðru leyti samræmd eða aðlöguð þessum samningum, sem við erum að gera, að því er varðar Fríverzlunarbandalagið.