13.11.1969
Efri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

80. mál, almannatryggingar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég get nú tekið undir það, sem hæstv. félmrh. og hv. 2. þm. Vesturl. hafa sagt hér um þetta mál. Ég hygg, að það verði engin fyrirstaða gegn því, að fá alþm. til að samþykkja þessa sjálfsögðu réttarbót og menn hafa talað um það, að þetta hafi löngum verið nokkuð ljóst, að þarna væri atriði í tryggingalöggjöfinni, sem þyrfti að lagfæra.

Hv. 2. þm. Vesturl. hefur minnt á það, að fyrir hálfu öðru ári hefði verið samþ. till. frá honum, ásamt fleiri þm., um að taka þessi mál til endurskoðunar. Það er vissulega rétt. Ég hygg, að það mætti, ef ástæða væri talin til, rekja þetta mál enn þá lengra aftur í tímann. Eftir því sem ég veit bezt, var þessu máli hreyft í tryggingaráði í ársbyrjun 1967. Ég hygg, að það hafi verið hv. 1. þm. Vesturl., sem það gerði. Það er þarflaust að vera að telja það fram, hverjir hafa séð nauðsyn á þessum lagfæringum. Ég ætla ekki að gera það að neinni uppistöðu í ræðu minni, aðeins minna á það, að þessu hefur verið hreyft í tryggingaráði og borgarstjórn Reykjavíkur mun hafa ályktað um málið, svo að ljóst er, að hér er atriði, sem allir eru sammála um, að lagfæra þurfi.

En það hefur tekið þó nokkurn tíma fyrir hv. rn. að koma því frv. út, sem nú er hér til umr., því að þó að ekki sé miðað við annað en fyrrnefnda þáltill., sem Alþ. samþykkti, þá eru nú liðnir 18 mánuðir síðan. Og í grg. segir, að ástæðurnar til þess, að ekki hefur verið úr þessu bætt, séu aðallega tvær. Það er í fyrsta lagi, að erfiðleikar séu á að greina þau tilfelli skýrt frá, þar sem brýn nauðsyn er hjálpar umfram almennar reglur, og svo í öðru lagi, að sjúkratryggingin hafi verið borin uppi af allt of smáum einingum. Hvort tveggja er vissulega rétt, en við þetta hef ég það að athuga, í fyrsta lagi, að jafnerfitt er nú, eins og alltaf hefur verið, að greina þessi tilvik frá og einhvern tíma verður að höggva á þann hnút. Nú hefur það verið gert og hefði alveg eins mátt gerast fyrr. Í öðru lagi er sagt, að þeir aðilar, sem eiga að bera uppi sjúkratrygginguna, hafi verið of smáir, en einnig úr þessu atriði hefur verið bætt fyrir alllöngu, því að sjúkratryggingadeildin, sem nú er ætlað þetta hlutverk, var stofnsett í ársbyrjun 1968.

Um sjálf efnisatriðin langar mig til þess að segja þetta. Það kemur ekki fram í frv., hvaða ferðastyrki er ráðgert að veita. Það er sagt, að það sé atriði, sem eigi að ákveða með reglugerð, sem tryggingaráð setur. En ég tel og kem því hér með á framfæri við þá menn, sem þetta mál eiga að skoða, að sjúklingar ættu að fá fargjöldin greidd að fullu. Það er sérstakt tilvik, sem þessi lög ná til, þegar það er að beztu manna yfirsýn eina leiðin til lækninga að fara utan, vegna þess að þar eru sérfræðingar og aðstaða, sem ekki er til í landinu. Ég tel, að hér sé um svo mikið fjárhagslegt atriði að ræða fyrir viðkomandi sjúkling, að það verði að taka fullt tillit til þess ferðakostnaðar, sem hann þarf að greiða.

Í öðru lagi vil ég minna á það, að í mjög mörgum tilfellum þurfa fylgdarmenn að fylgja sjúklingi. Það getur staðið þannig á,— ég fer ekki nánar út í það, það skilja það allir. Það getur í flestum tilfellum verið kostnaðarsamt og erfitt fyrir fylgdarmann að leggja á sig þessar ferðir, atvinnutap og svo uppihald og ég vil beina því til n. og hæstv. ráðh., hvort ekki væri ástæða til að ætla þessum fylgdarmönnum einhverja dagpeninga, meðan á ferðinni stendur.

Í þriðja lagi er talað um það í 2. gr., að sú aðstoð, sem þar er ráðgerð, verði til ráðstöfunar fyrir sjúkling, meðan hann vistast í erlendu sjúkrahúsi. En ég vil benda á, að mjög oft þarf utandvöl sjúklings að vera lengri heldur en þeim tíma nemur, sem hann vistast í sjúkrahúsi. Það er algengt, að sjúklingar þurfi að vera til marg víslegrar eftirmeðferðar, eftir að þeir fá ekki lengur vist á sjúkrahúsi, en þurfa þó að vera undir læknishendi, ganga til sjúkrahússins og fá þar aðhlynningu. Einnig í þessum tilfellum getur það verið sjúklingum og aðstandendum þeirra ofviða að kosta dvöl sína í fjarlægu landi. Ég vil enn fremur til viðbótar þeim atriðum, sem ég hef getið hér um, beina því til n. og hæstv. ráðh., hvort ekki væru tök á því að líta eitthvað til þessara tilvika, nú þegar á að fara að lagfæra þennan vankant á almannatryggingalöggjöfinni.

Ég skal ekki, herra forseti, vera að eyða fundartímanum í langar ræður um þetta mál. Ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi, að hér er um mjög merkt og þarft mál að ræða, sem allir, sem unnið hafa við að koma því á rekspöl og í höfn, eiga þakkir skildar fyrir. En ég vildi koma þessum litlu ábendingum að til umhugsunar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar.