21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að lengja þessar umr. mikið, því að það var lítið, sem kom fram hjá hæstv. raforkumrh. Hann vildi helzt færa það til réttlætingar á raforkusamningnum við álbræðsluna í Straumsvík, þegar gerður er samanburður á honum og hliðstæðum samningum, sem Norðmenn hafa gert við hliðstæð fyrirtæki, að skattar mundu vera miklu lægri í Noregi. Samkvæmt þeim samningum, sem erlendar álbræðslur hafa gert við Norðmenn, verða þær að borga nákvæmlega sömu skatta og norsk fyrirtæki. Þær eru alveg undir norskum skattalögum. Ef það kann að koma fyrir, að það verði mikill halli á rekstri þeirra eða þær geri ekki betur en rétt að bera sig, þá verða skattarnir náttúrlega ekki mjög háir. En niðurstaðan er nú yfirleitt sú með þessi fyrirtæki og hefur sérstaklega verið svo nú síðari árin, að þau hafa verið rekin með mjög góðum hagnaði og þess vegna get ég ekki trúað því, að eins og málin standa nú, séu mjög lágir skattar á þessum fyrirtækjum í Noregi, því útþenslan hjá álbræðslunum bendir líka til þess, að þar sé ekki um nein tekjuhallafyrirtæki að ræða.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði um raforkuverðið, þá er það rétt, að allra fyrstu árin mun álbræðslan greiða 3 mill fyrir raforkuna, en gegn því fær hún lækkun á framleiðslugjaldinu, þannig að raunverulega borgar hún ekki nema 2,5 mill. Þessi breyting varð á sínum tíma vegna þess, að þegar Alþjóðabankinn fór að athuga þá rekstrarreikninga frá Landsvirkjun, sem hann fékk, taldi hann sig komast að raun um það, að það væri of lítið fyrir Búrfellsvirkjun að fá 2.5 mill fyrstu árin, hún yrði að fá a.m.k. 3 mill og því var það, sem þessi tilfærsla var gerð, að álbræðslan borgar 3 mill fyrstu árin, en fær um leið tilsvarandi lækkun á framleiðslugjaldinu. En svo, þegar samningarnir eru komnir til fullra framkvæmda, þá borgar hún ekki nema 2.5, en sams konar fyrirtæki, sem sömdu við Norðmenn á sama tíma, verða að borga 3.2. Þar er um 28% verðmun að ræða. Og ef það er rétt, sem stóð í Morgunblaðinu í byrjun þessa mánaðar, að þegar samningarnir eru komnir til fullra framkvæmda, borgi álbræðslan fyrir raforkuna 270 millj. kr., þá svarar það til þess, að hún mundi hafa þurft að borga um 75 millj. kr. meira, ef hér hefðu gilt sömu samningar um þetta efni og gerðir voru í Noregi á sínum tíma. Ég held, að sú tala nægi alveg til að sýna, hve óhagstæður þessi samningur var.