13.11.1969
Efri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

80. mál, almannatryggingar

Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Um langan tíma hafa viss sjúkdómstilfelli, sem ekki hefur verið unnt að veita viðeigandi meðferð hér á landi, valdið miklum vandkvæðum. Sjúklingar þeir, sem hér eiga hlut að máli, hafa orðið að leita læknishjálpar erlendis án þess að fá kostnað þann, sem óhjákvæmilega leiðir af slíkum utanförum, endurgreiddan, nema aðeins að nokkrum hluta. Sú regla hefur jafnan gilt um slíkan sjúkrakostnað tryggðra manna, að slíkur kostnaður hefur verið endurgreiddur aðeins að því marki, sem hliðstæður kostnaður hefði numið hér á landi, samkv. gildandi samningum og gjaldskrám. Hefur um þetta einu gilt, hversu brýn þörf var fyrir sjúkrahjálp erlendis og hvort mögulegt var eða ekki að veita hlutaðeigandi sjúklingi nauðsynlega hjálp hér á landi. Einstök sjúkdómstilfelli hafa haft í för með sér mjög stórfelld útgjöld umfram það, sem sjúkratryggingar bæta, jafnvel svo stórfelld, að þau hafa valdið verulegri röskun á afkomu sjúklings eða aðstandenda hans.

Til ýmissa ráða hefur verið gripið til aðstoðar þessum sjúklingum, en þau hafa yfirleitt verið ófullnægjandi, erfið og seinvirk og aðstoðin hefur áreiðanlega komið mjög misjafnlega niður. Hefur hér verið um tilfinnanlega vöntun að ræða á þeirri vernd, sem íslenzkar sjúkratryggingar veita og enn tilfinnanlegri fyrir þá sök, á hve mörgum mikilvægum sviðum sérhæfing í læknishjálp hefur hér verið ónóg.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er ætlunin að bæta úr þessum vandkvæðum. Það veldur sérstökum erfiðleikum að greina þau sjúkdómstilfelli skýrt frá, þar sem brýna nauðsyn ber til hjálpar, sem ekki er unnt að veita á íslenzkum sjúkrahúsum. Ekki léttir það vandann, að stundum er sótt fast á um utanfarir af hálfu sjúklinga og reyndar aðstandenda þeirra líka, þegar um er að ræða sjúkdóma, sem ekki er mögulegt að lækna, svo að utanför yrði án árangurs. Slík atvik eru afar viðkvæm og vandmeðfarin, svo sem augljóst má vera.

Í 2. gr. frv. er lagt til, að nefnd 5 lækna verði falið að úrskurða um nauðsyn utanfarar, vegna þess að ekki sé unnt að veita hæfilega hjálp á íslenzku sjúkrahúsi og ákveða jafnframt, hvar skuli vista sjúkling þann, sem hlut á að máli. Svo gæti virzt, sem svo fjölmenn nefnd kynni að reynast þung í vöfum og nægjanlegt væri, að tveir læknar frá Landsspítala Íslands ásamt tryggingayfirlækni úrskurðuðu um þessi tilfelli. Það er á hinn bóginn talið æskilegt, að læknar frá Borgarsjúkrahúsinu og St. Jósefsspítala eigi einnig sæti í nefndinni. Í því sambandi er því haldið fram, að flest tilvikin séu svo ótvíræð, að formaður nefndarinnar geti tekið ákvörðun án þess að halda fund. Í öðrum tilvikum getur hann ákveðið, hversu með skuli fara, eftir að hafa ráðgazt við einn eða tvo nefndarmenn í síma, þörf fyrir fund sé aðeins í fáum mjög vandasömum tilfellum.

Til skamms tíma var mjög erfitt að leysa þetta vandamál, vegna þess að sjúkrasamlögin voru mörg svo fámenn og fátæk, að þau voru alls ekki fær um að rísa undir þeim kostnaði, sem slíkar sjúkrahúsvistir erlendis höfðu í för með sér. Nokkur bót var ráðin á þessu með l. nr. 83 frá 29. des. 1967, um breyt. á l. nr. 40 frá 30. apríl 1963, um almannatryggingar. Í l. þessum er mælt svo fyrir, að sjúkrahúsvistir skuli greiddar af sjúkrasamlögum kaupstaðanna og af héraðssamlögum, — en í hverri sýslu er héraðssamlag. Þar með voru hin smáu sjúkrasamlög leyst undan skyldunni að greiða fyrir sjúkrahússvistir, en skyldan aftur á móti lögð á héraðs og sýslusamlögin. Dreifing áhættunnar við sjúkrahúsvistun varð þannig mun meiri en áður, og byrðin því léttari fyrir hvern iðgjaldagreiðanda og jafnari í heildina tekið. Í þessum l. var einnig ákveðið, að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins greiddi sjúkrahússvistir fyrir langlegusjúklinga, þ.e.a.s. fyrir sjúkrahússlegu, sem lengri er en 12 mánuðir. Síðan sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins tók þannig að annast kostnað langlegusjúklinga, sýnist eðlilegt, að umframkostnaður vegna sjúkravistar erlendis verði greiddur af deildinni, en komi ekki í hlut sjúkrasamlaga kaupstaðanna eða héraðssamlaga, sem sum hver eru enn of smáar einingar; svo smáar, að þessi kostnaður yrði þeim algerlega um megn. Hér er því ekki hróflað við þeim reglum, sem nú gilda um greiðslu sjúkrahúsvistar erlendis, þar sem kostnaður er innan þeirra marka, sem greiddur er fyrir vistun samlagsmanna á íslenzkum sjúkrahúsum.

Í frv. þessu er einnig lagt til, að sjúkratryggingadeild greiði ferðastyrki til þeirra, sem nauðsynlega þurfa að leita læknishjálpar erlendis. Slíkir styrkir hafa verið veittir af deildinni. Breytingin er einungis í því fólgin, að styrkveitingar þessar eru ekki háðar því, hvert framlag ríkissjóðs er til þessarar deildar. Ekki þykir ástæða til að láta ferðastyrki velta á úrskurði nefndar þeirrar, sem um ræðir í 2. gr., enda mun oft vera þörf á slíkum styrkjum í þeim tilvikum, þegar kostnaður við sjúkrahúsvistina verður ekki hærri en hér á landi og því ekki um að ræða hluttöku sjúkratryggingadeildar í honum. Gert er ráð fyrir, að ákveðin verði í reglugerð veruleg hækkun ferðastyrkja frá því, sem verið hefur. Í núgildandi l. eru ákvæði um greiðslu ferðakostnaðar innanlands. Samkv. g–lið 42. gr. almannatryggingalaga, skal greiða óhjákvæmilegan ferðakostnað samlagslæknis til þeirra samlagssjúklinga, sem ekki eru ferðafærir sökum sjúkdóms síns, ef um lengri vegalengd en 10 km er að ræða á landi eða ef nota verður skip eða flugvélar til flutninga. Ferðakostnað þennan skal greiða að hálfu, ef læknir notar eigið farartæki, ellegar að /4,. Samkv. h–lið sömu gr. skal og greiða óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúks samlagsmanns í sjúkrahús innanlands að 3/4 hlutum, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúka svo varið, að hann verði ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum að dómi samlagslæknis og sjúkrasamlagsstjórnar. Ákvæði frv. um greiðslu á ferðastyrk vegna utanlandsferða eru því í fullu samræmi við meginreglur gildandi l. um greiðslu ferðakostnaðar vegna sjúklinga.

Gera verður ráð fyrir allmiklum kostnaði vegna ákvæða þessa frv. Áætlun um þennan kostnað liggur hins vegar ekki fyrir, enda mjög vandkvæðum bundið að gera slíka áætlun, sem ætla mætti svo nákvæma, að verulegs virðis væri. Gizka má á, að kostnaðarauki vegna þessa frv. geti orðið ca. 6 millj. kr. á ári. Þrír aðilar bera þunga sjúkratrygginganna í hlutföllum, sem láta nærri því, sem hér segir: Ríkissjóður 57%, hinir tryggðu 23% og sveitarsjóðir 20%.

Það er engum vafa undirorpið, að hér er um réttlætismál að ræða, sem er fullkomlega í anda þeirrar hugsunar, er lá að baki l. um Tryggingastofnun ríkisins, og þar áður alþýðutryggingar. Með hliðsjón af þeirri reynslu af þeim lagasetningum, sem nú er fengin, vona ég, að ekki þurfi að verða ágreiningur hér á hv. Alþ. um enn eitt atriði til fullkomnunar á þeirri lagasetningu.

Ég tel ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um frv. fleiri orð, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.– og félmn.