21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin í júnímánuði s.l. Það var kunnugt, að fjárhagur Rafmagnsveitna ríkisins fór mjög versnandi af ýmsum ástæðum. Rekstrarkostnaður hafði aukizt og svo hafa Rafmagnsveitur ríkisins talsvert af erlendum lánum og við gengisbreytinguna versnaði hagur Rafmagnsveitnanna mjög. Það var skipuð n. til þess að athuga, á hvern hátt hægast væri að bæta úr þessu og skilaði hún áliti í byrjun júnímánaðar og lagði þar til, að verðjöfnunargjaldið yrði tvöfaldað, en þannig mætti brúa það bil, sem hafði skapazt, án þess að hækka raforkuverð í dreifbýlinu og í ýmsum kauptúnum landsins, sem Rafmagnsveiturnar sjá fyrir rafmagni. Og til þess að rétta við fjárhag Rafmagnsveitnanna var horfið að því ráði, eins og getið er um hér í þessum lögum, að tvöfalda verðjöfnunargjaldið, sem áður hafði verið 35 millj. kr., í 70 millj. kr.

Menn tala um það, að það eigi að vera eitt og sama raforkuverð um allt land og má vel vera, að það eigi sér nokkra stoð, að taka undir það. En það er sitt hvað, að hafa alveg sama orkuverð um allt land eða gera ráðstafanir til þess að jafna orkuverðið. Það er vitað mál, að orkuverðið er í dag mjög misjafnt eftir aðstæðum, en með þessu verðjöfnunargjaldi, sem nú hefur verið tvöfaldað, er stigið mikilvægt spor í þá átt að jafna þann mismun, sem á þessu er.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að lesa hverja gr. þessa frv., sem hv. þm. hafa fyrir framan sig. Frv. skýrir sig sjálft. Þetta er aðalatriðið. En auk þess er með þessum l. gert ráð fyrir því, að það sé skipuð sérstök stjórn, sem fari með málefni Rafmagnsveitna ríkisins, undir yfirstjórn ráðherra. Út af fyrir sig er það ekki óeðlilegt. Rafmagnsveitur ríkisins eru það mikið fyrirtæki og spanna það stórt svið, að ekki er óeðlilegt, að þar sé stjórn til stuðnings framkvæmdastjóra, sem fari með þessi mál undir yfirstjórn ráðh.

Af því að við erum að ræða hér um orkumál og raforkuverð, þá þykir mér rétt í tilefni af því, sem kom fram í útvarpsumr. í gærkvöld og prentað er með feitu letri í Þjóðviljanum í morgun, að fara nokkrum orðum um staðreyndirnar í því máli.

Ég er alveg viss um það, að hv. 6. þm. Reykv. hefur ekki viljað fara með vísvitandi ósannindi og af því að ég veit, að hann vill hafa það heldur, sem sannara reynist, þá veit ég, að ég geri bæði honum og öðrum hv. þm. og einnig landsmönnum öllum greiða með því að skýra frá staðreyndum. Það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði í gær, voru blekkingar og þær eru endurteknar í feitletursfyrirsögn í Þjóðviljanum í morgun, og veit ég, að hv. 6. þm. Reykv. tekur það vel upp, að þetta skuli nú vera leiðrétt.

Hv. þm. talaði um, að stofnkostnaður virkjunar við Búrfell hefði farið 25% fram úr áætlun. En staðreyndin er, að upphafleg áætlun hljóðaði upp á 42.8 millj. dollara, miðað við það gengi, sem þá var. En nú áætlast stofnkostnaður virkjunarinnar, að vöxtum á byggingartíma meðtöldum, 3.760 millj. kr. eða 42.7 millj. dollara. Það er aðeins minna heldur en upphafleg áætlun. Þetta eru staðreyndirnar í málinu. Og hv. þm. þarf að vita um þær. Í þessum tölum er meðtalið það miðlunarrými í Þórisvatni, sem upprunalega var reiknað með og hugsað var fyrir núverandi Búrfellsvirkjun, en nú er fyrirhugað að ráðast í miklu meiri miðlun, með tilliti til örari uppbyggingar kerfisins, nýrra virkjana í Tungnaá og síðar stækkunar Búrfellsvirkjunar. Áætlað er, að 210 MW virkjun við Búrfell gefi 1.720 millj. kwst. á ári og sé miðað við, að rekstrarkostnaður sé 10% af stofnkostnaði, en það er talið mjög ríflegt að gera ráð fyrir því, verður einingarverðið tæpir 22 aurar á kwst. Það passar nú ekki við þær fullyrðingar, sem hv. þm. viðhafði hér í gær og allir þekkja, sem hafa hlustað á hann og lesið Þjóðviljann. Ég held, að það sé mjög þarft fyrir hv. þm. að vita um þessar staðreyndir.

Þó að ekki sé búið að fullprófa vélarnar, eru líkur á, að þær muni skila allt að 15% meiri afköstum en 210 MW, eða 240 MW. Þegar hægt verður að fullnýta það afl, lækkar kwst. í 19 aura, og þá fjarlægist þetta enn fullyrðingar hv. þm. Rétt er að benda á, að sé reiknað með 7% vöxtum af þeim lánum, sem tekin hafa verið til þessarar virkjunar, og 40 ára „annuiteti“, – en 40 ár er sá afskriftatími virkjunarinnar, sem hæfilegt er að reikna með, – þá verður rekstrarkostnaður ekki nema 8.5%, í stað þess að hann var í hinu tilfellinu reiknaður 10%, sem er sennilega of hátt. Verð kwst. er þá 16–19 aurar í stað 19–22 aura. Og í rauninni gefur þessi útreikningur réttasta matið á kostnaðarverði orkunnar. En það hefur aldrei verið farið dult með það, að framleiðsluverð Búrfellsvirkjunar lægi mjög nærri söluverðinu til ÍSALS og í Búrfellsvirkjun var ráðizt annars vegar vegna þess, að á þann hátt fengum við sjálfir ódýrara rafmagn, en frá smávirkjunum og hins vegar vegna annars hagnaðar af álbræðslunni. En þetta virðist hv. 6. þm. Reykv. eiga ákaflega erfitt með að skilja. Kannske lætur hann sér detta það í hug, að það væri ódýrara að við hefðum bara reist fyrir innanlandsmarkaðinn einhverja smávirkjun. Málflutningur hans byggist á þeirri öfugu hugsun og er það alveg merkilegt. Hins vegar hefur aldrei verið farið dult með það, að afkoma Landsvirkjunar yrði erfið fyrstu árin, á meðan virkjunin yrði ekki nema hálfnýtt, en langmestur hluti kostnaðarins áfallinn. Þessir byrjunarörðugleikar hefðu að sjálfsögðu orðið miklu meiri, ef stækkun álbræðslunnar og virkjunarinnar hefði ekki verið flýtt, svo að ekki sé nú minnzt á útkomuna, ef virkjað væri smátt, eins og hv. 6. þm. Reykv. hefði viljað gera. Hv. 6. þm. Reykv. vildi ekki virkja nema fyrir innanlandsmarkaðinn og þá hefðu sennilega verið virkjuð 30 þús. kw í staðinn fyrir 210 þús. Það hefði líka verið dýrt að vera með stórvirkjun, sem engan kaupanda hafði að orkunni, og ekki hefðu það verið góð búvísindi.

Ég tel rétt að láta þessar staðreyndir koma hér fram. Það eru staðreyndir, sem fyrir liggja og ekki er hægt að rengja. Og hv. alþm. og fólkið í landinu eiga rétt á því að fá upplýsingar um þetta mál, sem ekki verða vefengdar, úr því að hv. 6. þm. Reykv. kastaði þessu fram í gærkvöld og endurtekur það í blaði sínu án þess að hafa gert sér fulla grein fyrir því, hvað hann var að segja. Það eina, sem hann hefur sér til málsbóta, er, að hann hafi ekki verið búinn að gera sér fulla grein fyrir því eða að hann hafi fengið skakkar upplýsingar hjá einhverjum aðilum. Mér dettur ekki í hug að halda, að þessi hv. þm. hafi vísvitandi farið með rangt mál og því er það gott, að hann fær tækifæri til þess að leiðrétta það sjálfur, sem hann hefur farið rangt með.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.