21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég verð nú að biðja afsökunar á því, að ég gerði mér ekki grein fyrir því, að það væru svo miklar stórlygar í Þjóðviljanum eins og raun ber vitni. Þjóðviljinn segir, að kostnaðurinn sé þegar orðinn 3.770 millj. En ég hef ekki lesið þetta nógu nákvæmt. Ég taldi, að það, sem hv. þm. hefði meint, væri það, að kostnaðurinn yrði þetta. En hlutur hv. þm. batnar nú ekki við þetta. Hann verður nú anzi slæmur á eftir, þegar menn gera sér grein fyrir þessum staðreyndum. Hann fullyrðir, að stofnkostnaðurinn sé orðinn þetta. Og svo, til þess að smokka sér út úr þessari vitleysu, segir hann, að þetta hafi ekki verið borið undir stjórn Landsvirkjunar, stjórn Landsvirkjunar vissi ekkert um þetta, af því að ég hefði verið hér með allt aðrar tölur, sem væru hafðar eftir framkvæmdastjóranum. Framkvæmdastjórinn segir, að nú áætlist stofnkostnaður virkjunarinnar, með vöxtum á byggingartíma meðtöldum, 3.760 millj. kr. eða 42.7 millj. dollara, sem er 100 þús. dollurum lægra, en upphafleg áætlun. Og framkvæmdastjórinn segir, að í framangreindum tölum sé með talið það miðlunarrými í Þórisvatni, sem upprunalega var reiknað með og hugsað fyrir núv. Búrfellsvirkjun. En nú er til athugunar að ráðast í miklu meiri miðlun með tilliti til örari uppbyggingar kerfisins og nýrra virkjana í Tungnaá og síðari stækkunar á Búrfellsvirkjun.

En hv. 6. þm. Reykv. segir, að þetta kosti allt saman miklu meira. Það eigi eftir að bæta þarna við alls konar kostnaði, sem framkvæmdastjórinn veit ekkert um og stjórn Landsvirkjunar veit ekkert um. Ég verð að segja það, að það er raunalegt, að hv. þm. skuli setja sig í þessa aðstöðu, að menn geti ekki tekið mark á því, sem hann er að segja hér í ræðustólnum.

Eins og ég sagði hér í byrjun, getur það komið fyrir alla að fara með rangt mál, af því að þeir hafi fengið skakkar upplýsingar eða ekki gert sér grein fyrir því rétta. En þegar menn vilja ekki taka við leiðréttingu, þegar hún liggur alveg á borðinu, þá verður ákaflega erfitt að afsaka það. Og þetta tal um það, að við séum að gefa með orkuverðinu til álbræðslunnar, er ekki meira en það, sem alltaf hefur verið upplýst, að í byrjun yrði orkuframleiðslan dýrari en það, sem álverksmiðjan borgaði. En eins og kemur fram í þessu plaggi, sem ég er með fyrir framan mig og útreikningum framkvæmdastjórans, verður framleiðslukostnaðurinn talsvert lægri en álverksmiðjan borgar. Og það, sem skiptir náttúrlega verulegu máli er, að við fáum í heild á þessu orkuveitusvæði miklu ódýrari orku, en við annars hefðum átt kost á.

Tal um það, að núv. ríkisstj. og stjórnarflokkar hafi ekki trú á innlendum atvinnuvegum, hafi ekki þrek til þess að byggja þá upp, það er nokkuð, sem ekki tekur að ræða um við þennan hv. þm., vegna þess að það stangast ekki síður á við staðreyndir en annað, sem hér hefur verið um rætt. Það er vitað mál, að það er stefnumál núv. ríkisstj. að byggja upp og styrkja hina gömlu atvinnuvegi, jafnframt því sem nýjum stoðum er rennt undir atvinnulífið til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það er þetta markmið, sem núv. ríkisstj. stefnir að og hefur unnið betur að en nokkru sinni áður hefur verið gert. Þetta er það, sem flestir vita, og hv. 6. þm. Reykv. gerir sér ábyggilega grein fyrir þessu, enda þótt hann vilji ekki viðurkenna það á þessari stundu.

Þegar hann talar um 45 aura á kwst. og svo 26 aura, þegar það er komið í lágmark, þá tekur hann ekki til greina útreikninga framkvæmdastjóra Landsvirkjunar í því tilliti frekar en öðru og þá verð ég nú að segja það, að það er tilgangslaust að vera að ræða við þennan hv. þm., úr því að hann ekki vill taka neinum rökum og staðreyndum, sem liggja fyrir.