21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér inn í þá deilu eða þær umr., sem hér hafa orðið um Búrfellsvirkjun og sölu á rafmagni til álbræðslunnar, heldur vildi ég fara nokkrum orðum um efni þess frv., sem hér liggur fyrir.

Ég tel, að það sé eðlilegt, að þm. staldri nokkuð við, þegar það liggur ljóst fyrir, að leggja þarf allháan skatt á neytendur í landinu til þess að standa undir auknum rekstrarhalla Rafmagnsveitna ríkisins. Eftir því sem ég get gert mér grein fyrir þessu máli, þá mun þetta fyrst og fremst stafa af því, að á sínum tíma, — ég þori nú ekki að fullyrða, hversu langt er síðan, ég hygg, að það séu milli 15—20 ár síðan, — hafi forsvarsmenn Rafmagnsveitna ríkisins, þáv. raforkumálastjóri, tekið upp ranga stefnu í þessum málum. Það var þá lögð á það mjög rík áherzla, að ná sem allra flestum og helzt öllum rafmagnsveitum á landinu undir Rafmagnsveitur ríkisins, taka þær úr höndum einkaaðila, sem þá voru í flestum tilfellum hin ýmsu sveitarfélög og leggja þær undir Rafmagnsveitur ríkisins. Þetta tókst að nokkru leyti. En ef málið er skoðað, kemur það í ljós, að þau sveitarfélög, sem sáu fram á erfiðleika í sambandi við rekstur sinna rafveitna, féllust á að láta Rafmagnsveitur ríkisins taka við veitunum. Þegar svo kom að hinum stærri veitum, sem sýnt höfðu, að þær voru reknar með hagnaði, þá strandaði málið. Ég hygg, að það hafi verið í tíð vinstri stjórnarinnar, sem var gerð mjög hörð hríð að mörgum hinna stærri rafveitna, bæði með alls konar fagurgala um mjög hagstæða samninga og jafnvel hótunum við einstakar rafveitur í sambandi við fyrirgreiðslu, sem þær þurftu að fá innta af hendi og reynt að ná þessum stærri rafmagnsveitum undir Rafmagnsveitur ríkisins. En málið strandaði og síðan hefur þetta alltaf verið rekið, sem eðlilegt er, með nokkrum halla.

Ég minnist þess, að þegar ég átti sæti í fjvn., var forstjóri Rafmagnsveitna ríkisins kallaður þar á fund og hann beðinn að gera grein fyrir framtíðarrekstri Rafmagnsveitna ríkisins. Hann var þá með áætlun um framtíðarrekstur í nokkur ár, 4—5 ár fram í tímann, þar sem hann lagði það fyrir fjvn., að þessi halli mundi fara árminnkandi og hverfa að vissu árabili loknu. Auðvitað tók fjvn. þetta gott og gilt, en því miður hefur þetta ekki staðizt, heldur farið eins og sjá má af fjárl. og af því frv., sem hér liggur fyrir. Því miður sígur alltaf á verri hliðina, þannig að rekstrarhalli verður meiri og meiri og ég tel, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, hljóti að athuga, hvort ekki er hægt að finna leiðir til þess að bæta úr þessu.

Ég hef orðið þess var, að það er að skapast tilhneiging aftur hjá ýmsum aðilum til að breyta í hið fyrra form, þ.e. að einstaka sveitarfélög fái aðstöðu til þess að yfirtaka rafveitur aftur, kannske eitt sveitarfélag út af fyrir sig, en þó mun það vera frekar í því formi, að einstök landssvæði taki að sér rekstur tiltekinna rafveitna. Ég tel, að ef á þennan hátt væri hægt að komast út úr þessari sjálfheldu, sem ég tel að Rafmagnsveitur ríkisins og auðvitað Alþ. séu að komast í með rekstur hinna ýmsu rafveitna, sem heyra undir Rafmagnsveiturnar, sé sjálfsagt að athuga það og skoða mjög vel, hvort ekki er hægt að bæta úr þessu. Ég tel, að þetta sé það stórt mál, að þetta hljóti að verða að athuga og jafnframt tel ég, að það sé orðið tímabært að athuga alla uppbyggingu á þeirri stofnun, sem með þessi mál fer. Ég hef aflað mér nokkurra upplýsinga í þessu sambandi, en er ekki tilbúinn að ræða þær á þessu stigi, en ég tel að það sé sjálfsagt að athuga, hvort ekki er hægt að koma rafmagnsmálunum í heild fyrir á hagkvæmari hátt en þetta frv. gefur tilefni til að ætla í sambandi við rekstur á Rafmagnsveitum ríkisins.