10.12.1969
Neðri deild: 22. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

95. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að taka upp neitt karp við hv. 10. þm. Reykv. um þetta mál. Mér kom skoðun hans ekkert á óvart. Hún hefur komið fram hér áður og það er vitanlegt, að hann er aðalforráðamaður fyrir öðru happdrætti hér í landinu og vill veg þess sem mestan og er ekkert að sakast um það. En mér finnst það engu að síður vafasamt af forráðamönnum annarra happdrætta að snúast gegn þessu máli hér í Alþ. Það hefur verið tekið mjög vel á beiðnum þeirra happdrætta annarra, sem hér hafa verið starfandi, bæði happdrættis DAS og happdrættis Sambands ísl. berklasjúklinga, er þau hafa farið fram á framlengingar á sínum leyfum, sem hafa verið tímabundin. Þetta er elzta happdrættið, sem hér er um að ræða, Happdrætti Háskólans og var náttúrlega gengið, má þá eins segja, verulega á hlut þess, þegar öðrum happdrættum var hleypt af stokkunum. En engu að síður var það gert og þeim happdrættum veitt leyfi til áframhaldandi starfsemi, þegar farið hefur verið fram á það og þau styrkt með ýmsum hætti, þannig að mér finnst næsta vafasamt að vera að blanda þeim málum saman við þær sérstöku óskir, sem eru hér frá Happdrætti Háskóla Íslands.

Það er auðvitað sjálfsagt að upplýsa þetta mál á allan hátt og það kann vel að vera, að þetta hafi áhrif í þá átt að draga eitthvað úr kaupum á miðum annarra happdrætta, um það veit ég ekkert. En það er spurningin um það, hvar fólk vill helzt kaupa sína miða, hvort það vill heldur kaupa þá hjá Happdrætti Háskólans og þá heilmiða, sem aðallega er nú ætlunin að gefa út, – og það vill nú svo til, að hin happdrættin bæði hafa aðeins heilmiða á boðstólum og auglýsa það mjög, að þau greiði aðeins út heila vinninga. Þetta hefur Happdrætti Háskólans ekki, en er nú að biðja um skipulagsbreytingu til þess að geta komið sínum málum í það horf að verða þannig jafnsett hinum happdrættunum, en ekki til að fjölga hlutamiðum. Hvað út úr þessu dæmi kemur, skal ég ekkert um segja, það yrðu auðvitað aldrei nema getgátur. Upplýsingar um það, hvað menn hugsa sér í því efni og upplýsingar um hag Happdrættis Háskólans og hvað það eigi í sjóði er auðvitað sjálfsagt, að n. verði sér úti um og mun ekki standa á því hjá Háskólanum að veita þær. Vonandi er það sem mest, sem þetta happdrætti á í sjóði, því að það eru vissulega mikil verkefni, sem fram undan eru og ég skal ekki fara aftur að rifja upp. Þetta er hv. þdm. mjög vel kunnugt af þeim grg., sem nýlega hafa verið birtar af hálfu háskólanefndarinnar, sem hefur athugað gaumgæfilega byggingarþarfir Háskólans á næstu árum og komizt að raun um það, að enda þótt Happdrætti Háskóláns yrði eflt, eins og hér er gert ráð fyrir, þá mundi vanta mjög mikið á, að það gæti staðið undir uppbyggingu Háskólans, þannig að ríkissjóður yrði að taka á sig mjög verulegar kvaðir í þessu efni. Ég tel þess vegna ekki nema skylt og sanngjarnt að ganga til móts við óskir háskólahappdrættisins, ef á einhvern hátt væri hægt að létta þann bagga, sem annars yrði að falla á ríkissjóðinn í þessu sambandi.

Ég sé svo ástæðu til þess, af því að það gafst tilefni til þess frá hv. þm. í lok ræðu hans, er hann talaði um virðingu fyrir Alþ. í sambandi við, að það væri búið að prenta upplýsingar um Happdrætti Háskólans á næsta ári, taka það skýrt fram, að það var gert án vitundar stjórnar happdrættisins og eru hrein afglöp hjá starfsmönnum, sem þar áttu hlut að máli. Það er rétt; að það komi hér fram, vegna þess að forráðamenn happdrættisins hafa komið að máli við mig og beðið afsökunar á því, að þessi mistök skyldu hafa átt sér stað og það er síður en svo, að það hafi verið tilgangur stjórnar happdrættisins eða háskólaráðs á nokkurn hátt að sýna Alþ. óvirðingu í þessu efni. Og ég geri ráð fyrir því, að það hafi einnig verið komið á framfæri við eða muni verða komið á framfæri við hv. n., sem fær þetta til meðferðar, einmitt þessum skýringum frá forráðamönnum Happdrættis Háskólans. En mér þykir vænt um að fá tilefni hér til þess að taka það fram, að þetta hefur verið gert. Það er hreint axarskaft og hefur hvorki verið gert, eins og ég segi, með vitund og vilja forráðamanna Háskólans né með nokkru samþykki eða með því að bera það á nokkurn hátt undir rn. Auðvitað er rétt, að þetta eru fráleit vinnubrögð, en alltaf geta mönnum orðið á mistök og mér finnst, að það megi ekki verða til þess að eyðileggja þetta mál, þó að þarna hafi orðið þessi mistök á.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið, en endurtek aðeins þá beiðni mína til hv. n., ekki aðeins vegna þessara prentuðu upplýsinga frá starfsmönnum happdrættisins, sem að vísu gera alveg nauðsynlegt, að þetta verði afgreitt fyrir áramót, heldur líka vegna hins, sem ég tók fram, þegar ég lagði frv. fyrir Ed., að það var ætíð ætlunin að reyna að stefna að því, að þetta gæti orðið um áramót, þannig að efnislega er ekki um neina breytingu á þeirri stefnu að ræða.