21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það var vissulega tími til kominn, að æðstu ráðamenn gæfu einhverjar skýrslur um það, hvernig mál standa í sambandi við kostnað við Búrfellsvirkjun og framleiðslukostnað á raforku þaðan.— Ég veitti því athygli, þegar stöðin tók til starfa, að þá voru ekki birtar þær tölur, sem venja er að birta við slík tækifæri. Og þegar ég fór að grennslast fyrir um málið, kom það í Ijós, að þetta var vegna þess, að það var litið á þessar tölur sem hreint feimnismál. Það var ekki ætlun stjórnarvaldanna að gefa þessar tölur upp, eins og sakir stóðu, vegna þess að útkoman úr þeim gekk gersamlega í berhögg við kenningar þessara sömu manna. Ég hef aflað mér fullrar vitneskju um þetta mál, og ég get sagt hæstv. ráðh. það, að þær tölur, sem ég fór með hér í gær, hef ég sannreynt að fullu. Í júnílok í sumar var gefið upp af verkfræðingum Búrfellsvirkjunar, að kostnaður væri þá áætlaður 32 millj. 572 þús. dollarar. Upphafleg áætlun um framkvæmdirnar á því stigi var hins vegar 25.8 millj. dollarar. Hér er um að ræða hækkun, sem nemur 25%. Í þessa upphæð, sem ég nefndi áðan, 32 millj. dollara, vantaði vexti á byggingartímanum. Þegar þeir eru meðtaldir, er kostnaður kominn upp í 3.160 millj. kr. Við þá tölu bætast tollar og skattar í ríkissjóð, sem ekki voru heldur með í þessari tölu. Enn fremur þarf að bæta við þessa tölu gengistapi á innlendum kostnaði, vegna þess að tekin hafa verið erlend lán til allra framkvæmdanna, einnig innlenda kostnaðarins, en gengistapið nemur yfir 200 millj. kr. Þarna þarf einnig að bæta við greiðslu fyrir vatnsréttindi, sem er að vísu ekki há upphæð, en þó 10 millj. kr., og síðast verður að hafa þarna með kostnað við gasaflsstöðina, sem er 280 millj. og var heldur ekki í þessari upphæð. Þessi kostnaður samtals er 3.770 millj. kr. Og eins og hæstv. ráðh. gat réttilega um, er rekstrarkostnaður reiknaður 10% af þeirri upphæð. Framleiðsla raforku nú er 840 millj. kwst. og af því leiðir, að framleiðslukostnaður á kwst. er nú, eins og sakir standa, 45 aurar. Hæstv. ráðh. nefndi ekki, hver framleiðslukostnaðurinn á kwst. væri núna samkv. sínum tölum. Það væri fróðlegt, ef hann vildi gera það og bera einnig þá tölu saman við þá 22 aura, sem útlendingarnir borga og færa síðan rök að því, að slík viðskipti séu hagkvæm.

En þessi framleiðsla verður öll mun hagkvæmari, þegar Búrfellsvirkjun er tekin til starfa með fullum afköstum. Þá bætist við þann kostnað, sem ég ræddi um áðan, verð þeirra véla, sem bætt verður við og kosta munu um 250 millj. kr. og enn fremur kostnaður við miðlunarmannvirki í Þórisvatni, sem verður um 350 millj. Þar með er heildarkostnaðurinn kominn upp í 4370 millj. kr. Framleiðslan verður þá 1.680 millj. kwst. og kostnaður á kwst. 26 aurar.

Nú er það að vísu tilgangslítið, að við stöndum hér til skiptis, hæstv. ráðh. og ég og birtum ólíkar tölur um þessi atriði. Ég held, að hér sé um það alvarlegt mál að ræða, að það sé ástæða til fyrir Alþ. að framkvæma á því sjálfstæða rannsókn, hvað rétt er og hvað rangt í þessu máli. Ég vil skora á hæstv. ráðh. að fallast á það með mér, að hv. Nd. skipi rannsóknarnefnd til þess að komast að raun um, hvaða staðreyndir eru þarna réttar og hún leggi síðan þær staðreyndir fyrir Alþ. Á annan hátt getum við ekki komizt að öruggri niðurstöðu um þetta atriði. Það er algerlega tilgangslaust, að hæstv. ráðh. ætlist til þess, að menn taki mark á staðhæfingum hans, vegna þess að þeir heyri til sama flokki eða styðji sömu ríkisstj. og hann; eða ég ætlist til þess, að menn trúi orðum mínum á einhverjum hliðstæðum forsendum. Þetta er mál, sem ekki á að þurfa að deila um hér í ræðustóli. Þetta er hægt að sannreyna. Og ég vil skora á hæstv: ráðh. að fallast á það, að Alþ. skipi slíka rannsóknarnefnd.