21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, að það er til lítils, að við séum hér að fara til skiptis upp í ræðustólinn, ég og hv. 6. þm. Reykv., úr því að hann ekki vill taka staðreyndirnar gildar. En ég hafði nú vænzt þess, að til þess kæmi ekki og þær heimildir, sem ég hef fyrir því, sem ég fór hér með áðan, eru frá framkvæmdastjóra Landsvirkjunarinnar, Eiríki Briem. Hann tekur tölurnar upp úr bókhaldi fyrirtækisins.

Hv. þm. talar um, að það sé þörf á að skipa rannsóknarnefnd. En hvernig er með Landsvirkjun? Eiga ekki allir þingflokkar fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar? Framkvæmdastjóri Landsvirkjunar starfar í umboði stjórnarinnar og er nokkur hv. þm., sem vill halda því fram, að framkvæmdastjóri Landsvirkjunar hafi tekið skakkar tölur upp úr bókhaldinu til þess að villa fyrir þm.? Þær tölur, sem ég fór með hér áðan, eru eftir honum hafðar. Ég held nú, að hv. 6. þm. Reykv. hafi alls ekki meint þetta. Hann var aðeins að tala um það, að hann hefði fengið upplýsingar, en hjá hverjum? Ekki hefur hann fengið þær hjá fulltrúa Alþb. í stjórn Landsvirkjunar, því að þær upplýsingar, sem hann gefur, hljóta að vera alveg samhljóða upplýsingum framkvæmdastjórans. Þá hefur hann farið eitthvað út fyrir bæjarvegginn og talað við mann, sem vissi ekki það, sem rétt var. Það er vorkunnarmál. Það getur komið fyrir okkur alla að leita á skakkan stað eftir því, sem við viljum finna. En ég er sannfærður um það, að fulltrúi Alþb. í stjórn Landsvirkjunar hefur ekki villt um fyrir manninum, því að ef hann hefði farið til hans, hefði hann fengið alveg sömu upplýsingar og ég fékk hjá framkvæmdastjóra Landsvirkjunar.

Hv. þm. var að tala um það, að þegar stöðin var tekin í notkun, hafi ekki verið nein hátíðahöld og það hafi verið vegna þess, að tölurnar um kostnaðinn hafi verið feimnismál. En það ber nú ákaflega lítið á milli hjá okkur um stofnkostnaðinn. Hv. 6. þm. Reykv. segir, að stofnkostnaðurinn sé 3.770 millj. Framkvæmdastjórinn segir hins vegar, að hann sé 3.760 millj. Þetta munar nú alveg ótrúlega litlu í samanburði við allt hitt, sem hv. þm. hefur sagt um þetta mál.

Hv. þm. spyr: Hver er kostnaður á kwst. nú? Því get ég ekki svarað, vegna þess að ég veit ekki, hvort það eru notuð núna 60 þús. kw frá Búrfelli eða 100 eða 110. Ég get vel trúað því, ef það eru ekki seld núna nema 60 þús. kw frá stöðinni, að kwst. kosti 45 aura. En ég hygg, að framleiðslan sé komin upp í 100 eða jafnvel 110 kw. Hitt er svo það, sem við erum allir sammála um og höfum vitað, að á fyrstu mánuðunum og jafnvel fyrstu árunum verður framleiðslan dýrari, en hún kemur til með að verða. Og það vinnst upp á seinna stigi, sem er erfitt í byrjun. Útreikningar stjórnar Landsvirkjunar liggja fyrir um það, að þetta er mjög hagstætt og að þeir, sem eru á þessu orkuveitusvæði, fá mun ódýrari raforku til heimilisnota heldur en þeir annars hefðu fengið. Auk þess fær þjóðin hundruð millj. kr. í gjaldeyri út úr þessu fyrirtæki, þegar það er komið í fullan gang.